Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyldusvið
  • Íþróttastarfsemi

Úrskurður nr. 953/1993

Virðisaukaskattur 1990-1991

Lög nr. 49/1956, 1. gr.   Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr. og 3. mgr. 5. tölul. (brl. nr. 119/1989, 1. gr. e-liður), 13. gr. 1. mgr., 27. gr. 6. mgr.  

I.

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 2. desember 1991, hefur umboðsmaður kæranda krafist þess aðallega að niður verði felld ákvörðun virðisaukaskatts á kæranda vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts frá upphafi árs 1990 og til loka ágústmánaðar 1991. Til vara er þess krafist að framlagðar virðisaukaskattsskýrslur vegna sömu tímabila verði lagðar til grundvallar ákvörðun skattsins. Þá er krafist niðurfellingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Kærandi hefur með höndum rekstur minigolfsalar ásamt sælgætissölu. Fram er komið í málinu að á árinu 1990 nam heildarsala vegna minigolfsalar 558.127 kr. og sælgætis- og gossala 135.518 kr. Á tímabilinu janúar til og með ágúst 1991 nam sala vegna minigolfsalar 175.285 kr. og sælgætis- og gossala 79.115 kr. Skattstjóri taldi starfsemina ekki geta talist íþróttastarfsemi í skilningi undanþáguákvæðis 5. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Væri því um að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi. Í framhaldi af bréfi skattstjóra, dags. 16. október 1991, lagði umboðsmaður kæranda fram með bréfi, dags. 26. sama mánaðar, sundurliðun rekstrartekna á einstök uppgjörstímabil virðisaukaskatts frá ársbyrjun 1990 til loka ágústmánaðar 1991. Hinn 31. október 1991 úrskurðaði skattstjóri kæranda skattskyldan aðila samkvæmt 3. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna, frá og með 1. janúar 1990. Þá tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 1. nóvember 1991 um ákvörðun virðisaukaskatts frá ársbyrjun 1990 til loka ágústmánaðar 1991. Byggði skattstjóri álagninguna á framkominni sundurliðun rekstrartekna varðandi skiptingu á uppgjörstímabil og ákvarðaði skattskylda veltu á hverju uppgjörstímabili, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, jafnháa tilgreindri heildarsölu tímabilsins. Þá ákvarðaði skattstjóri kæranda álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Með kæruúrskurði, dags. 20. nóvember 1991, féllst skattstjóri á tilgreindan innskatt samkvæmt framlögðum virðisaukaskattsskýrslum kæranda með kæru hans, dags. 14. nóvember 1991, en hafnaði að öðru leyti sömu kröfum og fram koma í kæru til ríkisskattanefndar.

Með bréfi, dags. 10. september 1991, greindi umboðsmaður kæranda skattstjóra frá því að strax við gildistöku virðisaukaskattsins hefði kærandi gert sér far um að kynna sér hvort rekstur minigolfs væri virðisaukaskattsskyldur rekstur eða ekki með samtölum við starfsfólk skattstofunnar og hjá ríkisskattstjóra. Niðurstöður þeirra viðræðna hefðu verið þær að honum skildist að þessi rekstur væri ekki virðisaukaskattsskyldur eins og með golf almennt, sbr. 5. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Önnur sala hafi ekki farið fram úr lágmarki, sbr. 3. tl. 4. gr. og 43. gr. sömu laga. Hefði kærandi því verið í góðri trú að þessu leyti. Krafðist hans þess að hvað sem liði niðurstöðu um skattskyldu kæranda, yrði honum ekki gert að greiða virðisaukaskatt fyrir liðinn tíma, heldur frá og með 1. degi þess mánaðar sem úrskurðurinn verði upp kveðinn. Var sama krafa ítrekuð í kæru til skattstjóra og til ríkisskattanefndar. Er fyrirliggjandi kröfugerð kæranda svohljóðandi:

„Í fyrsta lagi að virðisaukaskatturinn ... verði felldur niður fyrir árið 1990 og fram til 31. október 1991 því eins og fram kemur í bréfi okkar frá 10. september s.l. var umbjóðandi okkar í þeirri trú að starfsemi hans væri ekki virðisaukaskattskyld.

Í öðru lagi að meðfylgjandi virðisaukaskattsskýrslur verði grundvöllur endanlegrar álagningar. Skv. skýrslunum er útskatturinn reiknaður af brúttó tekjum þar sem að VSK var aldrei innheimtur og umbjóðandi okkar getur ekki skilað því sem hann hefur aldrei fengið. Greiddur innskattur á tímabilunum er og tilgreindur, en hann var meðtalinn áður með rekstrarkostnaði.

Í þriðja lagi að fallið verði frá álagningu álags skv. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. mgr. greinarinnar þar sem umbjóðandi okkar hafði gildar ástæður til að ætla að hann ætti ekki að innheimta virðisaukaskatt og vísast þar að lútandi til áður tilgreinds bréfs okkar frá 10. september s.l.“

II.

Með bréfi, dags. 30. september 1993, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Minigolfstarfsemi getur ekki fallið undir 5. tl. 2. mgr. (sic) virðisaukaskattslaga þar sem að starfsemi atvinnufyrirtækis eins og hér um ræðir getur ekki talist vera íþróttastarfsemi.

Ríkisskattstjóri fellst á að útskatturinn verði afreiknaður með 19,68%, sbr. 19. gr. virðisaukaskattslaga.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að þær ástæður sem raktar eru í kærubréfi nægi til að fella niður álag skv. 2. mgr. 27. gr. vskl.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Af hálfu kæranda virðist því ómótmælt að honum beri eftir þann tíma, er málið varðar, að standa skil á virðisaukaskatti af þóknun sem hann krefur viðskiptavini sína um fyrir aðgang að minigolfbrautum. Rétt þykir þó að hyggja nokkuð að þessu atriði. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er það meginregla að skattskylda samkvæmt lögunum nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. greinarinnar, en með henni er tæmandi talin vinna og þjónusta sem undanþegin er skattskyldu. Samkvæmt 5. tl. þeirrar málsgreinar, svo sem hann hljóðar með breytingu samkvæmt lögum nr. 119/1989, er „íþróttastarfsemi“ undanþegin skattskyldu. Sama gildir um aðgangseyri að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum. Hugtakið íþróttastarfsemi þykir bera að skýra í þessu sambandi til samræmis við ákvæði íþróttalaga nr. 49/1956, sbr. einkum 1. gr. þeirra laga. Verður skemmtistarfsemi af því tagi er kærandi hafði með höndum eigi talin falla hér undir. Engin lagaheimild er til þess að fella niður álagningu virðisaukaskatts er kæranda bar að standa skil á vegna ársins 1990 og tímabilið janúar til og með ágúst 1991. Hins vegar þykir mega fallast á aðrar kröfur hans í málinu. Lækkar virðisaukaskattur því svo sem greinir á breytingablaði og 20% álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 er fellt niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattur (útskattur) miðist við 19,68% af heildarrekstrartekjum kæranda. Álag falli niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja