Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 132/2009

Gjaldár 2008

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Kröfu kæranda um frádrátt beins kostnaðar á móti styrk vegna listverkefnis var synjað þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á tilefni útgjalda á fullnægjandi hátt.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 2008 styrk frá Minningarsjóði F að fjárhæð 100.000 kr.

Með erindi til skattstjóra, dags. 25. mars 2008, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á skattframtali sínu árið 2008. Kom fram í erindinu að kæranda hefði láðst að færa frádrátt á móti fengnum styrk í frádráttarhlið skattframtalsins. Fleira kom ekki fram í erindi kæranda varðandi umbeðinn frádrátt eða fjárhæð hans. Var skattframtal kæranda lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008.

Með kæru til skattstjóra, dags. 4. ágúst 2008, fór kærandi fram á leiðréttingu á skattframtali sínu árið 2008. Í kærunni kom fram að kærandi hefði fengið greiddan styrk að fjárhæð 100.000 kr. á árinu 2007. Við framtalsgerð árið 2008 hefði kæranda hins vegar láðst að tilgreina frádrátt á móti fengnum styrk í reit 157 í framtalinu. Hefði kærandi sent skattstjóra tölvupóst vegna þessa og fengið staðfestingu um að mistökin yrðu leiðrétt, en allt að einu væri kæranda gert að greiða tekjuskatt af hinum fengna styrk samkvæmt því sem álagningarseðill bæri með sér. Fór kærandi fram á að álagning opinberra gjalda yrði endurskoðuð með tilliti til framangreinds.

Áður en skattstjóri tók kæruna til afgreiðslu ritaði hann kæranda bréf, dags. 22. október 2008, þar sem skattstjóri vakti athygli kæranda á því að til stuðnings kröfu hennar um frádrátt frá fengum styrk þyrfti að leggja fram upplýsingar um tilefni styrkveitingar og ljósrit af kostnaðargögnum. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins að telja til að leggja fram umbeðnar upplýsingar og gögn. Af hálfu kæranda urðu ekki viðbrögð við bréfi skattstjóra innan veitts frests og með kæruúrskurði, dags. 9. desember 2008, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um frádrátt á móti fengnum styrk að fjárhæð 100.000 kr. þar sem gögn til staðfestingar frádrætti hefðu ekki borist. Tók skattstjóri fram í úrskurðinum að styrkir til náms og rannsókna teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en um frádrátt frá slíkum tekjum færi eftir 30. gr. sömu laga.

II.

Með kæru, dags. 9. janúar 2009, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 9. desember 2008, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæranda hafi ekki borist bréf skattstjóra frá 22. október 2008 vegna styrkveitingar að fjárhæð 100.000 kr. úr Minningarsjóði F. Þá kemur fram í kærunni að listverkefni, sem styrkveitingin hafi tengst, hafi ekki komið til framkvæmda á árinu 2007 vegna erfiðleika í fjölskyldu kæranda sem hafi orðið til þess að kærandi hafi orðið að fara af landinu í júlí á sama ári. Hafi kærandi þurft að eyða sumarfríi sínu til þess að sinna fjölskyldumálefnum í stað þess að vinna að listverkefninu. Hinn umdeilda styrk hafi kærandi þó varðveitt til þess að geta ráðstafað honum til verkefnisins sem nú sé fyrirhugað í júlí 2009. Einungis 9.000 kr. af styrkfjárhæðinni hafi þegar verið ráðstafað til kaupa á myndavél og filmum. Eftirstöðvarnar ætli kærandi að nota vegna prentunar á myndum, en slík prentun sé afar kostnaðarsöm. Kvittun fyrir kaupum á myndavél og filmum hafi glatast í flutningum, en færsla vegna kaupanna komi fram á meðfylgjandi reikningsyfirliti. Kærandi hafi ekki fengið neina styrki til verkefnisins síðar þannig að umræddur styrkur frá Minningarsjóði F sé mikilvægur til þess að kæranda verði unnt að ljúka verkefni sínu. Muni eftirstöðvar styrkveitingar alfarið verða nýttar til að standa straum af kostnaði við prentun.

III.

Með bréfi, dags. 6. mars 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Meðfylgjandi bankayfirlit gefur ekki til kynna hvort kærandi eigi rétt á frádrætti á móti mótteknum náms- og rannsóknarstyrk. Yfirlitið telst ekki fullnægjandi kostnaðargagn.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. mars 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Ekki er ágreiningur um það í máli þessu að styrkur kæranda frá Minningarsjóði F að fjárhæð 100.000 kr. telst til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um frádrátt frá þeim tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, samt sem áður gilda eftir því sem við á um frádrátt beins kostnaðar við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr., þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.

Fram er komið að styrkur sá sem í málinu greinir var veittur kæranda vegna listverkefnis. Af hálfu kæranda hefur takmörkuð grein verið gerð fyrir eðli þess verkefnis, en allt að einu þykir mega fallast á að henni beri frádráttur beins kostnaðar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 frá styrknum, svo sem skattstjóri hefur miðað við. Það leiðir hins vegar af tekjufærslu styrksins í skattframtali kæranda árið 2008 að einungis beinn kostnaður kæranda vegna verkefnisins, sem féll til á tekjuárinu 2007, getur komið til frádráttar fengnum styrk, en ekki kostnaður sem síðar féll til, sbr. fyrrgreint lagaákvæði og ákvæði um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. nefndra laga. Af hálfu kæranda er komið fram að útgjöld tengd verkefninu á tekjuárinu 2007 hafi numið 9.082 kr. vegna kaupa á aukahlutum í myndavél og filmur, sbr. reikningsyfirlit sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að umrætt yfirlit verður ekki talið fullnægjandi til sönnunar á tilefni útgjalda, enda ber það ekki með sér nægjanlega tilgreiningu hins keypta. Með vísan til framangreinds þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að henni beri frádráttur beins kostnaðar á móti umræddum styrk. Er kröfu kæranda því hafnað. Rétt er að taka fram að í Handbók um tekjuskatt og eignarskatt, sem ríkisskattstjóri gaf út árið 1996, er í kafla 3.2.1.8 fjallað um styrki og starfslaun til listamanna. Þar kemur m.a. fram að sé styrkur veittur vegna ákveðins verkefnis sem er í vinnslu í fleiri en eitt ár sé skattaðila heimilt að telja styrkinn til tekna samkvæmt þeim reglum sem gildi um tekjufærslu verks í vinnslu, sbr. umfjöllun síðar í Handbókinni varðandi tímafærslu atvinnurekstrartekna. Af hálfu kæranda er ekki höfð uppi krafa um að henni verði á þessum grundvelli heimilað að dreifa greindum styrk til skattlagningar milli ára og eins og fyrr greinir hefur kærandi ekki gert glögga grein fyrir eðli og framvindu þess listverkefnis sem styrkveitingin mun tengjast. Verður því ekki frekar um þetta fjallað.

Þess er að geta að kærandi óskaði eftir leiðréttingu á innsendu skattframtali sínu árið 2008 með erindi, dags. 25. mars 2008, þar sem fram kom að kæranda hefði láðst að tilgreina frádrátt á móti fengnum styrk í lið 2.6 í skattframtalinu, sbr. m.a. leiðbeiningar ríkisskattstjóra með skattframtali einstaklinga árið 2008 (RSK 8.01) þar sem fram kemur að á þjónustusíðu sé hægt að senda inn beiðni um leiðréttingu á þegar innsendu framtali. Telja verður því að skattstjóra hafi borið að taka beiðni kæranda til sérstakrar úrlausnar við álagninguna hygðist hann ekki verða við henni, enda barst hún honum fyrir lok framtalsfrests umrætt gjaldár, sbr. 1. gr. í auglýsingu nr. 71, 9. janúar 2008, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Er aðfinnsluvert að þessa var ekki gætt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja