Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Skurðarvél

Úrskurður nr. 111/2017

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Fiskskurðarvél, sem búin var vatnsþrýsti- og röntgenbúnaði, var talin falla undir tollskrárnúmer 8456.5000 í tollskrá sem vatnsþrýstiskurðarvél. Var ekki talið geta breytt þeirri niðurstöðu þótt vélin væri einnig búin venjulegum skurðarhnífum þar sem höfuðnotkun vélarinnar væri til vatnsþrýstiskurðar.

Ár 2017, miðvikudaginn 28. júní, er tekið fyrir mál nr. 23/2017; kæra A ehf., dags. 27. janúar 2017, vegna bindandi álits tollstjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 27. janúar 2017, sem barst yfirskattanefnd 20. febrúar sama ár, varðar bindandi álit tollstjóra nr. 1/2017 á tollflokkun skurðarvélar af gerðinni Flexicut sem embættið lét uppi hinn 23. janúar 2017 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitinu komst tollstjóri að þeirri niðurstöðu að vélin félli undir tollskrárnúmer 8456.5000 í tollskrá sem vatnsþrýstiskurðarvél. Í kærunni er þess krafist að niðurstöðu tollstjóra verði breytt og umrædd vél talin falla undir tollskrárnúmer 8438.8000 í tollskrá sem annar vélbúnaður til iðnaðarvinnslu eða iðnaðarframleiðslu á matvöru eða drykkjarvöru.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 2. janúar 2017, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun skurðarvélar af gerðinni Flexicut, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2008. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða nýja vatnsskurðarvél. Þá var virkni vélarinnar lýst með eftirfarandi hætti:

„Fiskur fer á færibandi inn vél með röntgentækni (9022.1900) finnur beinagarðinn, sendir uppl. í vatnsspíssa sem skera hann úr inni í vélinni og senda flakið áfram á færiband.

Funksjónin er vélin tekur mynd, tölvusjón af flakinu og sendir uppl. í vatnsspíssan sem sker fiskflakið eftir þeim uppl.“

Tollstjóri lét uppi bindandi álit hinn 23. janúar 2017 í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollstjóri taldi að umrædd skurðarvél félli undir tollskrárnúmer 8456.5000 sem vatnsþrýstiskurðarvél. Var í því sambandi vísað til túlkunarreglna 1 og 6 við tollskrá.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. janúar 2017, kemur fram að kærandi telji niðurstöðu bindandi álits tollstjóra um tollflokkun skurðarvélarinnar ekki endurspegla eðlilega tollflokkun með hliðsjón af virkni og notagildi vörunnar. Skurðarvélin sé ekki vatnsskurðarvél nema að litlu leyti eða um 20%. Röntgenhluti vélarinnar sé dýrasti hluti hennar eða um 60%, en sá hluti taki mynd af fiskflakinu og gefi fyrirmæli um hvernig skera skuli flakið. Meginástæða fyrir þeirri afstöðu kæranda, að varan falli undir tollskrárnúmer 8438.8000 í tollskrá, sé að vélin skeri beinagarð fiskflaksins með vatnsskurði og restina af flakinu í bita með hnífum. Tollflokkur 8438.8000 sé með víðustu skilgreininguna og ætti því að mati kæranda að teljast viðeigandi í þessu tilviki. Því megi bæta við að vélin sé einnig notuð án vatnsskurðar, t.d. ef ekki eigi að skera beinagarð úr flaki. Þá vinni vélin eins og skurðarvél sem falli undir tollskrárnúmer 8438.8000 (8438.5000 ef skurðarvélin sé fyrir kjöt eða kjúkling).

IV.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2017, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að í málinu sé deilt um tollflokkun tækis til aðvinnslu á fiski. Innbyggt í tækið sé röntgenmyndavél, vatnsþrýstiskurðarvél og skurðarhnífar og afurðir vélarinnar sé skorin, beinlaus fiskflök. Þá er vísað til almennra reglna um túlkun tollskrár sem og til athugasemda við XVI. flokks tollskrárinnar þar sem séu leiðbeiningar um tollflokkun véla. Í 3. tölul. athugasemdanna segi að leiði ekki annað af orðalagi flokkist vélasamstæður, settar saman í eina heild úr tveimur eða fleiri vélum og aðrar vélar hannaðar til að framkvæma tvö eða fleiri verkatriði, saman eða sér, eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta eða þá vél sem gegni höfuðhlutverkinu. Tollstjóri líti svo á að vatnsþrýstiskurðarvélin sé sá vélarhluti sem gegni höfuðhlutverki og ráði því tollflokkun. Röntgenmyndavélin þjóni aðeins þeim tilgangi að senda upplýsingar til skurðarvélarinnar. Afurð tækisins sé ekki röntgenmynd af fiskflaki heldur skorið fiskflak. Þrátt fyrir að hægt sé að nota tækið án vatnsþrýstiskurðarvélarinnar þá sé hún sá hluti sem helst einkenni vélina, enda sé vélin dýrari þar sem hún innihaldi bæði vatnsþrýstiskurðarvél og röntgenmyndavél ásamt hinum venjulegu skurðarhnífum. Af þessu leiði að umrædda tækjasamstæðu beri að tollflokka sem vatnsþrýstiskurðarvél, sbr. vörulið 8456 í tollskrá og 3. tölul. athugasemda við XVI. flokk tollskrár. Þess beri að geta að Alþjóðatollastofnunin uppfæri hina alþjóðlegu tollskrá á fimm ára fresti og við síðustu uppfærslu skrárinnar hafi orðið til sérstakur undirliður í vörulið 8456 fyrir vatnsþrýstiskurðarvélar. Í samræmi við framanritað sé þess krafist að niðurstaða hins kærða bindandi álits tollstjóra verði staðfest.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. apríl 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollstjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 23. janúar 2017 í tilefni af beiðni kæranda 2. sama mánaðar. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollstjóra um tollflokkun skurðarvélar af gerðinni Flexicut í tilefni af fyrirhuguðum inn- eða útflutningi vélarinnar. Í beiðni kæranda um bindandi álit kom fram að um væri að ræða fiskskurðarvél sem notaðist við röntgentækni og vatnsskurð. Var vélinni og virkni hennar lýst nánar svo að fiskflak kæmi á færibandi inn í vélina, röntgenvél tæki mynd af flakinu (beinagarðinum) og síðan væri beinagarðurinn skorinn úr með vatnsskurði í samræmi við upplýsingar frá röntgenvélinni. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að skurðarvélin sé einnig búin venjulegum skurðarhnífum og mögulegt sé að nota vélina án vatnsskurðar, þ.e. eins og venjulega fiskskurðarvél. Í beiðni kæranda um bindandi álit kom fram að kærandi teldi að vélin félli undir vörulið 8438 í tollskrá sem vélbúnaður til iðnaðarframleiðslu á matvöru, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8438.8000 („Annar vélbúnaður“). Er bent á í kæru að hefðbundnar fiskskurðarvélar falli þar undir. Tollstjóri komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu í bindandi áliti sínu að vélin félli undir tollskrárnúmer 8456.5000 í tollskrá sem vatnsþrýstiskurðarvél. Snýst deiluefni málsins fyrir yfirskattanefnd um tollflokkun tækisins að þessu leyti.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla.

Í 84. kafla tollskrár er m.a. fjallað um vélbúnað og vélræn tæki og hluta til þeirra. Undir vörulið 8438 í þessum kafla fellur „vélbúnaður, ót.a. í þessum kafla, til iðnaðarvinnslu eða iðnaðarframleiðslu á matvöru eða drykkjarvöru, þó ekki vélbúnaður til vinnslu eða aðvinnslu á feiti eða olíu úr dýra- eða jurtaríkinu“. Vöruliður 8456 í kaflanum tekur hins vegar til þargreindra véla, þar með talið vatnsþrýstiskurðarvéla, sbr. tollskrárnúmer 8456.5000. Eins og getið er í umsögn tollstjóra í málinu var síðastnefnt tollskrárnúmer tekið upp í tollskrá með auglýsingu fjármálaráðuneytisins nr. 123, 15. desember 2016 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005, með síðari breytingum, en samkvæmt 2. gr. auglýsingarinnar öðlaðist hún gildi 1. janúar 2017 og tók til allra vara sem ótollafgreiddar voru við gildistöku hennar.

Í athugasemdum við XVI flokk tollskrárinnar, en sá flokkur samanstendur af köflum 84 og 85, er tekið fram að leiði ekki annað af orðalagi flokkist vélasamstæður, settar saman í eina heild úr tveimur eða fleiri vélum og aðrar vélar hannaðar til að framkvæma tvö eða fleiri verkatriði, saman eða sér, eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta eða þá vél sem gegnir höfuðhlutverkinu, sbr. 3. tölul. athugasemdanna. Þá kemur fram í 7. tölul. athugasemda við 84. kafla tollskrárinnar að vél sem notuð sé í fleiri en einum tilgangi flokkist þannig að litið sé á höfuðnotkun hennar sem einu notkunina.

Fyrir liggur að hin umdeilda skurðarvél er búin vatnsþrýstibúnaði til fiskskurðar. Er því um að ræða vatnsþrýstiskurðarvél í venjulegum skilningi þess orðs. Þá er ljóst að vélin gegnir því hlutverki að skera fisk og er röntgenbúnaði hennar ætlað að stuðla að nákvæmari skurði og þar með betri nýtingu afla. Að þessu athuguðu verður að fallast á með tollstjóra, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir við XVI flokk og 84. kafla tollskrár, að skurðarvélin falli undir tollskrárnúmer 8456.5000 í tollskrá. Getur ekki breytt þeirri niðurstöðu þótt vélin sé einnig búin venjulegum skurðhnífum, enda fer ekki á milli mála að höfuðnotkun vélarinnar er til vatnsþrýstiskurðar. Með vísan til framanritaðs og reglu 1 og 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja