Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
- Tengivagn
Úrskurður nr. 91/2017
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Almennar reglur um túlkun tollskrár.
Deilt var um tollflokkun tengivagns, þ.e. sviðsvagns, sem kærandi hafði flutt til landsins. Ekki var fallist á með kæranda að vagninn félli undir þau tollskrárnúmer í tollskrá er tækju til annarra tengivagna og festivagna til vöruflutninga, enda væri vagninn fyrst og fremst færanlegt svið og hentaði sem slíkur til tónleikahalds o.fl. Var kröfu kæranda því hafnað.
Ár 2017, miðvikudaginn 17. maí, er tekið fyrir mál nr. 244/2016; kæra A ehf., dags. 23. desember 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 23. desember 2016, varðar úrskurð tollstjóra, dags. 6. október 2016, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings tengivagns á árinu 2016. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um tollflokkun vagnsins, en við tollafgreiðslu var lagt til grundvallar að vagninn félli undir tollskrárnúmer 8716.4000. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og umræddur tengivagn talinn falla undir tollskrárnúmer 8716.3991.
II.
Helstu málsatvik eru þau að kærandi flutti inn til landsins tengivagn af gerðinni Stageline SL100. Við tollafgreiðslu var byggt á því að vagninn félli undir tollskrárnúmer 8716.4000 í tollskrá.
Með kæru, dags. 8. september 2016, mótmælti kærandi ákvörðun tollstjóra um tollflokkun tengivagnsins og fór fram á að tollflokkunin yrði endurskoðuð. Í kærunni kom fram að vagninn, sem væri bæði svið og flutningavagn, ætti að flokkast í tollskrárnúmer 8716.3991. Fylgdu kærunni myndir sem sýndu vagninn hlaðinn varningi. Kom fram að vagninn hefði burðargetu upp á 2800 kg og væri heildarþyngd vagnsins fullhlaðins 6804 kg. Væri það mat kæranda að vagninn uppfyllti öll skilyrði til að falla í tollskrárnúmer 8716.3991. Var bent á að tengivagninn væri eingöngu notaður í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og hentaði ekki til neins annars.
Með úrskurði, dags. 6. október 2016, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Í úrskurði tollstjóra var meðferð málsins rakin og gerð grein fyrir meginröksemdum kæranda. Kom fram að í málinu væri deilt um tollflokkun tengivagns af gerðinni Stageline SL100. Um væri að ræða tengivagn sem hægt væri að breyta í svið. Einnig hefði vagninn töluverða burðargetu. Kærandi færi fram á að vagninn yrði talinn tengivagn til vöruflutninga sem félli undir tollskrárnúmer 8716.3991 í tollskrá. Það væri hins vegar mat tollstjóra að flokka ætti vagninn með öðrum tengivögnum í tollskrárnúmeri 8716.4000, en undir það tollskrárnúmer féllu nýir tengivagnar sem ekki væru sérstaklega ætlaðir til vöruflutninga. Vísaði tollstjóri til þess að ef litið væri til skýringarbóka Alþjóðatollastofnunarinnar mætti sjá að með tengivögnum ætluðum til vöruflutninga væri átt við tengivagna sem væru sérstaklega hannaðir til vöruflutninga, en í flokk annarra vagna féllu tengivagnar sem þjónuðu helst öðru hlutverki en til vöruflutninga. Væru sem dæmi um slíka vagna nefndir vagnar sem notaðir væru á skemmtisvæðum (e. fairground caravans). Sem dæmi um slíka vagna væri helst hægt að nefna vagna sem breyttust í verslun eða leiksvæði. Kvaðst tollstjóri telja að vagn af gerðinni Stageline SL100, sem breyta mætti í svið, félli undir þann flokk. Hefði vagninn fyrst og fremst það hlutverk að breytast í svið og þrátt fyrir að vagninn gæti borið töluvert af varningi væri hann ekki ætlaður aðallega eða eingöngu til vöruflutninga eins og vagnar sem féllu undir tollskrárnúmer 8716.3991.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi sé ósáttur við tollflokkun á vagninum Stageline SL100 „sem er svið og flutningavagn í einu tæki“, eins og segir í kærunni. Er vísað til meðfylgjandi ljósmynda af vagninum þar sem búið sé að koma varningi fyrir í honum. Er tekið fram að burðargeta vagnsins sé um 2800 kg og heildarþyngd hans nemi 6804 kg. Sé það mat kæranda að vagninn uppfylli öll skilyrði þess að falla undir tollskrárnúmer 8716.3991 og sé því farið fram á að vagninn verði flokkaður sem slíkur. Er bent á að vagninn sé eingöngu notaður í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og henti ekki til annars. Þá er tekið fram að hér á landi séu fjölmargir flutningabílar og flutningavagnar sem nota megi sem svið með því að opna hliðar á þeim með einföldum hætti. Með tollflokkun á vagni kæranda í tollskrárnúmer 8716.4000 sé kæranda því mismunað.
IV.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn tollstjóra er þess krafist að niðurstaða hins kærða úrskurðar tollstjóra verði staðfest. Í umsögninni er því hafnað að kæranda sé mismunað með hinni kærðu ákvörðun. Tollstjóri sé bundinn af tollskrá við tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Myndu sambærilegar vörur vera tollflokkaðar á sambærilegan hátt við innflutning til landsins. Sé litið til skýringabóka Alþjóðatollastofnunarinnar megi sjá að með tengivögnum ætluðum til vöruflutninga sé átt við vagna sem sérstaklega séu hannaðir til vöruflutninga, en í flokk annarra vagna flokkist tengivagnar sem þjóni helst öðru hlutverki en til vöruflutninga. Í skýringabókum séu nefndir sem dæmi um slíkt vagnar sem notaðir séu á skemmtisvæðum. Telji tollstjóri að vagnar af tegundinni Stageline SL100, sem breytist í svið, falli undir þennan flokk. Vagninn hafi fyrst og fremst það hlutverk að breytast í svið og þótt hann geti borið töluvert af varningi þá sé vagninn ekki ætlaður aðallega og eingöngu til vöruflutninga eins og vagnar sem flokkist í tollskrárnúmer 8716.3991.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. febrúar 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á tengivagni af gerðinni Stageline SL100, nánar tiltekið tollflokkun vagnsins. Liggur fyrir samkvæmt lýsingu kæranda og framlögðum ljósmyndum að um er að ræða svokallaðan sviðsvagn, þ.e. „svið og flutningavagn í einu tæki“, eins og segir í kærunni. Kemur fram í kærunni að heildarþyngd vagnsins sé 6804 kg og hann hafi burðargetu allt að 2800 kg og sé eingöngu notaður í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Tollstjóri taldi að vagninn félli undir tollskrárnúmer 8716.4000 í tollskrá („aðrir tengivagnar og festivagnar“) þar sem hann væri ekki fyrst og fremst ætlaður til vöruflutninga. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að vagninn falli undir tollskrárnúmer 8716.3991 sem tengivagn til vöruflutninga og er í því sambandi lögð áhersla á mikla burðargetu hans. Þá er bent á í kærunni að fjölmargar flutningabifreiðar sé unnt að nýta sem svið með því að opna hlera á hliðum þeirra.
Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.
Í 2. mgr. 74. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, er vikið að skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um tollflokkun. Þar segir: „Fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum tollskrárinnar eru í samræmi við vöruflokkunarkerfi Alþjóðatollastofnunarinnar sem Ísland er skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum Alþjóðatollastofnunarinnar um tollflokkun er ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi stofnunarinnar og geta verið til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, enda þótt þau séu ekki bindandi að landsrétti.“
Í 87. kafla tollskrár er fjallað um ökutæki og hluta og fylgihluti til þeirra. Falla tengivagnar og festivagnar undir vörulið 8716 í þeim kafla og er þar gerður greinarmunur á tengi- og festivögnum til íbúðar eða ferðalaga, sjálfhlaðandi eða sjálfslosandi tengi- og festivögnum til landbúnaðarnota, öðrum tengi- og festivögnum til vöruflutninga og öðrum tengi- og festivögnum.
Fyrir liggur að þrátt fyrir að hinn umdeildi tengivagn henti til vöruflutninga er vagninn fyrst og fremst færanlegt svið og hentar sem slíkur til tónleikahalds o.fl. Í skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar eru m.a. tilgreind dæmi um tengivagna sem telja megi til annarra tengivagna sem falli undir tollskrárnúmer 8716.4000. Eru þar m.a. taldir vagnar til nota á skemmtisvæðum (e. fairground caravans). Að framangreindu athuguðu verður að fallast á með tollstjóra að hinn umdeildi vagn falli undir tollskrárnúmer 8716.4000 í tollskrá. Er kröfu kæranda því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.