Úrskurður yfirskattanefndar
- Kílómetragjald
- Sekt
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 151/2010
Lög nr. 87/2004, 13. gr. 1. og 3. mgr., 18. gr., 19. gr. 4. mgr. (brl. nr. 169/2006, 3. og 8. gr.) Reglugerð nr. 599/2005, 1. gr., 17. gr. Reglugerð nr. 627/2005, 18. gr.
Kæranda, sem var einkahlutafélag, var gerð sekt vegna brota á reglum um kílómetragjald á þeim grundvelli að eftirvagn félagsins hefði verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búinn ökumæli. Ekki var fallist á með kæranda að Vegagerðinni hefði verið óheimilt að annast eftirlit með ökutækjum. Þá þóttu ekki efni til að ógilda úrskurð ríkisskattstjóra þótt reglum um tilhögun skýrslutöku af ökumanni hefði ekki verið fylgt til hlítar í tilviki kæranda. Kom fram að því hefði ekki verið borið við í málinu að skýrsla eftirlitsmanna væri röng. Var kröfu kæranda um niðurfellingu sektar hafnað.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 16. desember 2009, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 4. desember 2009, að gera kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. samkvæmt 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, á þeim grundvelli að ökutæki (eftirvagn) kæranda, T, hefði verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búið ökumæli. Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður.
II.
Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 20. júlí 2009, var bifreiðin O stöðvuð á vegi nr. 275, Ásvegi, nánar tiltekið við Ásmúla, með eftirvagninn T sem reyndist vera ökumælislaus og hafði bifreiðin heldur ekki heimild til að draga vagn án ökumælis. Í skýrslunni kom fram að gjaldþyngd eftirvagnsins væri 16.000 kg. Í skýrslunni var einnig haft eftir ökumanni bifreiðarinnar að vagninn væri ekki notaður við flutning á vegum, heldur væri hann að mestu notaður inn á túnum við kartöflurækt og til að ná í heyrúllur á eigin túnum.
Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 23. september 2009, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna eftirvagns án mælis“. Í bréfi þessu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið framangreinda skýrslu frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar vegna eftirvagnsins T. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, sbr. síðari breytingar, þyrfti að greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem skráðir væru hér á landi og væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Einnig vísaði ríkisskattstjóri til 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, þar sem fram kæmi að heimilt væri að skrá ökumæli bifreiðar sem drægi eftirvagn, fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðaði ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og væri ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Ljóst væri að vagninn hefði verið heimildarlaus í umferð án þess að vera búinn ökumæli og hefði bifreiðin ekki haft umrædda heimild til að draga vagn án mælis. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, varðaði það sektum allt að 100.000 kr. ef ökutæki væri heimildarlaust í umferð án þess að það væri búið ökumæli. Í ljósi framangreinds og með vísan til 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.
Með bréfi, dags. 5. október 2009, mótmælti umboðsmaður kæranda hinni boðuðu sektarákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að um væri að ræða vagn sem eingöngu væri notaður við starfsemi innan landareignarinnar R, þ.e. til að flytja til útsæði og áburð í kartöflugarða á vorin og til þess að flytja uppskeru heim á haustin. Þegar bifreiðin O var stöðvuð með eftirvagninn í drætti hefði erindið verið að fara til viðgerðar að S þar sem átti að lagfæra vagninn og sinna eðlilegu viðhaldi. Byggði umboðsmaður kæranda á ,,þeirri augljósu staðreynd“ að undanþáguákvæði 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 næði yfir slíka notkun og var þess krafist að boðuð sektarákvörðun yrði afturkölluð.
Með úrskurði, dags. 4. desember 2009, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 100.000 kr. Tók ríkisskattstjóri fram að embættið hefði sett sér verklagsreglur um beitingu sekta þegar ökutæki væri heimildarlaust í umferð án þess að vera búið ökumæli og væri hámarkssekt beitt í slíkum tilvikum, eða 100.000 kr. Rakti ríkisskattstjóri sem áður málavexti og ítrekaði röksemdir sínar. Vegna athugasemda kæranda í fyrrnefndu bréfi, dags. 5. október 2009, tók ríkisskattstjóri fram að í 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 væri fjallað um skráningu ökutækja. Þar kæmi fram að áður en bifreið, bifhjól, torfærutæki eða dráttarvél væru tekin í notkun skyldi ökutækið skráð og skráningarmerki sett á það. Sama ætti við um eftirvagn bifreiðar eða dráttarvélar sem gerður væri fyrir meira en 750 kg að heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagn. Eigi þyrfti þó að skrá eftirvagn bifreiðar á beltum eða dráttarvélar sem nær eingöngu væri notaður utan opinberra vega. Tók ríkisskattstjóri fram að því væri ekki sérstaklega haldið fram af hálfu umboðsmanns kæranda að undanþáguákvæði 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga ætti við um eftirvagn kæranda, enda hefði vagninn verið skráður með skráningarmerkið T. Þá fjölluðu umferðarlög ekki að neinu leyti um kílómetragjald og skyldu til að útbúa bifreið eða eftirvagna með ökumæli, en það gerðu hins vegar lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, sbr. reglugerð nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds. Í andmælum umboðsmanns kæranda væri ekki vikið einu orði að tilvitnuðum ákvæðum laganna og reglugerðarinnar í fyrirhugun ríkisskattstjóra. Í ljósi þessa þættu andmæli umboðsmanns kæranda ekki hafa gefið tilefni til breytinga á fyrirhugaðri sekt ríkisskattstjóra og hefði embættið því ákvarðað félaginu boðaða sekt að fjárhæð 100.000 kr.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 16. desember 2009, eru áður fram komin sjónarmið kæranda áréttuð og tekið fram að eina dráttartækið sem ráði við eftirvagninn T innan landareignar R sé stór og öflugur traktor. Bendir umboðsmaður kæranda á að mikið hafi verið gert úr því í úrskurði ríkisskattstjóra að vagninn hafi verið með skráningarmerki og með því væri verið að viðurkenna skyldu til að skrá akstur vagnsins. Kærandi hafi hins vegar haft vagninn skráðan vegna trygginga og virtist það ganga gegn markmiði 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 að gera honum sekt vegna slíkra yfirsjóna. Myndi hann framvegis hafa vagninn ótryggðan og óskráðan ef þetta væri raunin. Í kærunni bendir umboðsmaður kæranda á að fjármálaráðherra hafi ekki sett reglugerð með stoð í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004 sem kveður á um heimild til að fela Vegagerðinni framkvæmd tiltekinna þátta í eftirliti ríkisskattstjóra með ökutækjum. Því verði að skilja orðið ,,eftirlitsmaður“ í 2. mgr. 18. gr. laganna með þeim hætti að um sé að ræða starfsmenn ríkisskattstjóra og enga aðra. Að öðrum kosti hefði löggjafanum verið í lófa lagið að geta þess að sömu heimildir ættu við um starfsmenn Vegagerðarinnar. Sú aðgerð að stöðva ökutæki brjóti gegn friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og ef takmarka eigi friðhelgi einkalífs með einhverjum hætti verði slíkt að gera með lögum eða úrskurði dómstóls. Ef starfsmönnum Vegagerðarinnar eigi að vera heimil sömu störf og starfsmönnum ríkisskattstjóra þurfi það að koma fram í lögum og hvaða störf það séu nákvæmlega. Þegar hin almenna reglugerðarheimild í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2004 sé skoðuð megi sjá að hún sé matskennd og geti slík reglugerðarheimild ekki innihaldið reglur sem kveði á um inngrip í líf og hagsmuni borgaranna, líkt og gert sé í reglugerð nr. 627/2005 um ákvörðun kílómetragjalds og skyldur ökumanna. Að lokum bendir umboðsmaður kæranda á að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi brotið á kæranda þar sem ekki hafi verið gerð skýrsla á staðnum þegar bifreiðin var stöðvuð og ökumanni ekki gefinn kostur á að kynna sér efni hennar eins og reglugerð nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, kveði á um. Kærandi hafi hins vegar fengið skýrsluna senda í pósti á lögheimili sitt mánuði síðar en þá hafi verið of seint að koma að andmælum, enda ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem komið var á framfæri við starfsmenn Vegagerðarinnar við gerð skýrslunnar.
Umboðsmaður kæranda hefur, með bréfi dags. 20. janúar 2010, gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.
IV.
Með bréfi, dags. 12. mars 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:
,,Í 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, kemur fram að fjármálaráðherra sé heimilt að fela Vegagerðinni framkvæmd tiltekinna þátta eftirlitsins. Með þessu ákvæði er ráðherra heimilað að gera samninga við Vegagerðina en þessi heimild virðist þó ekki hafa verið nýtt. Hina almennu reglugerðarheimild er að finna í 3. mgr. 23. gr. laganna og er framangreind reglugerð vissulega sett á grundvelli þess ákvæðis.
Kærandi telur að skýra verði orðið eftirlitsmaður í 2. mgr. 18. gr. með þeim hætti að ,,...um sé að ræða starfsmenn Ríkisskattstjóra, og enga aðra.“ Af þessu tilefni skal tekið fram að í 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. kemur fram að eftirlitsmönnum sé heimilt að taka sýni úr birgðageymum, að beiðni ríkisskattstjóra. Hér er ríkisskattstjóra bersýnilega veitt heimild til þess að veita starfsmönnum Vegagerðarinnar heimild til umræddrar sýnatöku enda væri það mjög sérstakt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef að hér væri verið að lögfesta sérstaka heimild forstöðumanns stofnunar, í þessu tilviki ríkisskattstjóra, til þess að fela starfsmönnum sínum framkvæmd einhverra tiltekinna þátta í starfsemi stofnunarinnar.
Í athugasemdum með 19. gr. (sbr. núgildandi 18. gr.) frumvarps þess sem varð að lögum nr. 87/2004 kemur eftirfarandi fram:
,,Í greininni er fjallað um eftirlit. Ríkisskattstjóri skal annast eftirlit með að lituð olía sé ekki notuð á skráningarskyld ökutæki ásamt eftirliti með ökumælum og skráningu aksturs ökutækja sem greitt er af kílómetragjald. Gert er ráð fyrir að eftirlit á vettvangi verði áfram í höndum Vegagerðarinnar en hún hefur sinnt því með góðum árangri í þungaskattskerfinu. Yfirumsjón eftirlits verður þó í höndum ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri tilkynnir síðan skattrannsóknarstjóra ríkisins eftir atvikum grun um refsivert brot.
Í 2. mgr. er kveðið á um heimildir eftirlitsmanna við störf sín. Tekið er fram að heimilt sé að stöðva ökutæki til að taka sýni úr eldsneytisgeymi svo ganga megi úr skugga um að ekki sé notuð lituð olía. Jafnframt eru tilteknar heimildir til að stöðva kílómetragjaldsskyld ökutæki og gera athuganir á ökumælisbúnaði, skráningu í akstursbók o.fl.
Í 3. mgr. er kveðið á um heimildir eftirlitsmanna ríkisskattstjóra til að fá gögn hjá olíugjaldsskyldum aðilum skv. 3. gr. svo ganga megi úr skugga um réttmæti álagningar olíugjalds og sölu eða afhendingu á jafnt litaðri sem ólitaðri olíu.“
Þessar athugasemdir eyða öllum vafa um heimildir starfsmanna Vegagerðarinnar.
Umboðsmaður gjaldanda heldur því fram að ,,sú aðgerð að stöðva ökutæki án rökstudds gruns um lögbrot, brýtur gegn friðhelgi einkalífsins, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Af því leiðir sú staðreynd, að eigi að takmarka friðhelgi einkalífs með einhverjum hætti verður slíkt að vera gert með lögum eða úrskurði dómstóls.“ Ekki er ríkisskattstjóra fullljóst hvað átt er við með þessu enda eru heimildirnar tíundaðar í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004.
Þá er því haldið fram að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi brotið enn frekar á kæranda með því að ekki hafi verið gerð skýrsla á staðnum og hafi ökumanni ekki verið gefinn kostur á því að kynna sér efni hennar, sem þó 1. og 2. mgr. (sic) reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, kveði á um. Kærandi hafi fengið skýrsluna senda til sín í pósti á lögheimili sitt um mánuði eftir atvikið, en þá hafi verið of seint að koma að andmælum, enda ekki tekið tillit til þeirra ummæla sem kærandi kom á framfæri við starfsmenn Vegagerðarinnar við gerð skýrslunnar. Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt meðfylgjandi yfirlýsingu starfsmanns Vegagerðarinnar kemur fram að skýrslan af forsvarsmanni kæranda hafi verið tekin 20. júlí 2009. Hafi honum verið kynnt innihald skýrslu á staðnum en vegna bilunar í prentara hafi ekki verið unnt að prenta út afrit. Þegar svo hátti til sé skýrsla prentuð út þegar komið er á skrifstofu og afrit síðan sent eiganda og hafi það verið gert í þessu tilviki.
Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra (sic).“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. mars 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, dags. 24. mars 2010, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Leggur umboðsmaður kæranda áherslu á að athugasemdir með lagafrumvörpum hafi ekki lagagildi og að túlka verði orðið ,,eftirlitsmenn“ í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004 með þeim hætti að átt sé við starfsmenn ríkisskattstjóra. Ítrekar umboðsmaður kæranda einnig að skýrsla eftirlitsmanna hafi verið einhliða samin og óundirrituð, auk þess sem ekki hafi verið beinar tilvitnanir í kæranda, heldur hafi aðeins verið um frásögn eftirlitsmanns að ræða.
V.
Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 4. desember 2009, að gera kæranda sekt vegna eftirvagnsins T að fjárhæð 100.000 kr. eftir ákvæðum 4. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, á þeim grundvelli að eftirvagninn hafi verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búinn ökumæli, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 20. júlí 2009, um brot á reglum um kílómetragjald, en skýrsla þessi er meðal gagna málsins. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 þyrfti að greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem væru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, kæmi fram að heimilt væri að skrá ökumæli bifreiðar sem drægi eftirvagn fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn og væri þá ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt fyrrgreindri skýrslu var bifreiðin O stöðvuð með áðurnefndan eftirvagn, en hann reyndist ekki vera með ökumæli og bifreiðin hafði ekki umrædda heimild til að draga vagn án mælis. Því þætti ljóst að vagninn hefði verið heimildarlaus í umferð án þess að vera búinn ökumæli.
Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður. Krafa kæranda byggist einkum á því að ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eigi við um eftirvagninn. Einnig er krafa kæranda byggð á því að ekki sé fyrir hendi nægileg lagastoð fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar til að stöðva ökutæki og gera athuganir og að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi brotið á kæranda við skýrslutöku þegar bifreiðin O var stöðvuð með eftirvagninn.
Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða kílómetragjald af eftirvögnum sem skráðir eru hér á landi og eru 10.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 599/2005 um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, segir að heimilt sé að skrá ökumæli bifreiðar sem dregur eftirvagn fyrir bæði bifreiðina og eftirvagninn. Ákvarðar ökumælirinn þá akstur bifreiðar og eftirvagns og er ekki skylt að setja ökumæli í eftirvagninn. Í 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 segir að greiða skuli sérstakt kílómetragjald af eftirvögnum sem skráðir eru hér á landi, eru 5.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og dregnir eru af dráttarvélum. Þá vagna skuli skrá hjá Umferðarstofu. Undanþegnir gjaldskyldu eru eftirvagnar sem taldir eru upp í 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Í 9. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004 segir að ríkisskattstjóri geti ef sérstaklega stendur á veitt undanþágu frá því að ökumælisskyld bifreið eða eftirvagn sé útbúin ökumæli, enda fari ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds fram á annan jafn tryggan hátt. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum allt að 100.000 kr. m.a. ef ökutæki er heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli eða ef ökumælir telur ekki.
Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu, dags. 20. júlí 2009, var bifreiðin O stöðvuð með eftirvagninn T á Ásvegi við Ásmúla, en hann reyndist ekki vera með ökumæli og hafði bifreiðin ekki fyrrgreinda heimild til að draga vagn án mælis. Umræddur eftirvagn, sem er 16.000 kg að gjaldþyngd, er skráður í ökutækjaskrá, sbr. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, þar sem m.a. er kveðið á um skráningarskyldu eftirvagns bifreiðar eða dráttarvélar sem gerður er fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, að undanskildum þeim eftirvögnum sem taldir eru upp í 3. málsl. 1. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar. Í síðastgreindu ákvæði, sbr. og 1. gr. umræddrar reglugerðar nr. 751/2003, er mælt svo fyrir að ekki þurfi að skrá eftirvagn bifreiðar á beltum eða dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega. Umræddur eftirvagn er skráður sem eftirvagn IV (04), þ.e. sem eftirvagn með leyfða heildarþyngd meiri en 10.000 kg, sbr. lið 01.54 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja.
Af hálfu kæranda hefur verið gefin sú skýring á ferðum bifreiðarinnar O með eftirvagninn í greint sinn að hann hafi verið færður til viðgerðar. Þá byggir kærandi einkum á því, eins og fram er komið, að eftirvagninn hafi eingöngu verið til nota innan jarðarinnar R til búverka, auk þess sem því er borið við að aðeins stór og öflug dráttarvél ráði við að draga vagninn. Verður að skilja þetta svo að á því sé byggt af kæranda hálfu að eftirvagninn sé undanþeginn gjaldskyldu samkvæmt niðurlagsákvæði 2. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004, sbr. tilvísun ákvæðisins til 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem að framan er lýst. Vegna þessa verður að líta til þess að eftirvagninn var skráður og aukinheldur í umferð á opinberum vegi í umrætt sinn og þá dreginn af vörubifreið en ekki dráttarvél. Verður því ekki talið að hald sé í þessum málsástæðum kæranda. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri hefur ekki veitt undanþágu samkvæmt 9. mgr. 13. gr. laga nr. 87/2004. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að eftirvagninn T hafi verið heimildarlaus í umferð hinn 20. júlí 2009 án þess að vera búinn ökumæli, sbr. 13. gr. laga nr. 87/2004 og reglugerð nr. 599/2005 þannig að sekt varði samkvæmt 4. mgr. 19. gr. greindra laga.
Í 18. gr. laga nr. 87/2004 er kveðið á um eftirlit. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að ríkisskattstjóri skuli annast þargreint eftirlit með ökutækjum og er fjármálaráðherra heimilt að fela Vegagerðinni framkvæmd tiltekinna þátta eftirlitsins. Í athugasemdum í frumvarpi með 18. gr. fyrrnefndra laga (áður 19. gr.) kemur fram að eftirlit á vettvangi eigi áfram að vera í höndum Vegagerðarinnar, en Vegagerðin hefði sinnt því með góðum árangri í þungaskattskerfinu. Yfirumsjón eftirlits yrði þó í höndum ríkisskattstjóra. Í 18. gr. reglugerðar nr. 627/2005, um ákvörðun kílómetragjalds og skyldur ökumanna, kemur fram að Vegagerðin skuli annast eftirlit með því að gjaldskyld ökutæki, skráning þeirra og búnaður, svo og skráning ökumanna á akstri, sé í samræmi við fyrirmæli laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., reglur um ökumæla og skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá, en reglugerðin er sett með stoð í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2004. Í reglugerðinni er kveðið á um framkvæmd tiltekinna þátta eftirlitsins, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004, og verður því að telja að hún hafi nægilega lagastoð. Þá styðja athugasemdir í frumvarpi með núgildandi 18. gr. laganna þann skilning að Vegagerðinni sé heimilt að annast eftirlit með ökutækjum. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 87/2004 er meðal annars kveðið á um heimild eftirlitsmanna til að stöðva ökutæki og gera þær athuganir á því sem taldar eru nauðsynlegar svo staðreyna megi að ökutæki, mælabúnaður þess og skráning ökumanns á akstri sé í samræmi við skráningu ökutækisins í álestrarskrá ökumæla. Hér er um að ræða lögfesta heimild fyrir eftirlitsmenn til að stöðva ökutæki og gera nauðsynlegar athuganir, í þessu tilviki eftirlitsmenn Vegagerðarinnar.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi brotið á kæranda þar sem ekki hafi verið gerð skýrsla á staðnum þegar bifreiðin var stöðvuð, og ökumanni, forsvarsmanni kæranda, ekki gefinn kostur á því að kynna sér efni hennar líkt og kveðið sé á um í reglugerð nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds. Kærandi hafi hins vegar fengið skýrsluna senda í pósti á lögheimili sitt um mánuði eftir atvikið þegar of seint var að koma að andmælum, enda hafi ekki verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem komið var á framfæri við starfsmenn Vegagerðarinnar við gerð skýrslunnar. Í kröfugerð ríkisskattstjóra kemur fram að samkvæmt yfirlýsingu starfsmanns Vegagerðarinnar hefði skýrslan af forsvarsmanni kæranda, sem var ökumaður bifreiðarinnar í greint sinn, verið tekin 20. júlí 2009. Hefði honum verið kynnt innihald skýrslunnar á staðnum, en vegna bilunar í prentara hefði ekki verið unnt að prenta út afrit. Þegar svo háttaði til væri skýrsla prentuð út þegar komið væri á skrifstofu og afrit síðan sent eiganda og hefði það verið gert í þessu tilviki. Í 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 599/2005 kemur fram að eftir að skýrslutöku er lokið skuli ökumanni gefinn kostur á að kynna sér efni skýrslunnar. Þá skuli ökumaður spurður, áður en hann undirritar skýrslu, hvort það sem fært sé til bókar sé rétt og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Eftir það skuli skýrslan vera undirrituð af eftirlitsmanni og ökumanni. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var fyrirmælum 17. gr. reglugerðar nr. 599/2005 ekki fylgt til hlítar þegar bifreiðin var stöðvuð. Til þess er að líta að athugasemdir ökumanns voru tilgreindar í skýrslunni þótt undirskrift hans hafi vantað. Umboðsmaður kæranda hefur ekki borið því við að skýrslan sé röng og hafa önnur atriði ekki komið fram sem skipta máli að þessu leyti. Því þykja ekki næg efni til að ómerkja úrskurð ríkisskattstjóra af þessum sökum, en rétt er að átelja þessi vinnubrögð eftirlitsmanna.
Með vísan til alls framangreinds verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framangreindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.