Úrskurður yfirskattanefndar
- Söluhagnaður hlutabréfa
- Skipti á hlutabréfum
Úrskurður nr. 226/2010
Gjaldár 2009
Lög nr. 90/2003, 18. gr., 25. gr. 1. mgr.
Talið var að ákvarða bæri kæranda söluhagnað vegna skipta á hlutabréfum í S hf. fyrir hlutabréf í E hf. á árinu 2008, enda gerðu reglur skattalaga ráð fyrir því að með slík skipti á hlutabréfum færi á sama hátt og venjulega sölu við skattlagningu söluhagnaðar. Þá var ekki talið að verðlækkun hinna mótteknu hlutabréfa í E hf. síðar á sama ári gæti orkað á skattskyldu söluhagnaðar og uppgjör hans vegna hinna seldu hlutabréfa í S hf.
I.
Kæruefnið í máli þessu er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2009 að ákvarða honum skattskyldan söluhagnað vegna sölu á hlutabréfum í S hf. á árinu 2008, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 28. júlí 2009, þar sem fjárhæð umrædds söluhagnaðar var tilgreind 528.192 kr. til tekjufærslu í reit 164 í skattframtalinu og síðan leiðrétt til lækkunar í 328.196 kr. með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 17. nóvember 2009, enda hafði láðst að draga kaupverð hinna seldu hlutabréfa í S hf. að fjárhæð 199.996 kr. frá söluverði þeirra að fjárhæð 528.192 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. febrúar 2010, er þess krafist að umrædd hlutabréfaviðskipti verði ekki skattlögð eins og um söluhagnað hafi verið að ræða og breyting skattstjóra verði felld úr gildi.
II.
Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2009 fylgdi yfirlit um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19) á árinu 2008. Þar var meðal annars greint frá ráðstöfun hlutabréfaeignar kæranda í S hf. að nafnverði að fjárhæð 79.547 kr. og stofnverði (kaupverði) að fjárhæð 199.996 kr. Ekkert söluverð var tilgreint en nafnverð og stofnverð fært út. Söluhagnaður/sölutap var tilgreint 0 kr.
Með bréfi, dags. 28. júlí 2009, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali hans árið 2009 að söluverð hlutabréfa í S hf. hefði verið hækkað úr 0 kr. í 528.192 kr. og skattskyldur hagnaður af sölu hlutabréfa í reit 164 í skattframtalinu hækkaður úr 0 kr. í 528.192 kr. Skattstjóri vísaði til 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og ákvæðum þessum hafði verið breytt með 1. gr. laga nr. 38/2008, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum og öðrum tilgreindum skattalögum, varðandi skattskyldu og uppgjör hagnaðar vegna sölu hlutabréfa. Skattstjóri tók fram að samkvæmt yfirliti um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19), sem fylgt hefði skattframtali kæranda árið 2009, hefði hann átt hlutabréf í S hf. í upphafi árs 2008 að nafnverði að fjárhæð 79.547 kr. og kaupverði að fjárhæð 199.996 kr. Fyrir lægi að á árinu 2008 hefði E hf. keypt hlutabréf af hluthöfum í S hf. samkvæmt yfirtökutilboði, dags. 27. mars 2008, og hefðu kaupin farið fram hinn 2. júlí 2008. Hlutabréfin hefðu verið keypt á genginu 6,64. Söluverðið reiknaðist því sem nafnverð hlutabréfa í S hf. margfaldað með 6,64 eða samtals 528.192 kr. í tilviki kæranda. Skattstjóri tók fram að umrædd viðskipti kæmu fram í greindu yfirliti um kaup og sölu hlutabréfa, en væru ekki færð í samræmi við fyrrgreind ákvæði 18. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til þessa væri söluverð hlutabréfa kæranda í S hf. hækkað úr 0 kr. í 528.192 kr. og söluhagnaður í reit 164 í skattframtali kæranda árið 2009 jafnframt hækkaður úr 0 kr. í 528.192 kr.
Kærandi andmælti breytingu skattstjóra með bréfi, dags. 31. júlí 2009. Þar kom fram að svo virtist sem reiknaður hefði verið fjármagnstekjuskattur vegna færslu á hlut kæranda í S hf. yfir í E hf. Kvaðst kærandi aldrei hafa fengið neina peninga vegna þessarar færslu á milli félaganna, enda sýndi bráðabirgðaútreikningur aðra niðurstöðu.
Skattstjóri tók umrætt bréf kæranda sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og kvað upp kæruúrskurð, dags. 17. nóvember 2009. Skattstjóri rakti efni tilkynningar sinnar, dags. 28. júlí 2009, og tilvísun til ákvæða 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003. Ítrekaði skattstjóri að E hf. hefði keypt bréf af hluthöfum í S hf. hinn 2. júlí 2008 á genginu 6,64, að undangengnu yfirtökutilboði, dags. 27. mars 2008, og við þau kaup hefði myndast hagnaður sem skattskyldur væri á grundvelli 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig 8. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga. Söluverð hlutabréfa kæranda reiknaðist nafnverð bréfanna 79.547 kr. margfaldað með 6,64 eða samtals 528.192 kr. Breytti engu í þessu sambandi hvort kaupverðið hefði verið greitt með peningum eða hlutabréfum. Þá mætti benda á að kærandi hefði getað selt hlutabréfin, sem hann hefði fengið í staðinn, strax í kjölfar viðskiptanna og þannig innleyst hagnað í formi peninga. Tók skattstjóri fram að þar sem kærandi hefði fyllt yfirlit um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.19) ranglega út hefði kaupverðið á bréfum í S hf. að fjárhæð 199.996 kr. ekki verið dregið frá söluverðinu 528.192 kr. við útreikning á söluhagnaði samkvæmt tilkynningu skattstjóra frá 28. júlí 2009. Það væri hér með leiðrétt og lækkaði söluhagnaður í reit 164 í skattframtali kæranda árið 2009 samkvæmt þessu úr 528.192 kr. í 328.196 kr. Með vísan til framangreinds væri kæru kæranda hafnað.
III.
Með kæru, dags. 15. febrúar 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 17. nóvember 2009, til yfirskattanefndar. Krefst umboðsmaðurinn þess að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að greind hlutabréfaviðskipti sæti ekki skattlagningu fjármagnstekjuskatts. Vísar umboðsmaðurinn til gagna málsins varðandi málavexti og rök skattstjóra fyrir hinni umdeildu skattlagningu. Umboðsmaðurinn telur niðurstöðu skattstjóra ósanngjarna, enda sé verið að skattleggja fjármagnstekjur hjá kæranda sem hann hafi aldrei fengið og hafi hann ekkert haft um þessi viðskipti að segja. Skipt hafi verið á hlutabréfum í S hf. fyrir bréf í E hf., en þegar síðargreindu bréfin hafi verið komin í hendur kæranda hafi þau verið orðin einskis virði. Skattstjóri haldi því fram að selja hefði mátt bréfin í E hf. strax í kjölfar viðskiptanna og innleysa þannig söluhagnaðinn í formi peninga. Sé þessari staðhæfingu skattstjóra mótmælt, enda hafi allt þetta ferli tekið sinn tíma og þegar unnt hafi verið að selja bréfin hafi þau verið orðin verðlaus.
IV.
Með bréfi, dags. 23. apríl 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. apríl 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og ákvæðið hljóðaði á umræddum tíma, telst hagnaður af sölu hlutabréfa og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu hlutabréf. Í 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur fram að hagnaður af sölu hlutabréfa og afleiðusamninga sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf, telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar, sbr. þó 4. mgr. ákvæðisins en sú undantekning hefur ekki þýðingu í málinu. Óumdeilt er að kærandi lét hinn 2. júlí 2008 af hendi hlutabréf sín í S hf. að nafnverði 79.547 kr. á genginu 6,64 gegn hlutabréfum í E hf. á grundvelli yfirtökutilboðs frá 27. mars 2008. Samkvæmt þessu reiknaðist söluverð hlutabréfanna í S hf. 528.192 kr. í hendi kæranda. Kaupverð bréfanna nam 199.996 kr. og taldi skattstjóri því að kærandi hefði haft skattskyldan hagnað af sölunni að fjárhæð 328.196 kr., sbr. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, er hann færði kæranda til tekna í reit 164 í skattframtali árið 2009. Taka verður undir það með skattstjóra að það fær engu breytt um skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfanna í S hf. að söluandvirðið var innt af hendi með hlutabréfum í E hf. Tekið skal fram að reglur laga nr. 90/2003 gera ráð fyrir því að með slík skipti á hlutabréfum, sem í máli þessu greinir, fari á sama hátt og venjulega sölu með tilliti til skattlagningar söluhagnaðar, sbr. m.a. upphafsákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Af hálfu kæranda er því fyrst og fremst borið við að hlutabréfin í E hf. hafi verið orðin verðlaus þegar fyrst hafi verið tök á því að selja þau. Að auki er borið við sanngirnisrökum. Ganga verður út frá því að verðmæti þeirra hlutabréfa í E hf., sem kærandi móttök sem gagngjald fyrir hlutabréf sín í S hf., hafi svarað til verðmætis hinna afhentu hlutabréfa á þeim tíma þegar salan fór fram eða 2. júlí 2008, enda er ekki öðru haldið fram af hálfu kæranda. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu, enda getur verðlækkun eða verðfall hinna mótteknu hlutabréfa síðar á árinu ekki orkað á skattskyldu söluhagnaðar og uppgjör hans vegna hinna seldu bréfa í S hf.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.