Úrskurður yfirskattanefndar
- Yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag
Úrskurður nr. 156/2010
Gjaldár 2007
Lög nr. 90/2003, 56. gr.
Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar í málinu að þótt þess væri út af fyrir sig ekki krafist í 56. gr. laga nr. 90/2003 að einstaklingsrekstur, sem yfirfærður væri í einkahlutafélag, þyrfti að vara um tiltekinn tíma í höndum þess félags, sem við honum tæki, yrði allt að einu að telja að ef slík yfirfærsla rekstrar væri beinlínis liður í rekstrarlokum viðkomandi einstaklings og sölu þess rekstrar sem um ræðir til annars aðila væru skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda væri þá ekki um að ræða neinn rekstur á vegum hins nýstofnaða félags. Að virtum skýringum kæranda á tildrögum að sölu hlutafjár hans í H ehf., einkahlutafélagi sem kærandi stofnaði í tengslum við yfirfærslu einstaklingsrekstrar, þ.e. smábátaútgerðar, var skattstjóri ekki talinn hafa sýnt fram á að stofnun einkahlutafélagsins hefði verið liður í undirbúningi að rekstrarlokum kæranda með sölu hlutafjárins. Var því fallist á kröfu kæranda.
I.
Með kæru, dags. 4. febrúar 2009, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 4. nóvember 2008, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2003 og 2007. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra með umræddum úrskurði að færa kæranda, A, til skattskyldra tekna samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, söluhagnað að fjárhæð 25.506.691 kr. vegna sölu báts og aflaheimilda á árinu 2006, auk þess að fella niður tekjufærslu sömu fjárhæðar í reit 164 í skattframtali kærenda. Þá bætti skattstjóri 25% álagi við þá hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda, A, gjaldárið 2007 sem leiddi af framangreindum breytingum, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kærenda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu kærendur einkahlutafélagið H ehf. þann 12. apríl 2006. Skattframtali kærenda árið 2007 fylgdi eyðublað um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19) þar sem m.a. var gerð grein fyrir sölu allra hlutabréfa í félaginu fyrir 27.000.000 kr. á árinu 2006. Var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar að fjárhæð 25.506.691 kr. og var sú fjárhæð færð til tekna með söluhagnaði hlutabréfa í reit 164 í skattframtalinu. Stofnverð hinna seldu hlutabréfa var talið 1.493.309 kr. Var lagt til grundvallar í skattskilunum að einstaklingsrekstur kæranda, A, sem fólst í smábátaútgerð, hefði verið yfirfærður í H ehf. á árinu 2006 samkvæmt heimild í 56. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra til kærenda, dags. 11. janúar 2008, þar sem skattstjóri spurðist fyrir um tilgang að baki stofnun einkahlutafélagsins H ehf. þann 12. apríl 2006 og eftirfarandi sölu hlutabréfa í félaginu til K ehf. þann 1. júní sama ár, og svarbréf kærenda, dags. 22. janúar 2008, þar sem fram kom m.a. að tilgangur með stofnun H ehf. á árinu 2006 hefði verið yfirtaka félagsins á einkarekstri kæranda, þ.e. smábátaútgerð, boðaði skattstjóri kærendum með bréfi, dags. 11. apríl 2008, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2007 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda, A, til skattskyldra tekna samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 skattframtali hans árið 2007 söluhagnað aflaheimilda að fjárhæð 25.506.691 kr. og fella jafnframt niður tekjufærslu sömu fjárhæðar í reit 164 í skattframtalinu. Fram kom að samkvæmt stofnefnahagsreikningi hefði bókfært verð báts numið 1.423.737 kr. og báturinn endurseldur á því verði. Aðrar eignir samkvæmt efnahagsreikningi hefðu verið bankainnstæður og viðskiptamenn samtals 440.799 kr. og skuldir verið 371.227 kr. Þá boðaði skattstjóri beitingu 25% álags á þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2007 sem af þessum breytingum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kærenda var hinni fyrirhuguðu endurákvörðun mótmælt með bréfi, dags. 26. maí 2008. Í kjölfar frekari bréfaskipta og upplýsingaöflunar skattstjóra vegna málsins, sbr. m.a. bréf skattstjóra til kærenda, dags. 8. september 2008, og svarbréf kærenda, dags. 20. sama mánaðar, og skýrslutöku af kæranda, A, sem fram fór þann 3. október 2008, boðaði skattstjóri kæranda, A, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 2003 með bréfi, dags. 1. október 2008, vegna tekjufærslu meintra vanframtalinna tekna af kvótaleigu á árinu 2002 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Er sá þáttur málsins ekki í ágreiningi fyrir yfirskattanefnd. Af hálfu kærenda urðu ekki viðbrögð við síðastnefndu boðunarbréfi skattstjóra og gerðist það næst í málinu að með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. nóvember 2008, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kærenda árin 2003 og 2007 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld þeirra umrædd gjaldár til samræmis að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldárið 2007 nam fjárhæð álagsins 4.642.939 kr. og kom fram í úrskurði skattstjóra að þá hefði verið tekið tillit til greidds fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 2.550.669 kr. vegna tilfærðs söluhagnaðar hlutabréfa í H ehf. í reit 164 í skattframtali kærenda árið 2007 sem felldur hefði verið niður með úrskurði skattstjóra í tengslum við tekjufærslu söluhagnaðarins í reit 62 í tekjuframtali kæranda, G.
III.
Forsendur skattstjóra fyrir hinum kærðu breytingum á skattframtali kærenda árið 2007 voru þær, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 11. apríl 2008, og hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 4. nóvember 2008, að yfirfærsla einstaklingsrekstrar kæranda, A, í einkahlutafélagið H ehf. á árinu 2006 á grundvelli 56. gr. laga nr. 90/2003 hefði einvörðungu verið gerð af skattalegum ástæðum og að engar rekstrarlegar forsendur hefðu búið þar að baki. Hefði tilgangur með ráðstöfunum þessum verið sá einn að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar vegna fyrirhugaðrar sölu einstaklingsrekstrarins til K ehf. og yrði því að líta framhjá yfirfærslu rekstrarins í skattalegu tilliti, sbr. grunnreglu 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, og byggja á því að um sölu kæranda á rekstrinum hefði verið að ræða. Í boðunarbréfi skattstjóra var í þessu sambandi vísað til þess að enginn almennur rekstur hefði farið fram í hinu nýstofnaða einkahlutafélagi H ehf. frá stofnun þess 12. apríl 2006 og þar til félagið var selt 26. maí sama ár, afar skammur tími hefði liðið frá stofnun einkahlutafélagsins til sölu þess eða tæplega einn og hálfur mánuður og að engin rekstraráætlun hefði legið fyrir vegna yfirfærslu rekstrarins yfir í H ehf. sem benti til þess að raunverulegar rekstrarlegar forsendur hefðu ekki búið að baki yfirfærslunni. Bentu atvik málsins, m.a. fram komnar upplýsingar kæranda um heilsubrest á árinu 2006, eindregið til þess að einungis skattaleg sjónarmið hefðu ráðið för við yfirfærslu rekstrarins þar sem kærandi hefði ekki ætlað sér að halda rekstrinum áfram á vegum hins nýstofnaða félags. Í úrskurði sínum um endurákvörðun tók skattstjóri sérstaklega fram að við skýrslutöku af kæranda 3. október 2008 í framhaldi af boðun hinna umdeildu breytinga hefði ekkert komið fram „sem gerir trúverðugt að stofnun margnefnds einkahlutafélags ... hafi ekki eingöngu verið gerð til þess að koma hagnaði af ætlaðri sölu kvóta í lægra skattþrep“, eins og þar sagði. Þar sem engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram við skýrslutökuna sem breytt gæti „úrskurðarniðurstöðu“ skattstjóra væri engin þörf á nýrri boðun áður en málið væri tekið til úrskurðar. Í boðunarbréfi sínu gerði skattstjóri grein fyrir ákvörðun söluhagnaðar bátsins B og áunninnar aflahlutdeildar bátsins og kvaðst byggja á því að tekjufærður söluhagnaður að fjárhæð 25.506.691 kr. væri alfarið vegna sölu aflahlutdeildar þar sem báturinn hefði verið „endurkeyptur“ á bókfærðu verði, sbr. 5. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003.
IV.
Í kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, dags. 4. febrúar 2009, kemur fram að kærandi, A, hafi stofnað einkahlutafélagið H ehf. þann 12. apríl 2006. Hafi félagið tekið við öllum eignum og skuldum þess atvinnurekstrar sem kærandi hafi áður haft með höndum og fólginn hafi verið í útgerð handfærabátsins B og framsali krókaaflamarks bátsins (kvótaleigu). Yfirfærsla rekstrarins hafi í einu og öllu verið í samræmi við 56. gr. laga nr. 90/2003 og hafi það ekki verið vefengt af hálfu skattstjóra. Hins vegar hafi skattstjóri talið sér heimilt á grundvelli ákvæðis um óvenjuleg skipti í fjármálum í 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að fjölga skilyrðum fyrir skattfrjálsri yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag með því að gera að skilyrði fyrir slíkri yfirfærslu að hún sé gerð í rekstrarlegum tilgangi. Af hálfu kærenda sé því mótmælt að skattstjóra sé á þessum grundvelli heimilt að bæta við nýju skilyrði umfram þau skilyrði sem tiltekin séu í 56. gr. laga nr. 90/2003, enda beri að skipa skattamálum með lögum og enginn skattur verði lagður á nema á grundvelli lagaheimildar, sbr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hvað sem þessu líði sé því sömuleiðis haldið fram að yfirfærsla á rekstri kæranda á árinu 2006 hafi verið gerð í rekstrarlegum tilgangi. Þannig hafi skattstjóri verið upplýstur um það undir rekstri málsins að B hafi ekki verið haldið til róðra á upphafsmánuðum ársins 2006 sem skýri þá staðreynd að engar tekjur af útgerð hafi fallið til á því tímabili. Af hálfu skattstjóra hafi í því sambandi verið skírskotað til upplýsinga frá Fiskistofu um landanir annarra smábáta, sem skattstjóri hafi talið vera sambærilega við B, á greindu tímabili, en af þeim upplýsingum hafi skattstjóri dregið þá ályktun að útgerð B hafi verið aflögð. Sú afstaða skattstjóra sé byggð á vanþekkingu hans á smábátaútgerð, enda sé báturinn handfærabátur. Handfæraveiðar séu aðeins stundaðar í dagsbirtu og því sé slíkum bátum jafnan ekki haldið til róðra fyrr en á vormánuðum. Öðru máli gegni um línuveiðar sem stundaðar séu allan ársins hring. Þessum sjónarmiðum til stuðnings vísar umboðsmaður kæranda til gagna frá Fiskistofu sem kærandi hafi aflað vegna málsins, m.a. gagna um landanir báts kæranda á árunum 2000-2005 sem beri með sér að bátinum hafi nánast einvörðungu verið haldið til veiða yfir vor- og sumarmánuði. Er áréttað að aldrei hafi annað staðið til en að halda áfram rekstri kæranda með óbreyttu sniði eftir yfirfærslu rekstrarins til H ehf., annað hvort með því að gera bátinn út yfir vor og sumar ellegar með því að framselja leigukvóta bátsins, svo sem kærandi hafi raunar gert í rekstri sínum á árinu 2005. Ákvörðun um þetta hefði fyrirsjáanlega ráðist af heilsu kæranda og þróun fiskverðs og verðs á leigukvóta. Atvikum hafi síðan háttað þannig að kæranda hafi verið gert tilboð í alla hluti í félaginu. Tilvísun skattstjóra til þess að engin rekstraráætlun hafi verið gerð í tengslum við yfirfærslu rekstrar kæranda til H ehf. sé léttvæg, enda hljóti að vera fátítt að gerðar séu rekstraráætlanir í útgerð smábáta. Í 56. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki gert að skilyrði fyrir réttaráhrifum ákvæðisins að stofnandi einkahlutafélags eigi hluti sína í félaginu um tiltekinn tíma og verði því ekki séð að eignarhaldstími kærenda skipti máli í þessu sambandi. Þá hafi ekki verið séð fyrir við yfirfærslu rekstrarins að kæranda myndi berast svo gott tilboð í reksturinn sem raun hafi orðið. Sé getgátum skattstjóra um annað vísað á bug. Með yfirfærslu rekstrar síns hafi kærandi fylgt þeirri braut sem löggjafinn hafi markað með ákvæðum 56. gr. laga nr. 90/2003.
V.
Með bréfi, dags. 22. maí 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í framangreindum úrskurði kemst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að almenn rekstrar- og fjárhagsleg sjónarmið hafi ekki ráðið för þegar einstaklingsrekstur kærenda var færður yfir í einkahlutafélagið H ehf. á grundvelli 56. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Heldur hafi málum verið komið í tiltekinn búning til þess að komast hjá skattlagningu söluhagnaðar sem myndaðist af sölu einstaklingsrekstursins. Samkvæmt úrskurðinum lítur skattstjóri fram hjá yfirfærslu einstaklingsrekstrarins í einkahlutafélagið H, sbr. grunnreglu 57. gr. sömu laga, þar sem hann telur að eigandi einstaklingsrekstrarins hafi aldrei sjálfur ætlað að halda áfram rekstrinum í hinu nýstofnaða einkahlutafélagi. Stofnun félagsins hafi því ekki haft neinn tilgang annan en þann sem að framan er nefndur.
Í kæru sinni til yfirskattanefndar rekur umboðsmaður kæranda málsástæður sínar. Í kærunni vísar umboðsmaðurinn til þess að málatilbúnaður skattstjóra sé í raun byggður á því að honum sé heimilt á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, að auka við skilyrði 56. gr. sömu laga um rekstrarlegan tilgang yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag. Umboðsmaðurinn telur að kærandi hafi hagað skattskilum sínum vegna yfirfærslunnar í fullu samræmi við ákvæði 56. gr. laga nr. 90/2003, og því hafi skattstjóri engar forsendur til þess að breyta þeirri fyrri skattákvörðun sinni.
Í úrskurði skattstjóra er vísað til þess að í dóma- og úrskurðarframkvæmd hafi verið vísað til grunnreglu ákvæðis 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, og því slegið föstu að í gildi sé raunveruleikaregla. Samkvæmt henni er unnt að líta framhjá formi ráðstafana og byggja skattlagningu á því sem raunverulega gerðist. Ríkisskattstjóri leyfir sér að vísa til rökstuðnings í úrskurði skattstjóra og krefst þess að hann verði staðfestur með vísan til forsendna.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. maí 2009, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, dags. 2. júní 2009, hefur umboðsmaður kærenda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við seinagang sem orðið hafi á því að ríkisskattstjóri legði fram kröfugerð sína í málinu og bent á að ríkisskattstjóri hafi virt að vettugi þann frest sem embættinu sé settur í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, til að leggja fram kröfugerð. Í niðurlagi bréfsins er málskostnaðarkrafa kærenda áréttuð og tekið fram að kostnaður kærenda af rekstri málsins nemi 267.395 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
VI.
Með 27. gr. laga nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og fleiri tilgreindum lögum, var gerð sú breyting á lögum nr. 75/1981 að með nýrri lagagrein, er varð 57. gr. C, voru tekin upp ákvæði um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag, sbr. nú samhljóða ákvæði 56. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nánar tiltekið er mælt svo fyrir að stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins og hefur með höndum sams konar rekstur eða starfsemi skuli sú yfirfærsla ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fjórum stafliðum í 1. mgr. lagagreinarinnar. Við slíka yfirfærslu tekur félagið við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum rekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, enda séu skilyrði 8. tölul. 31. gr. sömu laga uppfyllt, sbr. nánari ákvæði í 2. mgr. 56. gr. laganna. Með reglugerð nr. 223/2003, um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag, sbr. 57. gr. C laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru síðan sett nánari ákvæði um þetta efni.
Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 133/2001, bæði almennum athugasemdum og sérstökum athugasemdum með 27. gr. frumvarpsins, er vikið að tilganginum með lögtöku síðastgreinds ákvæðis. Þar kemur m.a. fram að markmiðið með lagabreytingunni sé að gera einstaklingum í atvinnurekstri kleift að breyta um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar komi. Tekið er fram í almennum athugasemdum að með vísan til ákvæða skattalaga um sameiningar og skiptingar félaga þyki „eðlilegt að einstaklingum sem stundað hafa rekstur í eigin nafni verði heimilt að umbreyta rekstrarforminu og færa reksturinn yfir í einkahlutafélag án þess að til skattskyldu verði stofnað enda er í raun ekki um yfirfærslu eigna að ræða heldur fyrst og fremst umbreyting á rekstrarformi“, eins og þar segir. Þá kemur fram að við yfirfærslu rekstrarins skuli félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum einstaklingsrekstrarins þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, sbr. 7. tölul. 31. gr., enda sé um sams konar rekstur eða starfsemi að ræða. Eignir og skuldir skuli yfirfærast á bókfærðu verði og kaupverð hluta í einkahlutafélaginu ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í einstaklingsrekstrinum við yfirfærsluna. Í athugasemdum með 27. gr. frumvarpsins er tekið fram að með þessari breytingu frestist skattlagning þess hagnaðar sem myndist við yfirfærsluna þar til hlutir eiganda einkahlutafélagsins, sem hann fékk sem gagngjald fyrir rekstur sinn, verði seldir. Þá er fjallað um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að greind yfirfærsla sé heimil, sbr. það sem rakið er að framan, og tekið fram að við yfirfærslu rekstrarins skuli félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum einstaklingsrekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, að því skilyrði uppfylltu að um sams konar rekstur eða starfsemi sé að ræða eftir breytinguna.
Samkvæmt framansögðu var tilgangur með lögtöku umræddrar heimildar 1. mgr. 56. gr. laga nr. 90/2003 fyrst og fremst sá að gera einstaklingum í atvinnurekstri kleift að breyta um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar kæmi. Skýra verður ákvæðið með hliðsjón af þessu markmiði löggjafans. Þótt þess sé út af fyrir sig ekki krafist í ákvæðinu að hinn yfirfærði rekstur þurfi að vara um tiltekinn tíma í höndum þess einkahlutafélags, er við honum tekur, verður allt að einu að telja að ef slík yfirfærsla rekstrar er beinlínis liður í rekstrarlokum viðkomandi einstaklings og sölu þess rekstrar sem um ræðir til annars aðila séu skilyrði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 90/2003 ekki uppfyllt, enda er þá ekki um að ræða neinn atvinnurekstur á vegum hins nýstofnaða félags. Þykir þessi túlkun ákvæðisins auk þess frekast í samræmi við beitingu þess í úrskurða- og dómaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 44/2006, sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2010 í máli nr. E-2003/2009 (Elísabet Þórarinsdóttir og Paros ehf. gegn íslenska ríkinu), þótt atvik í málum þessum hafi ekki að öllu leyti verið af þeim toga sem hér um ræðir.
Kærandi, A, mun hafa stundað smábátaútgerð um árabil, þ.e. útgerð bátsins B. Þó er komið fram að rekstrarárið 2005 var einungis um að ræða útleigu kæranda á kvóta bátsins, þ.e. krókaaflamarki. Á árinu 2006 stofnuðu kærendur einkahlutafélagið H ehf., nánar tiltekið hinn 12. apríl 2006, og var reksturinn færður yfir í félagið frá og með 1. janúar 2006, sbr. ákvæði d-liðar 1. mgr. 56. gr. laga nr. 90/2003 og fyrirliggjandi stofnefnahagsreikning H ehf. pr. 1. janúar 2006. Með kaupsamningi, dags. 26. maí 2006, seldi kærandi K ehf. alla hluti sína í H ehf. að nafnverði 1.493.309 kr. fyrir 27.000.000 kr., en kaupsamingurinn er meðal gagna málsins. Í honum kemur fram að eignir félagsins voru krókaaflahlutdeild ásamt krókaaflamarki í tilgreindum fiskitegundum, svo sem nánar er sundurliðað í samningnum, og báturinn B. Í samningnum kemur jafnframt fram að samkomulag sé með aðilum um að kaupandi, K ehf., „kaupi [B] út úr félaginu á bókfærðu verði þar til búið er að flytja krókaaflahlutdeildina og krókaaflamarkið og selji síðan [kæranda] bátinn til baka á bókfærðu verði, enda fylgir hann ekki með félaginu, sbr. samþykkt kauptilboð dags. 19.05.2005“, eins og þar segir.
Með bréfi sínu til kæranda, dags. 11. janúar 2008, spurðist skattstjóri fyrir um tilgang kærenda með stofnun H ehf. á árinu 2006 og sölu félagsins á sama ári og gat þess sérstaklega að skammur tími hefði liðið frá stofnun félagsins þar til það var selt eða um einn og hálfur mánuður. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 22. janúar 2008, kom fram að tilgangur með stofnun einkahlutafélagsins hefði verið yfirfærsla á rekstri kæranda í félagið. Var tekið fram að ætlun kæranda hefði verið sú að nýta aflahlutdeild á bát félagsins, B, en áður en til þess hefði komið hefði kæranda verið gert tilboð í allt hlutafé félagsins. Hefði kærandi tekið ákvörðun um að selja félagið, m.a. með hliðsjón af því að hann hefði ekki séð fram á að geta róið vegna heilsubrests. Þessar skýringar hefur kærandi áréttað á seinni stigum málsins, sbr. kæru umboðsmanns kærenda til yfirskattanefndar, þar sem fram kemur m.a. að tildrög að sölunni hafi verið þau að kærandi hafi verið að grennslast fyrir um möguleika á útleigu kvóta B. Gott tilboð í hlutafé félagsins, sem K ehf. hafi gert kæranda í lok maí 2006, hafi því verið ófyrirséð þegar kærandi tók ákvörðun um að flytja rekstur sinn yfir í einkahlutafélagið og á þeim tíma hafi kærandi ekki haft nein áform um rekstrarlok með sölu á hlutum sínum í félaginu.
Að virtum framangreindum skýringum kæranda á tildrögum að sölu hlutafjárins í H ehf. á árinu 2006 verður ekki talið að skattstjóri hafi sýnt fram á það að stofnun einkahlutafélagsins í apríl 2006 hafi verið liður í undirbúningi að rekstrarlokum kæranda með sölu hlutafjárins. Þótt skammur tími hafi liðið frá stofnun félagsins til sölu þess verður ekki dregin sú ályktun af þeirri staðreynd einni saman, án þess að fleira komi til, að ákvörðun kæranda um lok rekstrar og sölu hlutafjárins hafi legið fyrir við stofnun H ehf. í apríl 2006. Önnur atriði, sem skattstjóri hefur vísað til í þessu sambandi, svo sem umfang rekstrar H ehf. á árinu 2006 og vöntun á rekstraráætlun vegna yfirfærslu einstaklingsrekstrar kæranda til félagsins á því ári, þykja hafa takmarkaða þýðingu í þessu sambandi, m.a. í ljósi þess sem fyrir liggur um flutning á aflahlutdeild B yfir á aðra báta í eigu kaupanda, K ehf., í kjölfar sölunnar. Þá verður ekki talið að upplýsingar, sem skattstjóri aflaði með skýrslutöku af kæranda, A, hinn 3. október 2008, skjóti neinum stoðum undir sjónarmið skattstjóra í málinu.
Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, og þar sem að öðru leyti er ágreiningslaust að skilyrði 56. gr. laga nr. 90/2003 séu uppfyllt í tilviki kæranda, er fallist á kröfu kærenda í máli þessu.
Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kærendum málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kærenda hafa ekki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað þeirra vegna meðferðar málsins, en gerð hefur verið grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kærenda hæfilega ákveðinn 150.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hinni kærðu ákvörðun skattstjóra er hnekkt. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 150.000 kr.