Úrskurður yfirskattanefndar

  • Atvinnurekstrareign
  • Húsaleigutekjur

Úrskurður nr. 1243/1993

Gjaldár1990

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 2. mgr., 23. gr., 53. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1990 fylgdi ársreikningur vegna eignaleigu á árinu 1989. Er þar m.a. gerð grein fyrir tekjum og gjöldum vegna útleigu M-götu. Á efnahagsreikningi hafði kærandi gert leiðréttingarfærslu vegna íbúðarinnar. Svohljóðandi athugasemd var neðanmáls á fyrningarskýrslu:

„Á árinu 1988 seldi ég B ... öll áhöld, tæki og annað tilheyrandi kvöldsölunni að X eins og fram kemur á rekstrarreikningi þess árs. Hluta af söluverðinu greiddi B með íbúð að M-götu sem verðlögð var á kr. 3.300.000.- Sjá fylgirit RSK 3.02 með skattframtali 1989.“

Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 1990, að útleiga íbúðarhúsnæðis að M-götu teldist ekki atvinnurekstur. Gjaldaliðurinn „kostnaður vegna M-götu“ að fjárhæð 1.153.572 kr. hefði því verið felldur út af rekstrarreikningi. Einnig hefðu tekjur 84.000 kr. verið felldar niður þar og færðar á sérstakt rekstraryfirlit vegna útleigu íbúðarhúsnæðis. Þar sem hvorki sölutap, vextir né sölulaun teldust frádráttarbær gjöld þar hefðu 69.652 kr. verið færðar til tekna í reit 72 á skattframtali. Ennfremur kom fram hjá skattstjóra að ekki væri fallist á þau sjónarmið kæranda „að bakfæra úttekt íbúðar úr rekstri á framtali 1989 til þess að gjaldfæra sölutap vegna hennar“.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu skattstjóra með kæru, dags. 22. ágúst 1990. Þar segir:

„Forsendan fyrir kæru þessari er sú að umbjóðandi minn telur rangt hjá skattstofu að strika út kostnaðarliðinn „kostnaður vegna M-götu“.

Fram kemur í skýringum neðst á Fyrningar- og endurmatsblaði því sem fylgir ársreikningi 1989 að á árinu 1988 seldi umbjóðandi minn öll áhöld, tæki og annað tilheyrandi kvöldsölunni að X, eins og fram kemur á rekstrarreikningi þess árs. Hluta af söluverðinu greiddi kaupandinn með íbúð að M-götu, og var hún verðlögð á kr. 3.300.000.00.

Við framtalsgerð 1989 vegna 1988 gætti þáverandi aðstoðarmaður umbjóðanda míns við framtalsgerðina ekki þess að færa upp eign þessa í efnahagsreikningi ársreiknings pr. 31. 12 1988.

Við framtalsgerð 1990 er bætt úr þessum vanköntum og kaupverð eignar þessarar framreiknað eins og lög gera ráð fyrir.

Til greina hefði komið að líta á greiðslumiðil þennan (Fasteignina) sem veltufjármun og taka kaupverðið með við útreikning verðbreytingarfærslu ársins. En það hefði leitt til sömu niðurstöðu og fékkst við þá aðferð sem við var höfð.

Þar sem það liggur augljóslega fyrir að verð íbúðarinnar að M-götu er hluti af andvirði því sem umbjóðandi minn fékk fyrir öll áhöld, tæki og annað varðandi sölu kvöldsölunnar að X, þá hlýtur hann að eiga að færa eign þessa til eignar í ársreikningi sínum vegna rekstursins. Þegar hann svo selur þennan sama hlut á árinu 1990 þá á hann að tíunda það út úr efnahag ársreikningsins hvort heldur er um að ræða tap eða hagnað.

Ég fer hér með fram á að álögð opinber gjöld á ofanritaðan umbjóðanda minn verði leiðrétt með tilliti til þess sem að framan segir.“

Að ósk skattstjóra, sbr. bréf dags. 9. janúar 1991, lagði kærandi fram kaupsamning vegna sölu á kvöldsölunni að X.

Með úrskurði, dags. 11. febrúar 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Voru forsendur hans svohljóðandi:

„Ekki er fallist á þau rök kæranda að um hafi verið að ræða eign sem tilheyrði atvinnustarfseminni. Eignina bar að færa inn á persónuframtal og er því tap sem kann að myndast við sölu á eigninni atvinnurekstrinum óviðkomandi. Ef eignin hefði tilheyrt rekstri þá hefðu skuldir henni viðkomandi einnig átt að koma inn í verðbreytingarfærslu.“

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. febrúar 1991. Mótmælir hann synjun skattstjóra og vísar til fyrirliggjandi kaupsamnings þar sem fram komi að hluti af söluverði kvöldsölunnar að X var greiddur með íbúðinni að M-götu. Í kærunni kemur fram að umboðsmanni kæranda hafi láðst að taka yfirteknar skuldir sem fylgdu fasteigninni með í útreikning verðbreytingarfærslu ársins. Eftirstöðvar yfirtekinna skulda varðandi M-götu hafi verið 900.686 kr. í árslok 1988 og ætti verðbreytingartekjufærslan að hækka um 200.313 kr. Fer hann fram á að þetta verði leiðrétt. Kærunni fylgdi ljósrit kaupsamnings vegna íbúðarinnar.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í úrskurði sínum byggði skattstjóri synjun kærunnar öðrum þræði á því að kærandi hefði ekki tekið skuldir vegna M-götu með við útreikning verðbreytingarfærslu. Umboðsmaður kæranda hefur nú farið fram á leiðréttingu á þessu atriði.

Samkvæmt kaupsamningi vegna sölu kæranda á söluturninum að X, dags. 18. ágúst 1988, var hluti söluverðs greiddur með íbúðinni að M-götu. Var íbúðin metin á 3.300.000 kr. Þegar litið er til þess með hvaða hætti íbúðin komst í eigu kæranda verður að telja að hún tilheyri atvinnurekstri hans, ásamt skuldum sem henni tilheyra og vaxtakostnaði. Hins vegar verður ekki fallist á að útleiga kæranda á íbúðinni teljist til atvinnurekstrar hans, sbr. lokamálslið 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ber því að færa leigutekjur að frádregnum beinum kostnaði til tekna á framtal kæranda. Kærandi seldi íbúðina með kaupsamningi, dags. 11. september 1989, á 3.050.000 kr. Að svo vöxnu þykir mega fallast á að meðferð á sölutapi verði háttað á þann veg sem kærandi hefur gert í reikningsskilum sínum. Er krafa kæranda því tekin til greina, en jafnframt er fallist á beiðni um leiðréttingu á verðbreytingarfærslu. Til tekna í reit 62 á framtali kæranda færast leigutekjur að frádregnum kostnaði, 69.652 kr. Yfirfæranlegt tap verður 265.473 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda varðandi meðferð sölutaps íbúðar og beiðni um leiðréttingu á verðbreytingarfærslu. Til tekna í reit 62 á framtali færast 69.652 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja