Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 131/2009

Virðisaukaskattur 2008

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að ákvarða kæranda, sem var einkahlutafélag, álag vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, en greiðsla virðisaukaskatts sem var á gjalddaga 6. október 2008 barst innheimtumanni ekki fyrr en 22. sama mánaðar. Vísað var til þess í úrskurði yfirskattanefndar að vegna atburða í íslensku fjármálakerfi á greindum tíma hefði fjármálaráðuneytið beint þeim tilmælum til skattstjóra að fella tímabundið niður álag vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu sem borið hefði að standa skil á 15. október 2008. Þá hefði ráðuneytið sent skattstjórum hliðstæð tilmæli vegna skila á virðisaukaskatti sem borið hefði að standa skil á 5. desember 2008. Taldi yfirskattanefnd að þau rök, sem fram kæmu í tilkynningu fjármálaráðuneytisins um tímabundna niðurfellingu álags vegna skila staðgreiðslu 15. október 2008, ættu ekki síður við vegna virðisaukaskattsskila 6. október 2008. Að þessu athuguðu og að virtum skýringum kæranda var krafa félagsins tekin til greina og álag fellt niður.

I.

Með kæru, dags. 14. janúar 2009, hefur kærandi kært úrskurð skattstjóra, dags. 11. nóvember 2008, varðandi ákvörðun álags að fjárhæð 923.827 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2008 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Krefst kærandi þess að álag verði fellt niður.

II.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda, sem er einkahlutafélag, voru ekki gerð skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2008 á gjalddaga, sem var þann 6. október 2008, og barst greiðsla til innheimtumanns ríkissjóðs ekki fyrr en 22. október 2008. Vegna hinna síðbúnu skila virðisaukaskattsins ákvarðaði skattstjóri kæranda álag samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, að fjárhæð 923.827 kr. Með kæru félagsins, dags. 22. október 2008, var þess óskað að álagið yrði fellt niður. Var frá því greint að félagið starfaði nánast eingöngu sem undirverktaki byggingarfélagsins C hf. Væru því nánast allar tekjur fyrirtækisins háðar greiðslu reikninga frá C ehf. Hinn 2. október 2008 hefði kærandi fengið tölvupóst frá C hf. um að engar greiðslur myndu berast fyrr en 15.–20. þess mánaðar. Sú tilkynning hefði sett kæranda í mikinn vanda á þessum hörmungartímum þar sem bankar væru nánast óstarfhæfir og fyrirgreiðsla á hlaupareikning fullnýtt. Greiðslur frá C hf. hefðu verið eyrnamerktar greiðslu virðisaukaskatts þann 5. október 2008 og hefði því verið ómögulegt að standa í skilum á réttum tíma.

Skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 2008. Vísaði skattstjóri til ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og tók fram að samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar mætti fella álag niður ef skattþegn sýndi fram á að gildar ástæður væru til niðurfellingar þess. Ættu skattyfirvöld mat um hvað teldust gildar ástæður í þessu sambandi. Í framkvæmd hefði jafnan verið beitt álagi vegna vangreidds virðisaukaskatts nema vangreiðsla stafaði af óviðráðanlegum atvikum. Gjalddagi uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2008 hefði verið 5. október 2008, en greiðsla kæranda að fjárhæð 9.238.278 kr. hefði borist 22. október 2008. Eins og atvikum þessa máls væri háttað þætti skattstjóra ekki tilefni til að falla frá álagsbeitingu á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Væri kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. janúar 2009, er gerð grein fyrir atvikum á sama hátt og í kæru til skattstjóra, dags. 22. október 2008. Jafnframt kemur fram að kærandi hafi leitað til viðskiptabanka félagsins, Glitnis hf., um aukningu á yfirdrætti svo mögulegt væri að standa í skilum með virðisaukaskattinn eftir að greiðsla frá C hf. hefði brugðist, en enga fyrirgreiðslu hefði verið að fá hjá bankanum, enda öll framtíð hans í óvissu um þær mundir. Greiðslan frá C hf. hafi síðan borist 22. október 2008 og hafi virðisaukaskatturinn verið greiddur án álags þann dag. Vegna forsendna skattstjóra er tekið fram í kærunni að á þeim dögum sem hér um ræði hafi þrír aðalviðskiptabankar landsins farið í þrot. Allt fjármálakerfið hefði verið lamað þessa daga. Kærandi hefði eingöngu verið þolandi í þeim hamförum. Séu vandfundin jafn bersýnilega utanaðkomandi óviðráðanleg atvik eins og þau sem hér hafi gengið yfir og því hafi skattstjóra borið að fella álag niður.

IV.

Með bréfi, dags. 6. mars 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærandi gerir þær kröfur að álag skattstjóra vegna greiðslu virðisaukaskatts verði fellt niður. Kærandi rökstyður mál sitt með því að óviðráðanleg atvik hafi valdið síðbúnum skilum á virðisaukaskatti. Greiðsla vegna reikninga félagsins sem greiða átti hinn 5. október 2008 hafi ekki borist fyrr en 22. október s.á. og hafi virðisaukaskatturinn verið greiddur þann sama dag, án álags.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skal álag skv. 1. mgr. vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%. Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 má fella niður álag skv. 2. mgr. ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að ríkar ástæður þurfi til að niðurfellingarheimildinni verði beitt. Fjárskortur gjaldanda hefur almennt ekki verið talin gild ástæða samkvæmt ákvæði þessu.

Að framangreindu virtu er þess krafist að álagsbeiting skattstjóra verði staðfest, enda hefur ekki verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, geti átt við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. mars 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2008, þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt skýringum kæranda dróst greiðsla virðisaukaskattsins fram yfir gjalddaga þann 6. október 2008 vegna þess að umsamin greiðsla barst ekki frá aðalviðskiptavini kæranda. Þá er því borið við til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags að ekki hafi verið unnt að fá fyrirgreiðslu í viðskiptabanka kæranda vegna atburða í fjármálakerfi landsins í byrjun október 2008 þegar þrír helstu viðskiptabankarnir hafi farið í þrot á sama tíma.

Þess er að geta að vegna þeirra atburða í íslensku fjármálakerfi, sem kærandi vísar til í kærunni, taldi fjármálaráðuneytið ástæðu til þess að beina þeim tilmælum til skattstjóra að fella tímabundið niður álag vegna skila á staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilið september 2008 sem bar að standa skil á hinn 15. október 2008, sbr. fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 18/2008, þar sem kemur fram að vegna þeirra truflana sem orðið hafi á bankastarfsemi hér á landi og áhrifa þess á atvinnulífið telji ráðuneytið að gildar ástæður séu til að beita þeirri heimild sem fram kemur í 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 til tímabundinnar niðurfellingar álags vegna skila á staðgreiðslu fyrir september. Kemur fram að ráðuneytið hafi hinn 15. október 2008 beint þeim tilmælum til skattstjóra og tollstjórans í Reykjavík að fellt yrði tímabundið niður álag vegna þeirra skila á staðgreiðslu sem á eindaga var þann dag og skyldi sú niðurfelling gilda í eina viku eða til 22. október 2008. Þá hefur fjármálaráðuneytið sent skattstjórum hliðstæð tilmæli m.a. vegna skila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið september-október 2008 sem bar að standa skil á hinn 5. desember 2008. Er ekki annað vitað en að skattstjórar hafi farið að þessum tilmælum fjármálaráðuneytisins. Að þessu athuguðu og þar sem telja verður að rök, sem fram koma í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins nr. 18/2008 fyrir tímabundinni niðurfellingu álags vegna skila staðgreiðslu 15. október 2008, eigi ekki síður við vegna virðisaukaskattsskila hinn 6. sama mánaðar, svo og að virtum skýringum kæranda í máli þessu, þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, enda stóð kærandi skil á virðisaukaskatti sem um ræðir í málinu hinn 22. október 2008 sem var síðasti dagur skila án álagsbeitingar samkvæmt greindum tilmælum fjármálaráðuneytisins frá 15. október 2008.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag á virðisaukaskatt uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2008, 923.827 kr., fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja