Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 196/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 13. gr. 1. mgr. — 32. gr. — 38. gr. 1. tl. — 44. gr. 1. mgr. 1. og 2. ml. — 59. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. og 4. mgr.  

Fyrning — Fyrnanleg eign — Lausafé — Fyrnanlegt lausafé — Fyrningarhlutfall — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Sérstök fyrning á móti skattskyldum söluhagnaði — Sérstök fyrning á móti tekjufærslu vegna verðbreytingar — Bifreið — Fólksflutningabifreið — Skólaakstur — Reiknað endurgjald — Landbúnaður — Búrekstur — Eigin atvinnurekstur — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Rekstrartap — Rekstrartap myndað með reiknuðu endurgjaldi — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Skattframtal, vefenging — Síðbúin framtalsskil — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Skattframtal í stað áætlunar — Áætlun — Áætlun skattstofna

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1988. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum að viðbættu 25% álagi skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með kæru, dags. 4. ágúst 1988, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1988 til skattstjóra og fór fram á, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 án álags vegna síðbúinna framtalsskila.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 29. september 1988, og féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1988 með breytingum varðandi fyrningarhlutfall bifreiðar og fjárhæðir reiknaðs endurgjalds kærenda við búrekstur, sem ágreiningur þessa máls snýst um. Eru ágreiningsefnin nánar sem hér segir:

1) Fyrningarhlutfall bifreiðar. Kærandi, A, stundar akstur í atvinnuskyni, þar á meðal skólaakstur. Samkvæmt málsgögnum seldi hann á árinu 1987 bifreið af gerðinni Subaru 1800, er hann hafði notað til akstursins og keypti aðra bifreið, sem tilgreind er í fyrningarskýrslu sem bifreið til skólaaksturs. Kaupverð þessarar bifreiðar var 625.000 kr. Bifreiðina fyrndi kærandi 20% almennri fyrningu eða um 125.000 kr. Í hinum kærða úrskurði lækkaði skattstjóri fyrningarhlutfall bifreiðarinnar úr 20% í 10% og fyrningarfjárhæð því úr 125.000 kr. í 62.500 kr. eða um 62.500 kr. og hækkaði hreinar tekjur kæranda af þessari starfsemi að sama skapi. Skattstjóri skírskotaði til 2. gr. laga nr. 2/1988, er breytti 1. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og til eðlis starfsemi kæranda samkvæmt rekstraryfirliti.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. október 1988, mótmælir umboðsmaður kæranda lækkun skattstjóra á fyrningarhlutfalli bifreiðarinnar og heldur því fram, að nefnt lagaákvæði eigi ekki við um bifreiðina, þar sem hún sé einkum notuð til fólksflutninga í atvinnuskyni.

2) Reiknað endurgjald við búrekstur. Kærendur, sem reka sauðfjárbú, reiknuðu sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þá starfsemi rekstrarárið 1987, kærandi, A, 267.380 kr. og kærandi, B, 100.000 kr. Í hinum kærða úrskurði, dags. 29. september 1989, gerði skattstjóri breytingar á fjárhæð reiknaðs endurgjalds kærenda. Hann lækkaði reiknað endurgjald kæranda, A, úr 267.380 kr. í 73.750 kr. en hækkaði reiknað endurgjald kæranda, B, úr 100.000 kr. í 147.500 kr. Við þetta varð hagnaður af búrekstri 56.466 kr. í stað rekstrartaps áður 89.664 kr. Forsendur skattstjóra fyrir þessum breytingum eru svohljóðandi í hinum kærða úrskurði: „Á landbúnaðarskýrslu kemur fram, án nokkurra skýringa, gerbreyting frá fyrri framtölum á vinnuframlagi kærenda við reksturinn. Með tilliti til niðurskurðar á fjárstofni haustið 1987, aksturstekna A og vinnulauna hjónanna frá öðrum og samanburð við fyrri framtöl, verður þessi breyting ekki tekin til greina.“ Þá kemur fram af hálfu skattstjóra, að hann taki tillit til framtalins reiknaðs endurgjalds í framtali árið 1987.

Af hálfu kærenda, er breytingum skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi mótmælt í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 28. október 1988. Til vara er gerð svofelld krafa um sérstaka fyrningu á móti söluhagnaði og tekjufærslu vegna verðbreytinga:

„Einnig er breytingum á reiknuðum launum í landbúnaði mótmælt, en til vara er þess krafist að móti hagnaði þeim er fram kemur við lækkun reiknaðra launa verði heimilaðar aukaafskriftir kr. 78.061.00 móti söluhagnaði bifreiðar og kr. 73.842.00 móti 40% af tekjufærslu vegna verðbreytinga á landbúnaðarskýrslu.

Aukaafskriftir þessar skulu koma á eftirfarandi liði:

Fjárhús, hlaða: bókf.verð skv.framt. kr. 224.188,00 aukaafskr. kr. 30.000,00

Fjárhús: bókf.verð skv.framt. kr. 721.688,00 aukaafskr. kr. 73.842,00

Hlaða: bókf.verð skv.framt. kr. 495.976,00 aukaafskr. kr. 48.061,00“

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda: „Fallist er á varakröfu en að öðru leyti er gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Um 1. tl. Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið af gerðinni Subaru 1800 STW GL 4WD og keypt 27. maí 1987. Að þessu athuguðu og með skírskotun til 1. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þessum tölulið var breytt með 2. gr. laga nr. 2/1988 þykir bera að synja kröfu kæranda um þetta kæruatriði. Rétt er að taka fram að út af fyrir sig er eigi ágreiningur um það í málinu, að bifreið þessi geti talist fyrnanleg eign.

Um 2. tl. Að því er varðar hinar umdeildu breytingar á reiknuðu endurgjaldi kærenda er þess að geta að skattstjóri hefur skírskotað til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Reyndar braut gjaldfærsla reiknaðs endurgjalds kærenda í landbúnaðarskýrslu í bága við 4. mgr. 4. gr. nefndra laga að því marki, sem hún myndaði rekstrartap. Í raun byggðust breytingar skattstjóra þó á efnislegri vefengingu þess endurgjalds, sem kærendur reiknuðu sér, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Verður við það miðað í úrlausn þessari, enda þykir nefndur ágalli eigi kippa stoðunum undan breytingum skattstjóra. Að virtum öllum málavöxtum, þar á meðal minni búsumsvifa frá fyrra ári vegna förgunar bústofns, þykja engin efni til þess að hagga við hinum kærðu breytingum skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi. Að virtum málsatvikum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er hins vegar fallist á framkomna varakröfu um sérstakar fyrningar 151.903 kr. Hreinar tekjur í reit 62 verða samkvæmt þessum niðurstöðum 140.134 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja