Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 207/1990
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 60. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 1. mgr.
Lífeyrir — Eftirlaun — Lífeyrisgreiðslur — Tekjutímabil — Óvissar tekjur — Dreifing tekna á tekjutímabil til skattlagningar — Eftirágreiðsla lífeyris — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Yfirfærðar launatekjur — Launatekjur, yfirfærðar — Skattskyldar tekjur — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Greiðsluár — Kröfustofnunarregla
I.
Málsatvik eru þau, að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 og skilaði skattstjóra undirrituðu og staðfestu skattframtali það ár. Var framtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu það ár.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði í hyggju að endurákvarða honum opinber gjöld gjaldársins 1988 og gaf honum kost á að gera athugasemdir áður. Ástæður skattstjóra voru svohljóðandi:
„Samkvæmt 4. grein laga nr. 46/1987 skal leggja á menn og innheimta tekjuskatt og útsvar vegna launa ársins 1987 hafi launin verið yfirfærð á það ár vegna breytinga á uppgjörsaðferð eða viðmiðun teknanna eða á annan hátt. Sama á við verði aukning launa manns á árinu 1987 að mati skattstjóra ekki rakin til aukins vinnuframlags hans eða aukinnar starfsábyrgðar eða stöðuhækkunnar.
Þér hafið á árinu 1987 fengið lífeyrisgreiðslur að fjárhæð kr. 1.119.118 frá A-banka. Á árinu 1986 voru samsvarandi greiðslur kr. 109.265 en á árinu 1988 kr. 375.070.
Hér virðist því vera um augljósa yfirfærslu að ræða og ber því skv. framansögðu að skattleggja hinar yfirfærðu tekjur.“
Bréfi þessu svaraði kærandi með bréfi dags. 24. febrúar 1989. Það sem þar skiptir máli vegna kærumáls þessa kemur hér fram:
„Ég var starfsmaður hjá A-banka í 20 ár, lét af störfum 1961 af heilsufarsástæðum, og var dæmd 25% örorka, sem ég naut síðan. Er ég náði eftirlaunaaldri á miðju ári 1982 fór ég fram á að mér yrðu greidd eftirlaun úr Lífeyrissjóði Starfsmanna A-bankans, eins og lög gera ráð fyrir. Þar af er skemmst að segja, að það er fyrst í október 1987, sem ég fékk rétt minn til þeirra viðurkenndan og þá afturvirkan til 1982.
Nú álít ég að ég eigi eftirlaunin fyrir 1987 skattfrjáls eins og aðrar venjulegar launatekjur, það eru ca. kr. 370.000.00.
Þá standa eftir kr. 749.118.00 af töldum tekjum 1987. Þessi upphæð skiptist á fimm ár, sem leiðrétting á greiðslum Lífeyrissjóðsins til mín, það er árin 1982 - 86.
Mér finnst ekki réttlátt að ég sé látin gjalda þess að mér gekk erfiðlega og seint að ná rétti mínu, að skattleggja á einu bretti umrædda upphæð.
Hefði ég fengið greiðslurnar eðlilega eins og ég átti rétt á og þær hefðu verið árlegar, hefði það haft sáralítil áhrif á skattgjöld mín.“
Að fengnu þessu svari kæranda reit skattstjóri honum bréf, dags. 3. mars 1989, og tilkynnti um fyrirhugaðar eftirtaldar breytingar á þegar álögðum gjöldum gjaldársins 1988 og gaf honum jafnframt kost á að tjá sig um þær, áður en þær yrðu framkvæmdar:
„Líta á kr. 780.000 af eftirlaunum yðar frá A-banka sem yfirfærðar tekjur og innheimta af þeim tekjuskatt og eignarskatt. Með því eru kr. 339.118 samþykkt sem eftirlaun ársins 1987 og er þá höfð hliðsjón af því, að þér teljið fram kr. 375.070 á framtali 1989 vegna ársins 1988. Ekki er fallist á þá fullyrðingu í bréfi yðar frá 24.02.89, að eftirlaun yðar 1987 hafið aðeins verið kr. 5.000 lægri en eftirlaun yðar 1988, nema lögð verði fram gögn til staðfestingar því.
Tekið skal fram, að skattlagning tekna þessara á framtali 1988 virðist yður hagstæðari, en ef tekjunum hefði verið dreift til skattlagningar á framtöl 1983 - 1987, en ef um dreifingu væri að ræða kæmi stærstur hluti hækkunarinnar hjá eiginmanni yðar, sem bæði hefir nýtt meiri hluta persónuafsláttar yðar og notið flutnings á hluta tekna í lægra skattþrep en ella.“
Eftir gögnum málsins fékk skattstjóri ekki svör frá kæranda við síðastnefndu bréfi hans. Í framhaldi af því reit hann kæranda svohljóðandi bréf, dags. 31. mars 1989:
„Með vísan til 1. og 4. málsgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er yður hér með gert viðvart um að skattstjóri hefir gert eftirfarandi breytingar á skattframtali yðar árið 1988.
Lagt tekjuskatt og útsvar til innheimtu á kr. 780.000 af eftirlaunum yðar frá A-banka, sbr. bréf vort 03.03. sl.
Breyting gjaldstofna og niðurfellingarhlutfall:
Var: Verður:
Tekjuskattsstofn 1.081.767 1.159.767
Niðurfellingarhlutfall 100% 37,71%
Skattbreytingarseðill fylgir hér með.
Kærufrestur til skattstjóra er 30 dagar frá póstlagningu þessa úrskurðar.“
II.
Með bréfi, dags. 2. maí 1989, gerði kærandi svohljóðandi athugasemdir við aðgerðir skattstjóra:
„Með bréfi dagsettu 31. mars 1989 tilkynnið þér mér, hr. skattstjóri, að þér hækkið álögð gjöld mín 1988 úr kr. 0,0 þannig; tekjuskatt kr. 127.909,00 og útsvar kr. 70.519,00 vegna inngreiðslu eftirlauna minna árin 1983 til 1987 og sem greiddar voru á árinu 1987.
Ég geri áframhaldandi kröfu til þess, að skattar þessir verði miðaðir við ár hvert, sem greiðslur taka til, enda er því mótmælt, að með afturvirkum hætti, verði skattframtöl eiginmanns míns tekin til endurskoðunnar, þar sem við teljum fram hvort í sínu lagi, og ekki eru efni til endurupptöku á álögðum gjöldum hans.“
Með úrskurði, dags. 19. maí 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að hún hefði borist honum eftir lok kærufrests. Breyting skattstjóra hefði verið tilkynnt með bréfi dags. 31. mars 1989 og hefði 30 daga kærufrestur því runnið út 29. apríl, en kæran dagsett og móttekin þann 2. maí s.á.
III.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. maí 1989. Krefst hann þess að kærumálið verði tekið til efnisúrlausnar og kröfur hans teknar til greina. Telur hann sig ekki hafa notið fulls kærufrests til skattstjóra og gerir grein fyrir því.
IV.
Með bréfi, dags. 29. júní 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda er kærufrestur skv. 99. gr. laga nr. 75/1981 fortakslaust 30 dagar frá og með póstlagningardegi úrskurðar skattstjóra.“
V.
Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar.
Umrædd eftirlaun teljast kæranda til skattskyldra tekna samkvæmt ákvæðum 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt eigin frásögn kæranda fékk hann í október 1987 viðurkenndan rétt sinn til eftirlaunanna frá og með árinu 1982. Hafi eftirlaun aftur í tímann verið greidd í október 1987 með 1.119.118 kr. og tekjufærði kærandi þá fjárhæð í skattframtali sínu árið 1988. Þessar tekjur þykja hafa verið „óvissar tekjur“ í skilningi 2. mgr. 60. gr. nefndra laga og með því að kærandi hefur ekki gert grein fyrir því hvernig þær tekjur skiptast á ár er eigi fallist á kröfu hans um dreifingu þeirra. Koma þær því allar til tekna í skattframtali kæranda árið 1988, svo sem hann og taldi fram í upphafi. Er því kröfu kæranda hafnað og ákvörðun skattstjóra felld úr gildi.