Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útvarpsgjald

Úrskurður nr. 344/2010

Gjaldár 2009

Lög nr. 6/2007, 11. gr. 1. mgr. 1. tölul.  

Kærendum var ákvarðað gjald vegna Ríkisútvarpsins ohf. (útvarpsgjald) við álagningu opinberra gjalda, enda áttu lögmæltar undanþágur frá gjaldskyldu ekki við í tilviki þeirra. Vegna athugasemda kærenda um að móttökuskilyrði bæði útvarps og sjónvarps væru léleg á heimili þeirra kom fram að engin heimild væri til þess að lögum að taka tillit til slíkra aðstæðna.

I.

Með kæru, dags. 14. janúar 2010, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 16. október 2009, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2009. Er kæruefnið álagning sérstaks gjalds (útvarpsgjalds) samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum, á kærendur umrætt gjaldár. Í kærunni kemur fram að kærendur uni því ekki að þeim sé gert að greiða fullt útvarpsgjald að fjárhæð 17.200 kr., enda séu móttökuskilyrði bæði útvarps og sjónvarps léleg á heimili kærenda og telji þau sig ekki njóta þeirrar þjónustu sem verið sé að krefja þau um gjald fyrir. Sé hámark að lagt verði hálft útvarpsgjald á hvort hjóna.

II.

Með bréfi, dags. 26. mars 2010, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. mars 2010, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 18. apríl 2010, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er áréttað að útvarpsútsendingar Ríkisútvarpsins ohf. séu ógreinilegar og að kærendur hafi sjálf þurft að bera kostnað af aukabúnaði, þ.e.a.s. magnara, til að ná sjónvarpsútsendingum

III.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., eins og ákvæði þetta hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009, teljast til tekna Ríkisútvarpsins ohf. tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hvílir gjaldskylda á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 17.200 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, eins og ákvæðið hljóðaði við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2009, teljast til tekna Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 2. mgr. lagagreinar þessarar kemur fram að undanþegin gjaldinu séu börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn undir tilgreindum mörkum sem taka árlegum breytingum samkvæmt því sem nánar greinir í ákvæðinu, en á tekjuárinu 2008 nam sú fjárhæð 1.143.362 kr. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin. Þá skal skattstjóri fella þetta gjald niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Kærendur báru ótakmarkaða skattskyldu hér á landi gjaldárið 2009 samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt skattframtali kærenda árið 2009 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, Þ, 3.207.724 kr. og tekjuskattsstofn kæranda, P, 2.877.718 kr., en sameiginlegar fjármagnstekjur kærenda námu 396.720 kr. Að þessu athuguðu og með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 bar skattstjóra að ákvarða kærendum umrætt gjald vegna Ríkisútvarpsins ohf., enda áttu undanþágur 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, sem hið fyrrnefnda ákvæði vísar til, ekki við í tilviki kærenda. Engin heimild er til þess að lögum að taka tillit til þeirra aðstæðna, sem greint er frá í kæru, við álagningu útvarpsgjalds. Samkvæmt þessu er kröfu kærenda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja