Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Skattstofn vegna fasteignar
Úrskurður nr. 86/2017
Lög nr. 14/2004, 4. gr. 3. mgr. b-liður. Lög nr. 37/1993, 7. gr.
Talið var leiða af skýlausum ákvæðum laga um erfðafjárskatt að ákvarða bæri skattstofn vegna fasteignar, sem dánarbú H seldi í júlí 2016, miðað við skráð fasteignamatsverð á dánardegi H, enda hafði ekki verið óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum.
Ár 2017, miðvikudaginn 10. maí, er tekið fyrir mál nr. 26/2017; kæra A, B, C, D og E, dags. 2. mars 2017, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 2. mars 2017, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi H, sem lést ... mars 2016, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 13. september 2016. Er þess krafist í kærunni að við ákvörðun á verðmæti fasteignarinnar G verði miðað við söluverð eignarinnar 30.000.000 kr. að frádregnum sölukostnaði 779.000 kr. í stað fasteignamatsverðs fasteignarinnar 54.800.000 kr. og að skattstofn erfðafjárskatts kærenda verði lækkaður til samræmis. Til vara er þess krafist að fallist verði á lækkun skattstofns til erfðafjárskatts með lægri fjárhæð að mati yfirskattanefndar. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumann að skrásetja og verðmeta fasteignina til peningaverðs samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Loks er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Helstu málavextir eru þeir að kærendum var veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi H 31. mars 2016. Hinn 11. september 2016 lögðu kærendur fyrir sýslumann erfðafjárskýrslu til ákvörðunar erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúinu. Í skýrslunni var skattstofn vegna fasteignarinnar G tilgreindur 29.221.000 kr. Með bréfi til sýslumanns, dags. 24. október 2016, greindu kærendur frá því að þau hefðu talið rétt að gera grein fyrir verðmæti fasteignarinnar með söluverði 30.000.000 kr. að teknu tilliti til sölukostnaðar 779.000 kr. Fasteignin hefði verið seld sveitarfélaginu X fyrir þá fjárhæð sem talin hefði verið raunvirði fasteignarinnar samkvæmt mati matsmanna X og fasteignasala. Þegar komið hefði að sölu eignarinnar hefði komið fram að fasteignamat hennar væri of hátt, enda talið að eignin yrði þung í sölu og erfið í fjármögnum. Hefði raunvirði eignarinnar verið talið liggja á bilinu 25-30 milljónir króna. Húsið hefði verið byggt árið 1946 og fylgdu því þrjú útihús. Þá væru engin önnur hús í nágrenninu. Af þessum sökum væri mögulegur kaupendahópur takmarkaðri en ella. Væru húsin samtals 260 fm en lóðin 214 fm. Hefðu kærendur því leitað til X um kaup á fasteigninni.
Með bréfi til kærenda, dags. 31. janúar 2017, tilkynnti sýslumaður kærendum um ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi H. Kom fram að ágreiningur væri um verðmæti fasteignarinnar G. Í beiðni erfingja um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu hefði fasteignin verið tilgreind á fasteignamatsverði 54.800.000 kr. Væri það mat sýslumanns að þrátt fyrir skýringar kærenda í greinargerð, dags. 24. október 2016, skyldi skattstofn erfðafjárskatts vegna fasteignarinnar byggjast á fasteignamati eignarinnar á dánardegi hins látna eða 54.800.000 kr., sbr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Tók sýslumaður fram að væri almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð hennar væri erfingjum heimilt að óska eftir mati samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Væri þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið. Samkvæmt afsali vegna fasteignarinnar G hefði kaupsamningur og afsal verið gefið út 18. júlí 2016. Eigninni hefði því þegar verið ráðstafað við skiptin þegar erfðafjárskýrsla hefði verið lögð fram og væri því ekki lagaheimild til að láta meta eignina til peningaverðs. Að mati sýslumanns bæri því að leggja fasteignamat eignarinnar, eins og það hefði verið skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda, til grundvallar ákvörðun erfðafjárskatts eða 54.800.000 kr.
III.
Með kæru, dags. 2. mars 2017, hafa kærendur skotið ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar. Er greint frá kröfugerð kærunnar hér að framan í kafla I. Í kærunni er rakið að kærendur hafi leitað ráðgjafar fasteignasala um hvernig hentugast væri að selja fasteignina G. Hafi fasteignasalar talið erfitt að verðmeta fasteignina vegna staðsetningar hennar og skipulags. Hafi kærendur í kjölfarið leitað til X um möguleg kaup bæjarins á fasteigninni. Hafi það verið mat bæði fyrrnefndra fasteignasala og fulltrúa X að fasteignamat eignarinnar væri langtum hærra en raunverulegt vermæti hennar. Hafi X gert kærendum tilboð í fasteignina upp á 30.000.000 kr. og hafi því tilboði verið tekið. Á greindum tíma hafi kærendur einnig leitað ráðgjafar hjá sýslumanni. Kærendur hafi lagt fram erfðafjárskýrslu 13. september 2016 og í framhaldi af því hafi umboðsmaður kærenda verið boðaður á fund sýslumanns og honum tilkynnt að samkvæmt lögum um erfðafjárskatt bæri að telja fasteignir fram á fasteignamatsverði eins og það væri skráð í Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Hafi sýslumaður þá upplýst um að kærendum hefði verið heimilt til að óska eftir mati samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 á verðmæti fasteignarinnar, en sú heimild ætti þó einungis við um eignir sem ekki hefði verið ráðstafað.
Fram kemur í kærunni að kærendur telji að rökstuðningur sýslumanns fyrir hinni kærðu ákvörðun fái ekki staðist. Er bent á að samkvæmt 17. gr. laga nr. 20/1991 sé erfingja heimilt, sé skiptum dánarbús ekki lokið og dánarbú ekki verið tekið til opinberra skipta, að krefjast þess að eignir dánarbús, sem ekki hafi þegar verið ráðstafað við skipti, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Ágreiningslaust sé að verðmæti fasteignarinnar G hafi verið lægra en sem numið hafi fasteignamatsverði hennar á dánardegi arfleifanda. Ákvörðun sýslumanns sé hins vegar aðeins byggð á því að kærendur hafi ekki óskað eftir verðmati á fasteigninni áður en henni hafi verið ráðstafað. Á sýslumanni hvíli leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi kærendur ítrekað leitað eftir leiðbeiningum frá sýslumanni vegna skiptanna. Kærendur hafi hins vegar fyrst fengið leiðbeiningar á fundi 11. september 2016 þegar búið hafi verið að ráðstafa fasteigninni. Er vísað til þess í kæru að hin kærða ákvörðun sýslumanns byggi á röngum forsendum sem leiði til brots á jafnræði erfingja. Þá er vísað til meðalhófsreglu í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sýslumaður hafi tekið þá ákvörðun sem sé mest íþyngjandi fyrir kærendur. Þrátt fyrir að skiptum dánarbúsins sé ekki enn lokið megi heimfæra málsatvik til 4. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1991 þar sem kveðið sé á um að þótt skiptum hafi verið lokið með framsali eigna geti erfingi, sem rökstyðji fyrir sýslumanni að eignir kunni að hafa verið vantaldar, krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum samkvæmt 17.-23. gr. laganna. Hin umdeilda ákvörðun sýslumanns byggi ekki á raunverulegu verðmæti G og sé því fullt tilefni til að fela sýslumanni að skrásetja og meta umrædda fasteign til peningaverðs, enda sé ekkert því til fyrirstöðu þótt fasteignin hafi verið seld.
IV.
Með bréfi, dags. 9. mars 2017, hefur sýslumaður lýst því yfir að hann hafi ekki athugasemdir vegna fram kominnar kæru. Vísar sýslumaður til ákvörðunar sinnar, dags. 31. janúar 2017, og fyrirliggjandi gagna.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. mars 2017, var kærendum sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi H, sem lést hinn ... mars 2016, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 13. september 2016. Lýtur ágreiningur málsins að ákvörðun skattstofns erfðafjárskatts vegna fasteignar að G sem dánarbú H seldi með kaupsamningi, dags. 18. júlí 2016. Er krafa kærenda sú að skattstofn vegna fasteignarinnar verði miðaður við söluverð hennar í greindum viðskiptum 30.000.000 kr. að teknu tilliti til sölukostnaðar 779.000 kr. í stað fasteignamatsverðs eignarinnar 54.800.000 kr. sem sýslumaður taldi að leggja bæri til grundvallar. Til stuðnings kröfunni er m.a. vísað til þess í kæru til yfirskattanefndar að það sé meginregla laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, að miða beri skattstofn erfðafjárskatts við almennt markaðsverðmæti eigna, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna. Er bent á að það hafi verið mat fasteignasala og fulltrúa X, kaupanda fasteignarinnar, að skráð fasteignamat G hafi verið of hátt. Þá er fundið að því í kæru kærenda að sýslumaður hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni og meðalhófsreglu við meðferð málsins, en það hafi verið fyrst á fundi í kjölfar þess að kærendur lögðu fram erfðafjárskýrslu sem sýslumaður hafi vakið athygli kærenda á þeim möguleika að óska eftir mati samkvæmt lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum, á verðmæti fasteignarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram í þeirri málsgrein að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er að finna sérreglur um skattstofn vegna tiltekinna eigna og tekur b-liður málsgreinarinnar til fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laganna skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Í 2. mgr. stafliðarins er svohljóðandi ákvæði:
„Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi matsgjörð, ekki eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.“
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., er erfingja heimilt meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist þess að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Skal kröfu um þessar aðgerðir beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 eru frekari ákvæði um slíkt mat á eignum og skuldum dánarbús og framkvæmd þess. Kemur m.a. fram í 2. mgr. 18. gr. laganna að sé slíks mats krafist skuli sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra sé haldið, sbr. frekari ákvæði um hæfi matsmanns og skyldur í 2. og 3. mgr. greinarinnar.
Fyrir liggur að af hálfu kærenda var ekki óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar að G samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 20/1991, heldur var eignin seld í júlí 2016, sbr. hér að framan. Leiðir því af skýlausum ákvæðum laga nr. 14/2004, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. þeirra, að ákvarða ber skattstofn fasteignarinnar miðað við fasteignamatsverð eins og það var skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi arfleifanda. Hvorki verður þeim mötum löggiltra fasteignasala eða fulltrúa X, sem kærendur hafa vísað til, jafnað til mats samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 né getur söluverð fasteignarinnar komið í stað fortakslausrar viðmiðunar við fasteignamatsverð samkvæmt ákvæði b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Vegna athugasemda kærenda um að sýslumaður hafi ekki gætt að leiðbeiningaskyldu sinni við meðferð málsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal tekið fram að þegar erfðafjárskýrsla barst sýslumanni þann 11. september 2016 hafði fasteigninni þegar verið ráðstafað og varð slíku mati því ekki við komið, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að sýslumanni hafi gefist sérstakt tilefni til þess á fyrri stigum að leiðbeina kærendum um heimild til þess að óska eftir slíku mati sem hér um ræðir. Verður krafa kærenda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að málsmeðferð sýslumanns hafi verið áfátt.
Með vísan til framanritaðs verður að hafna aðal- og varakröfu kærenda í máli þessu. Þrautavarakrafa kærenda sýnist byggð á ákvæði 4. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1991 þar sem fram kemur að þótt skiptum dánarbús hafi verið lokið með framsali eigna geti erfingi, sem rökstyður fyrir sýslumanni að eignir kunni að hafa verið vantaldar, krafist skrásetningar og eftir atvikum mats á eignum samkvæmt 17.–23. gr. laganna. Ekki verður talið að umrætt ákvæði eigi við í tilviki kærenda, enda varðar ákvæðið mat eigna dánarbús í kjölfar skiptaloka vegna gruns um vanframtaldar eignir. Er þrautavarakröfu kærenda því hafnað.
Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kærendum málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.