Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 221/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl., B-liður og C-liður 9. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. — 101. gr. 3. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1987, liðir 2.1.0. og 2.1.2.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Heimanotaðar búsafurðir — Teknamat af landbúnaði — Landbúnaður — Búrekstur — Bústofn — Búfjárafurðir — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Síðbúin framtalsskil — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Áætlun — Áætlun skattstofna — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kærufrestur — Skattframtal, höfnun — Skattframtal, tortryggilegt — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Frjósemisstuðull — Tómstundaræktun — Berjatínsla — Skatterindi

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 6. júní 1989, fól ríkisskattstjóri skattstjóra að taka til afgreiðslu þá ósk kæranda, að skattframtal árið 1988, sem hann hafði sent ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 8. maí 1989, yrði lagt til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 í stað áætlunar skattstjóra áður, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri erindið til afgreiðslu þann 14. júlí 1989. Féllst hann ekki á að leggja framtalið til grundvallar nýrri álagningu, en lækkaði hins vegar áður gerða áætlun. Ástæður skattstjóra voru þær, að framtalið væri háð annmörkum:

„M.a. hverfa 6 hross á árinu án þess að grein sé gerð fyrir afdrifum þeirra. Lambafjöldi á hverja á er aðeins 1,066, sem verður að telja óeðlilega lágt. Þá er sláturkostnaður vegna heimtekins sauðfjár kr. 4.800, en heimanotað kjöt aðeins talið af 4 gamalám. Einnig vantar vinnulaun frá öðrum á framtalið og fleira mætti telja.“

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, var framangreind ákvörðun skattstjóra kærð til hans. Er kæran svohljóðandi:

„Framteljandi telur að óverulegar athugasemdir skattstjóra gefi ekki tilefni til frávísunar framtals. Framteljandi óskar eftir að álagning verði samkvæmt framtali, þó að viðbættum leiðréttingum skattstjóra.

Hvarf sex hrossa er þannig til komið að fjögur hross drápust og til heimanota var tekið eitt tryppi og eitt hross eldra en 14 vetra.

Lambafjöldi á hverja á er að meðaltali 1,249 og sést ekki hvernig skattstjóri hefur fengið töluna 1,066. Mjög vafasamt er að leggja mat á hvað sé óeðlileg tala lamba að meðaltali eftir hverja á, þar sem slíkt er mjög breytilegt milli býla. Sumstaðar er nær ekkert tvílembt og einnig getur lambalát, unglambadauði, slæmar heimtur á haustin, og fleira breytt meðaltalinu verulega.

Það er hvergi tilgreint að heimanotað kjöt sé af fjórum gamalám, heldur af fjórum ám eða hrútum, eins vetra eða eldri. Sláturkostnaður er ekki talinn til gjalda en óskað er eftir því að hann verði færður þar. Á tímum kvóta er vafasamt að telja heimanot til tekna frekar en kartöflurækt kaupstaðarbúa, rabbabaratöku, berjatínslu og svo frv.

Umboðsmaður framteljanda hafði ekki upplýsingar um þau vinnulaun frá öðrum en X-hreppi, en þau óskast færð á framtalið.

Skattstjóra er bent á sérstakar aðstæður framteljenda vegna heilsuleysis hans og er óskað eftir því að hann taki tillit til þeirra við beytingu álags á skattstofna.“

Þann 1. september 1989 kvað skattstjóri upp svohljóðandi kæruúrskurð:

„Úrskurður vor var gefinn út 14.07.1989 og kærufrestur 30 dagar. Kæra yðar er dagsett 22.08.1989 og móttekin 23.08.1989. Hún er því of seint fram komin og er henni því vísað frá. Vegna misskilnings, sem fram kemur í bréfi yðar skal tekið fram, að tekjur af kartöflurækt kaupstaðarbúa, rabbarbaratöku og berjatínslu eru skattskyldar til jafns við aðrar tekjur, hvort sem afurðanna er neytt heima eða þær seldar öðrum.“

Með bréfi, dags. 28. september 1989 hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar og áður gerðar kröfur ítrekaðar.

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa engar viðhlítandi skýringar komið fram á því að ekki var kært til skattstjóra innan hins veitta 30 daga frests.“

Eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar.

Með vísan til gagna málsins og framkominna skýringa af hálfu kæranda þykja ekki efni til annars en fallast á kröfu hans, þó með þeirri breytingu að tekjufæra ber kæranda heimanot vegna tryppis og hests, er hann viðurkennir að hafa lagt sér til munns. Tekjufærsla þessara heimanota nemur skv. skattmati 18.465 kr. miðað við 2. flokk, er sýnist vera hæfileg viðmiðun á afurðum þessum. Eigi verða laun samkvæmt umræddum launamiða færð kæranda til tekna með því að skattstjóri nafngreindi eigi þann aðila er hin meintu vantöldu laun stöfuðu frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja