Úrskurður yfirskattanefndar

  • Uppgjör rekstrartekna
  • Bifreiðakostnaður
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 962/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 99. gr. 1. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1992 fylgdi landbúnaðarskýrsla. Tekjur námu 301.876 kr., þar af vegna innleggs 21 dilks, 207.165 kr. og umboðslauna frá happdrætti X, 94.450 kr. Rekstrargjöld námu samtals 363.551 kr., þar af rekstrarkostnaður bifreiðar 181.896 kr. Í framhaldi af bréfaskiptum tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 18. maí 1991 (sic), að umboðslaun þessi hefðu verið færð af landbúnaðarskýrslu og talin kæranda til tekna í skattframtali. Leit skattstjóri svo á að umboðslaunin ættu ekkert skylt við landbúnað. Þá lækkaði skattstjóri bifreiðakostnað í 20.000 kr. Taldi hann umfang búrekstrar ekki gefa tilefni til slíks frádráttar. Staðfesti skattstjóri breytingar þessar með kæruúrskurði, dags. 12. október 1992.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 22. október 1992. Í kærunni segir:

„1. Umboðslaun frá happdrætti X flutt af landbúnaðarframtali á einkaframtal. Þessi umboðslaun voru sett á landbúnaðarframtal, en hefði eins mátt vera á sérstökum rekstrarreikningi síðan fært á samræmingarblað og þá fengist sama útkoma þar sem hvorug starfsemin er sérhæfð verður að teljast eðlilegt að gera reksturinn sameiginlega upp enda tilheyrir reiknað endurgjald hvoru tveggja starfseminni. Þá er þess að geta að árið áður var framangreind meðferð umboðslaunanna látin óátalin.

2. Lækkun rekstrarkostnaðar bifreiða. Þrátt fyrir að bú [kæranda] sé lítið þarf hann að nota bifreið verulega þar sem jörð hans er í um 27 km fjarlægð frá heimili hans. Á þessa jörð flytur hann sjálfur fé sitt á vorin og sækir á haustin auk ótal ferða vegna eftirlits, heyskapar, viðhalds girðinga og fleira.“

Með bréfi, dags. 4. júní 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Ekki hefur verið vefengt í máli þessu að kæranda hafi verið rétt að haga skattalegri meðferð umboðslauna frá happdrætti X svo sem um væri að ræða tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fær meðferð skattstjóra á tekjum þessum því ekki staðist, en hann hefur fært kæranda þær til tekna á skattframtali sem launatekjur. Á hitt er að líta að eigi var rétt að færa þessar tekjur á landbúnaðarskýrslu. Bar kæranda að láta fylgja með skattframtali sérstakt rekstraryfirlit vegna þessarar starfsemi sinnar. Krafa kæranda lýtur að því að tekjum þessum verði jafnað á móti tapi af landbúnaði. Með því að óumdeilt er að tap þetta stafi af eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi kæranda, er fallist á kröfuna. Það athugist að í kæruúrskurði sinnti skattstjóri í engu ábendingu umboðsmanns kæranda sama efnis og fram kemur í kæru til yfirskattanefndar. Fullnægir kæruúrskurður skattstjóra því eigi lagaboði um rökstuðning kæruúrskurða, sbr. 4. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.

Kærandi á heimili á Y-firði. Líta verður á akstur hans milli heimilis og jarðarinnar Z, þar sem hann virðist hafa búrekstur sinn, sem akstur í þágu kæranda sjálfs. Að þessu virtu eru ekki efni til að hagga við ákvörðun skattstjóra um bifreiðakostnað kæranda.

Samkvæmt framangreindu verður ónotað rekstrartap 753.952 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjuskattsstofn lækkar um 94.450 kr. Ónotað rekstrartap verður 753.952 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja