Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæruheimild
  • Kæranleg skattákvörðun
  • Söluhagnaður, frestun skattlagningar

Úrskurður nr. 97/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 13. gr., 14. gr., 101. gr. 2. mgr.   Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.  

Yfirskattanefnd taldi að ágreiningi um skattalega meðferð hagnaðar af sölu bújarðar bæri almennt að ráða til lykta í skattskilum vegna þess tekjuárs þegar söluhagnaðurinn myndaðist og þætti engu breyta um það þótt skattaðili nýtti sér lagaheimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar. Kærandi hafði fært söluhagnaðinn með rekstrartekjum í rekstrarskýrslu með skattframtali sínu árið 2014. Yrði skattaleg meðferð hins umþrætta söluhagnaðar ekki tekin til umfjöllunar í kærumáli vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016.

Ár 2017, miðvikudaginn 7. Júní, er tekið fyrir mál nr. 242/2016; kæra A, dags. 16. desember 2016, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2016 fylgdi landbúnaðarskýrsla (RSK 4.08) vegna búrekstrar að G. Samkvæmt skýrslunni nam hagnaður ársins 620.163 kr.

Með bréfi, dags. 23. júní 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali árið 2016 að ríkisskattstjóri hefði fært kæranda til tekna í landbúnaðarskýrslu skattskyldan söluhagnað vegna jarðarsölu að fjárhæð 15.172.765 kr. að viðbættu 10% álagi að fjárhæð 1.517.276 kr. Kom fram í bréfi ríkisskattstjóra að um væri að ræða söluhagnað frá árinu 2013 sem kærandi hefði frestað skattlagningu á um tvenn áramót í skattframtali sínu árið 2014, sbr. ákvæði 14. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem tímamörk frestunar væru liðin og ekki virtist hafa verið keypt eign í stað hinnar seldu væri söluhagnaðurinn færður í landbúnaðarskýrslu með skattframtali árið 2016 að viðbættu 10% álagi. Tók ríkisskattstjóri fram að um væri að ræða söluhagnað fyrnanlegra eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003. Þá kom fram að breyting ríkisskattstjóra leiddi til þess að hreinar tekjur ársins í reit 62 í persónuframtali kæranda yrðu 15.385.899 kr.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 29. ágúst 2016, var breytingum embættisins á skattframtali kæranda árið 2016 mótmælt. Var þess óskað að álagning yrði endurskoðuð og milduð. Fram kom að kærandi hefði á árinu 2000 hætt hefðbundnum búrekstri á G, selt kýr og greiðslumark til mjólkurframleiðslu, en hann hefði átt áfram fáeinar kindur og hesta. Kærandi hefði af gömlum vana haldið áfram að telja fram, það sem lítið var, á landbúnaðarskýrslu og að mati kæranda hefði mátt ígrunda þá ákvörðun betur. Kærandi greindi frá því að sami maður hefði séð um framtöl hans og kærandi hefði látið hann alfarið um þau mál. Í maí árið 2008 hefði komið slæmur jarðskjálfti og hefði jörðin verið nálægt upptökum skjálftans. Kærandi greindi frá því að byggingar á jörðinni hefðu skemmst og þrjár verið dæmdar sem altjón; gamalt íbúðarhús, gömul votheysgryfja og gömul bygging, sem nýtt hefði verið sem hesthús. Bætur fyrir þessar byggingar hefðu verið framtaldar sem söluhagnaður, þ.e. mismunur tjónsupphæðar og bókfærðs verðs á fyrningarskýrslu. Kærandi áréttaði að þegar jarðskjálftinn reið yfir árið 2008 hefði hann í raun verið búlaus frá árinu 2000. Þessar byggingar hefðu því í raun ekki verið nýttar sem atvinnuhúsnæði. Þá kom fram að kærandi og eiginkona hans hefðu selt syni þeirra jörðina árið 2013. Kærandi taldi að söluhagnaður hefði myndast sem hefði verið skattlagður með 46% skatthlutfalli en tók fram að hann hefði ekki áttað sig á skattlagningunni

Með kæruúrskurði, dags. 13. október 2016, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri kæru umboðsmanns kæranda, dags. 29. ágúst 2016, og málsatvik. Ríkisskattstjóri bendir í skattframtali kæranda árið 2014 hefði skattlagningu söluhagnaðar verið frestað um tvenn áramót. Um hefði verið að ræða söluhagnað af fyrnanlegum eignum samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 15.172.765 kr. Ríkisskattstjóri tók fram að kærandi hefði ekki aflað sér fyrnanlegra eigna innan þess frests sem lög áskilja, sbr. 14. laga nr. 90/2003. Söluhagnaðurinn hefði því verið tekjufærður í landbúnaðarskýrslu með skattframtali árið 2016 að viðbættu 10% álagi að fjárhæð 1.517.276 kr. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að kærandi hefði fengið bætur vegna jarðskjálftatjóns á atvinnurekstrareignum og bújörðin G hefði verið rekstrareign í skilningi skattalaga og skattalega meðhöndluð sem slík til söludags af kæranda hálfu. Umræddur söluhagnaður hefði því réttilega verið færður með atvinnurekstrartekjum. Ástand umræddra mannvirkja, þegar bætur voru ákvarðaðar og greiddar út, gæti ekki leitt til þess að skattskyldur hagnaður síðar meir teljist fjármagnstekjur utan atvinnurekstrar.

II.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. desember 2016, hefur kærandi mótmælt breytingum ríkisskattstjóra á skattframtali hans árið 2016. Er þess krafist í kærunni að skattlagning söluhagnaðar vegna sölu bújarðar yrði mildaður og að minnsta kosti ekki hærri en skatthlutfall af fjármagnstekjum. Í kærunni kemur fram að kæranda hafi verið ráðlagt ýmislegt sem hefði kallað á uppgjör síðar og því hafi hann viljað greiða skattinn en vonað að hann yrði sanngjarn. Kærandi leggur áherslu á að hann fari ekki fram á niðurfellingu skattgreiðslu heldur að hún verði milduð. Kærandi vísar í því samhengi til aldurs og ættliðaskipta í landbúnaði.

III.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun embættisins.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. janúar 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2017, hefur kærandi ítrekað gerðar kröfur í málinu. Í bréfinu bendir kærandi á að hann og eiginkona hans hafi byggt sér íbúðarhús á hálfs hektara lóð úr landi G árið 2013, að mestu fyrir söluandvirði jarðarinnar. Meðfylgjandi bréfinu var vottorð frá Þjóðskrá Íslands.

IV.

Söluhagnaður sá er í málinu greinir myndaðist á tekjuárinu 2013 og gerði kærandi grein fyrir fjárhæð söluhagnaðar í skattskilum sínum vegna þess árs, sbr. eignaskrá (RSK 4.01) er fylgdi skattframtali hans árið 2014. Óskaði hann jafnframt eftir frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Féllst ríkisskattstjóri á það og var skattframtal kæranda árið 2014 lagt óbreytt til grundvallar álagningu það ár. Með tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 23. júní 2016, var hinn frestaði söluhagnaður færður kæranda til tekna í skattframtali árið 2016 að viðbættu 10% álagi. Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 29. ágúst 2016, fór kærandi fram á endurskoðun á skattlagningu söluhagnaðarins. Kom m.a. fram í kærunni að kærandi hefði talið að söluhagnaðurinn yrði skattlagður í skattþrepi fjármagnstekjuskatts. Með hinum kærða úrskurði, dags. 13. október 2016, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. desember 2016, fer kærandi fram á að skattlagning söluhagnaðar verði milduð.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. laganna, og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 færist til tekna er skattaðila heimilt samkvæmt 14. gr. laganna að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Eigi skattaðili ekki eignir, sem hann getur fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, getur hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má samkvæmt 33. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi. Fyrning eða frestun tekjufærslu á þessum grundvelli kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð, sbr. niðurlag greinarinnar.

Það er almenn regla um söluhagnað eigna samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 að söluhagnaður telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári. Að því er varðar söluhagnað af fyrnanlegum eignum kemur þessi regla fram í 1. mgr. 13. gr. laganna, eins og fyrr greinir. Af ákvæðum þessum þykir leiða að ágreiningi um fjárhæð og skattalega meðferð söluhagnaðar beri almennt að ráða til lykta í skattskilum vegna þess tekjuárs þegar hann myndast og þykir engu breyta um það þótt skattaðili nýti sér fyrrgreinda lagaheimild til frestunar á skattlagningu hans. Má í þessu sambandi vísa til úrskurðaframkvæmdar, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 878/1997 og 171/2005 sem birtir eru á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Fyrir liggur að kærandi aflaði sér ekki fyrnanlegra eigna í stað hinna seldu innan tilskilins tíma og færði ríkisskattstjóri honum frestaðan söluhagnað til tekna í skattframtali árið 2016. Í samræmi við það sem að framan greinir var fjárhæð söluhagnaðarins ákvörðuð við meðferð á skattframtali kæranda árið 2014. Verður skattaleg meðferð umrædds söluhagnaðar ekki tekin til umfjöllunar í tilefni af kæru kæranda vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Er kærunni því vísað frá yfirskattanefnd. Kæranda til leiðbeiningar þykir rétt að benda á heimild ríkisskattstjóra samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 til að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Hliðstæða heimild hefur yfirskattanefnd ekki.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.