Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattfrjálsar tekjur
- Barnalífeyrir
Úrskurður nr. 1000/1993
Gjaldár 1992
Lög nr. 67/1971, 14. gr. 7. mgr. (brl. nr. 23/1987, 1. gr.), 35. gr. Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul.
I.
Í athugasemdakafla í skattframtali kæranda árið 1992 var getið um fenginn barnalífeyri, 80.351 kr. Með bréfi, dags. 27. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kæranda að barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 80.351 kr. hefði verið færður honum til tekna á framtali. Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 17. ágúst 1992. Kvað hann ekki rétt að færa þessar greiðslur til tekna þar sem um væri að ræða barnalífeyri sem greiddur væri þegar foreldri er látið og kæmi í stað menntunarmeðlags frá foreldri. Með kæruúrskurði, dags. 29. september 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeirri forsendu að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum væri ekki annað séð en hér væri um að ræða menntunarframlag foreldris samkvæmt 17. gr. laga nr. 9/1981, sbr. 7. mgr. 14. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sem væri skattskylt framlag samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefði Tryggingastofnun ríkisins dregið staðgreiðslu af umræddri greiðslu.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 15. október 1992. Er gerð svofelld grein fyrir kæruefninu:
„Fyrir liggur að umræddur barnalífeyrir hafi verið greiddur af Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli 7. mgr. 14. gr. og 35. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 1. gr. laga nr. 23/1987. Samkvæmt orðum 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst barnalífeyrir greiddur samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum ekki til skattskyldra tekna í skilningi síðastnefndra laga. Er þegar af þessari ástæðu krafist niðurfellingar álagningarinnar.
Jafnvel þótt svo yrði litið á að nefnd undanþáguákvæði ættu ekki við um umræddan barnalífeyri, heldur teljist til skattskyldra tekna samkvæmt upphafsorðum 2. tl. A-liðs 7. gr. nefndra laga, er til þess að líta að á móti þeim tekjum er leyfður frádráttur sá, sem um er getið í lokamálsgrein 30. gr. sömu laga með síðari breytingum. Er hér fullyrt, að umbjóðandi minn hafi orðið fyrir þeim umframkostnaði sem Tryggingastofnun ríkisins var að greiða honum og stafaði af breytingum á högum hans vegna atvika þeirra, sem frá er sagt í gögnum málsins, og leiddi til þeirrar greiðsluskyldu samkvæmt almannatryggingalögum. Er þannig útilokað að barnalífeyrinn geti myndað gjaldstofn hjá umbjóðanda mínum, enda nam nefndur kostnaður a.m.k. sömu fjárhæð og lífeyririnn. Þessi ástæða á einnig að leiða til þess að álagning skattstjóra verði felld niður.
Þess skal að lokum getið að svo virðist sem skattstjóri hafi eigi gætt réttra aðferða við framkvæmd umræddrar breytingar sinnar, sbr. 96. gr. laga nr. 75/1981, og er einnig krafist niðurfellingar hennar af þeirri ástæðu.“
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 30. júlí 1993, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda er úrskurður skattstjóra í samræmi við venjubundna túlkun 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.“
II.
Ómótmælt er af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra, að barnalífeyrir sá, sem um er deilt í máli þessu, hafi verið greiddur á grundvelli 7. mgr. 14. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 23/1987, um breytingu á þeim lögum. Þar er svo kveðið á um, að lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára, ef annað foreldri eða báðir eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Samkvæmt 2. ml. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal ekki telja til tekna barnalífeyri sem greiddur er skv. 14. gr. og 35. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar. Með vísan til þessa er fallist á kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda.