Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 1257/1993

Gjaldár 1992

Lög nr. 39/1971, 10. gr.   Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 3. mgr. 1. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdum kærenda á skattframtali 1992 var óskað eftir vaxtabótum vegna íbúðarhúsnæðis að G-götu, sem þau væru að koma sér upp. Vegna starfa hjá íslenska ríkinu í X-landi gætu þau ekki búið að staðaldri í húsinu og því færu þau fram á að sú skylda yrði metin eins og búseta hér á landi. Á fylgiskjali með skattframtali var m.a. gerð grein fyrir tekjum af húsaleigu að G-götu, og kostnaði vegna hennar og jákvæður mismunur talinn með öðrum eignatekjum til tekna í lið 8 á skattframtali. Þá voru færð í reit 87 á skattframtali vaxtagjöld 451.450 kr. á grundvelli greinargerðar um vaxtagjöld, (RSK 3.09), er fylgdi skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1992, tilkynnti skattstjóri kærendum að framtalin vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtabóta hefðu verið felld niður þar sem þau uppfylltu ekki það skilyrði 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, að vera sannanlega af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Með eigin notum væri átt við að húsnæðið væri nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum.

Með kæru, dags. 22. ágúst 1992, kærðu kærendur breytingu skattstjóra til hans. Kom fram í kæru að umrætt húsnæði væri efsta hæð G-götu og væri eina íbúðarhúsnæðið er þau ættu. Það hefði komið í stað húseignar að H-götu þar sem þau hefðu búið um árabil eða til þess tíma um áramótin 1986/87 að kærandi, A, hefði þurft að sæta þeirri starfskvöð starfsmanna utanríkisþjónustunnar, sbr. 10. gr. laga nr. 39/1971, að dveljast erlendis um óákveðinn tíma á vegum íslenska ríkisins. Í kærunni var vikið að tilgangi og túlkun tilvitnaðs lagaákvæðis með þeim hætti að það gæti varla hafa verið ætlun löggjafans að undanskilja starfsmenn utanríkisþjónustunnar rétti til að njóta umræddra vaxtahlunninda á meðan þeir væru að fullnægja lagaskyldu um störf erlendis. Það væri ekki eðlilegt að túlka lögin eins og þeim væri beint gegn fámennum hópi ríkisstarfsmanna sem gegndu umræddum störfum. Tóku kærendur fram að þau hefðu á síðastliðnu ári nýtt húsnæðið, annað eða bæði, þegar þau hefðu dvalið á Íslandi, samtals í nær ársfjórðung. Í niðurlagi kærunnar vísuðu þau til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 515/1991 því til staðfestingar að viðmiðunarákvæðið um eigin not íbúðar væri ekki ófrávíkjanlegt þegar sérstakar ástæður væru fyrir hendi.

Í kæruúrskurði, dags. 19. nóvember 1992, féllst skattstjóri ekki á að aðstæður kærenda veittu þeim rétt til vaxtabóta samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Rökstuddi hann niðurstöðu sína með því að af fyrirliggjandi framtalsgögnum yrði ekki annað séð en að íbúð kærenda hefði verið í útleigu undanfarin ár og að þau hefðu ekki búið í íbúðinni eins og áskilið væri samkvæmt umræddu lagaákvæði. Þá taldi hann tilvitnaðan úrskurð ríkisskattanefndar í kæru ekki vera sambærilegan við mál kærenda t.a.m. hefði sá er þar átti í hlut engan arð borið af sinni íbúð.

II.

Með kæru, dags. 18. desember 1992, hafa kærendur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og gera þá kröfu að hún ógildi hann. Í kærunni greinir að þeim sé synjað um vaxtabætur af því þau geti ekki nú um stundarsakir vegna lagaskyldu samkvæmt sérlögum búið í sínu eigin íbúðarhúsnæði. Með öðrum orðum sé um það sótt að þau megi á grundvelli þeirrar meginreglu íslensks réttar, að allir þjóðfélagsþegnar skuli vera jafnir fyrir lögunum, að fá notið þeirra hlunninda sem skattalög áskilja fólki við að tryggja sér þak yfir höfuðið. Er tekið fram í kæru að þau hyggist flytja í umrætt húsnæði jafnskjótt og umræddri starfskvöð létti og benda á að einnig sé nú um að ræða hlutaafnot þeirra af húsnæðinu. Einnig er fyrri rökstuðningur í kæru til skattstjóra ítrekaður. Þá gera þau þá athugasemd við málsmeðferð skattstjóra að sami aðili hafi kveðið upp kæruúrskurð og fjallað hefði um málið í byrjun. Virðist þeim slík málsmeðferð illa samræmast þróun íslensks réttar og nýlegum umfangsmiklum breytingum réttarfarslaga í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu.

Með bréfi, dags. 30. apríl 1993, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með símtali þann 5. maí 1993 var af hálfu kærenda óskað eftir við yfirskattanefnd að þau fengju tækifæri til að rökstyðja frekar mál sitt í tilefni kröfugerðar ríkisskattstjóra. Var á það fallist með bréfi hennar dagsettu sama dag og áskilið að skrifleg greinargerð skyldi berast henni innan 30 daga frá dagsetningu þess. Hefur engin slík greinargerð borist þegar úrskurður þessi er uppkveðinn.

III.

Að því virtu sem fyrir liggur í máli þessu um eigin not kærenda af umræddri íbúð og að virtum ákvæðum 10. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, þykir mega fallast á kröfu kærenda í máli þessu. Vegna athugasemdar í kæru skal tekið fram að eigi þykja neinir þeir ágallar vera á málsmeðferð skattstjóra sem eiga að valda ógildingu breytingar hans.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja