Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vantaldar tekjur
  • Launauppgjöf
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 252/2010

Gjaldár 2009

Sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda, að hækka framtalin laun frá X ehf. til samræmis við innsendan launamiða frá félaginu, var ómerkt með því að skattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að leggja fram skýringar og gæta réttar síns að öðru leyti áður en skattframtalinu var breytt á hinn umdeilda veg. Kom fram að þess hefði verið þörf þar sem upplýsingum á launamiða og upplýsingum í staðgreiðslukerfi skattyfirvalda bar ekki saman um fjárhæð launa kæranda frá X ehf.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2009 tilgreindi kærandi launatekjur frá X ehf. að fjárhæð 3.823.087 kr.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2009, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali hans árið 2009 að launatekjur frá X ehf. hefðu verið hækkaðar úr 3.823.087 kr. í 4.561.519 kr. til samræmis við innsendan launamiða frá launagreiðanda (RSK 2.01). Kom fram í bréfi skattstjóra að laun teldust til skattskyldra tekna, sbr. ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með ódagsettri kæru, sem barst skattstjóra þann 6. ágúst 2009, gerði kærandi athugasemdir vegna framangreindrar breytingar skattstjóra. Í kærunni kom fram að laun kæranda vegna tímabilsins frá janúar til og með nóvember 2008 hefðu numið 4.212.309 kr. Innsendur launamiði væri líklega vegna alls ársins 2008, þ.e. að meðtöldum desember, en kærandi hefði ekki fengið nein laun greidd í desember.

Með kæruúrskurði, dags. 2. október 2009, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum kom eftirfarandi fram:

„Hef yfirfarið framtal og álagningu. Laun í staðgreiðsluskrá fyrir nóvember og desember vegna ofangreindra launa hafa verið leiðrétt og stemma þá laun á framtali við launamiða og staðgreiðsluskrá. Engin staðfesting fylgir með kæru frá stéttarfélagi gjaldanda til að færa sönnur á það að desemberlaun hafi verið vangreidd og að þau séu í innheimtu hjá stéttarfélagi gjaldanda.

Engin breyting er því gerð á framtali gjaldanda, en laun fyrir nóvember og desember hafa verið færð í staðgreiðsluskrá.“

II.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2009, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 2. október 2009, til yfirskattanefndar. Í kærunni er vísað til meðfylgjandi gagna, en þar er meðal annars um að ræða launaseðla og staðfestingu frá X ehf., dags. 29. janúar 2009, þar sem fram kemur að kærandi hafi starfað óslitið hjá félaginu frá 1. desember 2007 til 31. desember 2008 í fullu starfi. Í kærunni kemur fram að kærandi telji álagningu skattstjóra ranga og sé því farið fram á að mál hans verði yfirfarið nánar.

III.

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærandi heldur því fram í kæru að álagning skattstjóra vegna tekjuársins 2008 sé röng og fer fram á endurskoðun á þeirri álagningu. Í ósk um breytingu á skattframtali 2009, þar sem tilgreind eru laun vegna nóvember 2008, heldur kæranda því fram að hann hafi ekki fengið greidd laun fyrir desembermánuð 2008.

Í úrskurði skattstjóra segir að laun í staðgreiðsluskrá fyrir nóvember og desember 2008 hafi verið leiðrétt og stemmi þá laun á framtali við launamiða og staðgreiðsluskrá. Engin staðfesting fylgi með kæru frá stéttarfélagi gjaldanda er færi sönnur á að desemberlaun hafi verið vangreidd og séu til innheimtu hjá stéttarfélagi gjaldanda.

Samkvæmt upplýsingum úr tölvukerfi ríkisskattstjóra stemmir afdregin staðgreiðsla við greidd laun kæranda á árinu 2008 samkvæmt launamiða frá launagreiðanda. Afdregin staðgreiðsla samkvæmt staðgreiðsluskrá var röng, en hefur nú verið leiðrétt. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu er renna stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að hann hafi ekki fengið greidd laun fyrir desembermánuð 2008.

Þar sem skattstjóri hefur nú leiðrétt afdregna staðgreiðslu í staðgreiðsluskrá og álagning samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er rétt er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. febrúar 2010, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra að hækka launatekjur kæranda í reit 21 í skattframtali árið 2009 frá X ehf. úr 3.823.087 kr. í 4.561.519 kr. Þetta gerði skattstjóri á grundvelli launamiða frá umræddu einkahlutafélagi, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 29. júlí 2009, sem hann staðfesti með kæruúrskurði sínum, dags. 2. október 2009. Eins og fram er komið fór skattstjóri með hina kærðu breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er mælt svo fyrir að skattstjóri geti leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skuli skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild skattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og fram er komið byggði skattstjóri hina kærðu hækkun launa í skattframtali kæranda árið 2009 á launauppgjöf launagreiðanda sem gerð var samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003. Af gögnum málsins verður á hinn bóginn ráðið að upplýsingum á innsendum launamiða umrædds launagreiðanda kæranda og upplýsingum í staðgreiðslukerfi skattyfirvalda bar ekki saman um fjárhæð launa kæranda frá honum árið 2008, en fyrir liggur að með kæruúrskurði sínum, dags. 2. október 2009, hlutaðist skattstjóri til um breytingu á fjárhæð launa kæranda í staðgreiðsluskrá. Eins og málið lá fyrir skattstjóra samkvæmt þessu verður ekki talið að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en skattstjóri ákvað hina kærðu breytingu með tilkynningu sinni, dags. 29. júlí 2009, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem gefa varð kæranda kost á að neyta andmælaréttar síns, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu voru ekki skilyrði til þess að skattstjóri færi með umrædda breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, heldur bar honum að fylgja ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga teldi hann ástæðu til að hagga við skattskilum kæranda að þessu leyti.

Að framangreindu virtu þykir verða að ómerkja hina kærðu breytingu skattstjóra og byggja að svo stöddu á skattframtali kæranda árið 2009 óbreyttu að því er varðar launafjárhæð í reit 21 sem verður 3.823.087 kr. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða breyting skattstjóra er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja