Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyldur aðili
  • Veltumörk

Úrskurður nr. 1210/1993

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 3. gr. 1. mgr. 1. tölul., 4. gr. 3. tölul., 5. gr. 1. mgr., 15. gr., 16. gr. 2. mgr., 26. gr. 4. mgr.   Reglugerð nr. 81/1991  

I.

Kæruefnið í máli þessu er ákvörðun skattstjóra um að gera kæranda að endurgreiða áður fenginn innskatt vegna uppgjörstímabilanna september-15. nóvember 1990 og 16. nóvember-desember 1990, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 2. júlí 1992, og kæruúrskurð, dags. 21. ágúst 1992. Er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

Fram er komið af kæranda hálfu, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. september 1992, og bréf, mótt. 9. október 1992, að hún hafi hafið rekstur sólbaðstofu í september 1990 og hætt honum í desember 1990 þar sem sýnt þótti að rekstrarárangur yrði ekki sá er stefnt var að. Með bréfi, dags. 1. mars 1991, tilkynnti kærandi skattstjóra að hún hefði hætt rekstrinum og óskaði eftir því að skráning hennar sem virðisaukaskattsskylds aðila yrði felld niður. Kærandi stóð skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila á gjalddaga þeirra. Skattskyld velta nam samtals 141.845 kr., útskattur 34.755 kr. og innskattur 16.813 kr.

Hinn 20. maí 1992 ritaði skattstjóri kæranda svofellt bréf:

„Skattstjóra ... hefur borist frá yður virðisaukaskattsskýrslur vegna ársins 1990. Samkvæmt ofangreindum skýrslum er skattskyld velta ársins kr. 141.845, en innskattur samtals kr. 16.813.

Með vísan til ofanritaðs og fyrirliggjandi gagna um atvinnurekstur yðar, sbr. 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988, virðist þér eigi vera háður virðisaukaskattsskyldu.

Jafnframt er athygli yðar vakin á ákvæði 4. mgr. 26. gr. tilvitnaðra laga, þar sem m.a. kemur fram að hafi endurgreiðsla verið of há skuli skattaðili endurgreiða innheimtumanni það sem ofgreitt hefur verið.

Skriflegt, rökstutt svar hafi borist skattstjóra innan 10 daga frá dagsetningu þessa bréfs.“

Að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 27. maí 1992, tilkynnti skattstjóri henni með bréfi, dags. 2. júlí 1992, að henni væri gert að endurgreiða innheimtumanni ríkissjóðs „virðisaukaskatt þann sem þér hafið fengið endurgreiddan úr ríkissjóði á grundvelli virðisaukaskattsskýrslna fyrir árið 1990 að fjárhæð kr. 16.813 innan átta daga frá dagsetningu bréfs þessa“. Komið hefði í ljós að „atvinnurekstur yðar var undir skattleysismörkum“. Vísaði skattstjóri til 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 að því er varðaði skattskyldu samkvæmt lögunum. Þá vísaði hann til 15. og 16. gr. laganna um rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum og 4. mgr. 26. gr. laganna að því er varðaði skyldu til leiðréttingar ofgreiddrar endurgreiðslu. Kröfum kæranda, er fram komu í kæru til skattstjóra, dags. 9. júlí 1992, aðallega að fallið yrði frá breytingunni og til vara að hún fengi endurgreiddan þann útskatt er hún hefði staðið skil á til ríkissjóðs, synjaði skattstjóri í kæruúrskurði, dags. 21. ágúst 1992, með vísan til rökstuðnings í bréfi sínu frá 2. júlí 1992.

Í kæru til yfirskattanefndar er túlkun skattstjóra á 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988 mótmælt. Þá er bent á að miðað við ársgrundvöll samsvari velta 425.535 kr.

Með bréfi, dags. 19. nóvember 1993, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, rann út þann 21. september 1992. Kærubréf kæranda barst yfirskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 9. október 1992. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.

Telji yfirskattanefnd þrátt fyrir ofangreinda annmarka á málatilbúnaði kæranda að taka eigi efnislega afstöðu til kæruatriða gerir ríkisskattstjóri svofelldar athugasemdir.

Samkvæmt 3. tl. 4. gr. virðisaukaskattslaga þá kemur fram að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 100.000 kr. á ári (fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu) séu undanþegnir skattskyldu. Í greinargerð með ákvæðinu er tilganginum með ákvæðinu lýst en hann er að undanþiggja mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem eingöngu er rekin í hjáverkum og stöku sinnum. Þetta helgast fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum.

Sú sólbaðstofa sem um er fjallað í málinu verður ekki talin falla undir fyrrgreint ákvæði 3. tl. 4. gr. virðisaukaskattslaga, en telja verður að starfsemin hafi verið rekin í atvinnuskyni sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga þó svo reksturinn hafi ekki náð lágmarksveltu sbr. 3. tl. 4. gr. laganna. Ekkert bendir til annars en að þarna hafi verið um atvinnustarfsemi að ræða sem rekin var með gróðasjónarmið í huga þó svo reksturinn hafi ekki gengið eins og vonir stóðu til. Í ákvæðinu er talað um veltu á 12 mánaða tímabili en velta kæranda var á því þriggja mánaða tímabili er reksturinn varði kr. 141.845 en lágmarksvelta skv. ákvæðinu var á árinu 1990 kr. 155.800. Af þessu má sjá að veltan er hlutfallslega langt yfir þeim viðmiðunarmörkum er ákvæðið greinir frá um lágmarksveltu. Ekki kemur heldur neitt fram í málinu um að villandi upplýsingar hafi verið gefnar við stofnun sólbaðstofunnar í því skyni að ná út innskatti en innskatturinn sem fékkst var einungis smávægilegur.

Ríkisskattstjóri fellst því á þær kröfur gjaldanda að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi.“

II.

Kæra í máli þessu, dags. 20. september 1992, barst yfirskattanefnd mánudaginn 21. sama mánaðar og var þannig gætt kærufrests til nefndarinnar. Engin efni eru því til að verða við kröfu ríkisskattstjóra um frávísun kærunnar.

Ljóst þykir að kærandi var skráningarskyld samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna þess atvinnurekstrar sem í málinu greinir. Útskattur nam hærri fjárhæð en innskattur á rekstrartímanum. Stóðu engin ákvæði laga nr. 50/1988 til þeirrar niðurstöðu skattstjóra að gera kæranda að greiða til baka þann innskatt sem hún hafði fengið endurgreiddan. Átti hér hvorki við ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna, sem eingöngu tekur til þess þegar endurgreiðsla innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt 1. mgr. greinarinnar hefur verið of há, né varð byggt á reglum um leiðréttingu innskatts, sbr. reglugerðarheimild í 2. ml. 2. mgr. 16. gr. laganna, þegar af þeirri ástæðu að slíkar reglur voru fyrst settar með reglugerð nr. 81, 18. febrúar 1991. Er því fallist á kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja