Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 212/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 9. tl. — 31. gr. 1. tl. — 73. gr. — 74. gr. 1. tl. 2. mgr.  

Eignarréttindi — Eignarréttindi, skattskyld — Skattskyld eignarréttindi — Verðmæt eignarréttindi — Skattskyld eign — Eign, skattskyld — Eignarskattsskylda — Eignarskattsstofn — Eignarréttur — Fasteign — Atvinnuhúsnæði — Leigulóð — Lóð — Lóðarréttindi — Leigulóðarréttindi — Leigusamningur — Endurgjaldslaus afnot — Afgjaldskvaðarverðmæti — Fasteignarafnot — Skattskyldar tekjur — Fasteignamatsverð — Rekstrarkostnaður — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Eignfærsla — Reiknaðar tekjur vegna endurgjaldslausra afnota fasteignar — Hlunnindi — Skipulag þéttbýlis

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 28. október 1988, boðaði skattstjóri kærendum þá breytingu á skattframtali þeirra árið 1988 að færa þeim til skattskyldrar eignar leigulóð að X, við fasteignamatsverði 764.000 kr. Um þetta vísaði skattstjóri til úrskurðar síns vegna gjaldársins 1987. Sá úrskurður, dags. 16. janúar 1988, liggur fyrir í málinu. Af hálfu kærenda var hinni boðuðu breytingu skattstjóra mótmælt í bréfi umboðsmanns þeirra, dags. 2. nóvember 1988, með vísan til bréfa, dags. 22. nóvember 1987 og 30. desember 1987, varðandi hliðstæða breytingu gjaldárið 1987. Í bréfum þessum kom fram, að kærendur hefðu selt Y-bæ fasteign á lóð þessari á árinu 1984 og hefðu lóðarréttindin flust til kaupanda eignarinnar við kaupsamninginn, en lóðin væri leigulóð. Kærandi hefði tekið húsnæðið á leigu af Y-bæ samkvæmt kaupsamningnum. Ekkert tilefni væri til álagningar eignarskatts vegna þessa leigusamnings, enda engin ákvæði í lögum um álagningu eignarskatts á leigjendur vegna eigna, er þeir hafi á leigu.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 1988, tilkynnti skattstjóri kærendum, að umrædd leigulóð hefði verið færð þeim til eignar í skattframtali árið 1988 við fasteignamatsverði 764.000 kr. og áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1988 breytt í samræmi við það. Samkvæmt fortakslausu ákvæði 74. gr. laga nr. 75/1981 bæri að telja leigulóð til eignar hjá leigjanda að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti. Ómótmælt væri, að kærandi hefði lóðina endurgjaldslaust á leigu frá Y-bæ. Afgjaldskvaðarverðmæti væri því ekkert, þannig að lóðina bæri að telja að fullu til eignar hjá kærendum.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var breytingin kærð með kæru, dags. 9. desember 1988, og þess krafist, að eignfærsla lóðarinnar hjá kærendum yrði felld niður. Kom fram í kærunni, að kærendur hefðu selt Y fasteign sína við X á árinu 1984, en vegna breikkunar á götunni og fleiri skipulagsatriða ætti húsið að víkja. Hluti samningsins hefði verið að kærendur þyrftu ekki að rýma húsnæðið fyrr en að fimm árum liðnum og skyldi þeim ekki reiknuð húsaleiga fyrir þann tíma af hálfu kaupanda, þ.e. bæjarins. Ljóst virtist, að þetta ákvæði samningsins hefði ráðist af því, hvernig hann bar að, en í raun hefði ekki verið um frjálsa sölu að ræða. Þrátt fyrir þetta hefðu kærendur reiknað sér til tekna 2.7% af fasteignarmatsverði húss og lóðar og teldu sig þar með hafa uppfyllt þær skyldur sínar, sem skattalög legðu þeim á herðar í sambandi við afnot fasteignarinnar. Ekki væri unnt að fallast á túlkun skattstjóra á 74. gr. laga nr. 75/1981 og væri kærendum ekki skylt fremur en öðrum leigutökum að telja sér leigulóðina til eignar.

Með kæruúrskurði, dags. 12. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda og ákvað, að fyrri ákvörðun skyldi óbreytt standa. Ítrekaði skattstjóri áður framkomin rök sín. Þá tók hann fram, að ekki yrði séð, að reiknaðar leigutekjur skiptu máli, enda hlytu þær að gjaldfærast jafnframt því að tekjufærast, þar sem um atvinnueign væri að ræða.

Með kæru, dags. 5. janúar 1989, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu, að eignarskattsstofn samkvæmt framtali verði látinn óhreyfður standa. Greinargerð umboðsmannsins er svohljóðandi:

„Mál það er hér um ræðir snýst um þá ákvörðun Skattstjóra að færa umbj.m. til eignar leigulóð við X hér í bæ.

Fasteign þá sem stendur á þessari leigulóð seldu umbj.m. Y-bæ á árinu 1984, en hún á að víkja vegna skipulagsbreytinga. Hluti þessa samnings var, að umbj.m. fengu afnot af fasteigninni til 5 ára án greiðslu sérstaks leigugjalds. Umbj.m. telja að líta megi á þetta ákvæði samningsins hliðstætt öðrum leigusamningum og sé því eins ástatt um þá og aðra leigjendur þessa lands, en ekki er kunnugt um að þeim hafi hingað til verið færðar til eignar leigulóðir þeirra fasteigna sem þeir hafa á leigu hvort sem um er að ræða atvinnuhúsnæði eða húsnæði til einkanota.

Umbj.m. telja að túlkun skattstjóra á ákvæðum 74. gr. l. nr. 75/1981 eigi ekki við í því tilfelli er hér um ræðir, enda hefur því ekki verið beitt með þessum hætti hjá öðrum leigjendum að því er best er vitað.

Í úrskurði sínum bendir skattstjóri á að reiknaða leigu umbj.m. af þessari fasteign, sem þau hafa fært sér til tekna, beri einnig að færa til frádráttar þar sem hér sé um atvinnurekstrarhúsnæði að ræða. Þar sem umbj.m. láðist að færa þessa upphæð, kr. 84.456., til frádráttar í rekstrarreikningi sínum, er óskað eftir leiðréttingu á þessu atriði.“

Með bréfi, dags. 14. febrúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi hafa verið neinar líkur leiddar að því, að þau leiguafnot kærenda af fasteign þeirri, húsi og lóð við X, sem í málinu greinir, hafi skapað kærendum sem leigutökum þau fjárhagsleg verðmæti vegna lóðarafnota sem slíkra, að 2. mgr. 1. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, taki til tilviksins. Er krafa kærenda því tekin til greina. Að öðru leyti er kærunni vísað frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja