Úrskurður yfirskattanefndar
- Vantaldar tekjur
- Bifreiðakostnaður
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 159/2009
Gjaldár 2008
Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 31. gr. 1. mgr. 1. tölul., 92. gr., 94. gr. Lög nr. 37/1993, 10. gr.
Skattstjóri hækkaði rekstrartekjur kæranda um fjárhæð er nam mismun á framtöldum greiðslum frá X hf. og greiðslum frá X hf. samkvæmt innsendum launamiða. Þá lækkaði skattstjóri tilfærðan rekstrarkostnað bifreiðar þar sem kærandi hefði ekki lagt fram umbeðnar skýringar á einkanotum bifreiðarinnar. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að skýringar kæranda hefðu gefið skattstjóra tilefni til að afla frekari upplýsinga um hina umdeildu greiðslu frá X hf. Var ákvörðun skattstjóra um hækkun rekstrartekna felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð hans. Kröfu kæranda um ógildingu á lækkun skattstjóra á tilfærðum rekstarkostnaði bifreiðar var vísað frá yfirskattanefnd sem vanreifaðri.
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2008 og sætti kærandi af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda árið 2008 barst skattstjóra hinn 7. ágúst 2008 og var tekið til meðferðar sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Skattframtalinu fylgdi rekstrarreikningur vegna leigubifreiðaaksturs á árinu 2007 þar sem m.a. voru tilfærðar tekjur frá X hf. að fjárhæð 2.482.000 kr.
Áður en skattstjóri tók skattframtalið til afgreiðslu ritaði hann kæranda bréf, dags. 24. september 2008, þar sem skattstjóri spurðist m.a. fyrir um ástæðu þess að tekjur frá X hf. væru tilgreindar 2.482.000 kr. í rekstrarreikningi í ljósi þess að samkvæmt launamiða frá X hf. hefðu greiðslur hans til kæranda numið 3.000.500 kr. Fór skattstjóri fram á skýringar á því misræmi. Þá benti skattstjóri á í bréfi sínu að engin bifreiðaeign væri tilgreind í skattframtali kæranda árið 2008 þrátt fyrir að skattframtalinu hefði fylgt rekstrarreikningur vegna aksturs leigubifreiða. Í rekstrarreikningnum væri hins vegar engin grein gerð fyrir einkanotum af bifreiðum sem kærandi hefði haft afnot af, en gera yrði ráð fyrir því að um einhver einkanot hefði verið að ræða. Óskaði skattstjóri eftir skýringum á þessu og gat þess að kæmu ekki fram fullnægjandi skýringar hygðist hann lækka frádráttarbæran rekstrarkostnað að álitum vegna áætlaðra einkanota.
Ódagsett svarbréf kæranda barst skattstjóra hinn 23. október 2008 samkvæmt því sem ráðið verður af gögnum málsins. Í bréfinu vísaði kærandi til meðfylgjandi ljósrits af launamiða frá X hf. þar sem tilgreind væru í reit 06 verktakalaun að fjárhæð 2.482.000 kr. Kvaðst kærandi ekki hafa neinar skýringar á misræmi sem getið væri í bréfi skattstjóra. Vegna fyrirspurnar skattstjóra varðandi einkanot bifreiða var tekið fram í bréfi kæranda að bifreiðar sem um ræddi væru „á nafni fjármagnsfyrirtækja“.
Með kæruúrskurði, dags. 2. desember 2008, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008 í stað áætlunar, þó með tilgreindum breytingum á framtalinu, m.a. þeirri að iðgjald vegna slysatryggingar við heimilisstörf var ekki lagt á kæranda þrátt fyrir ósk hans þar um, sbr. 1. gr. reglna nr. 527/1995. Þá gerði skattstjóri þá breytingu á skattframtalinu að hækka rekstrartekjur kæranda um 518.500 kr. eða sem nam mismun á framtöldum greiðslum frá X hf. 2.482.000 kr. og greiðslum frá X hf. samkvæmt innsendum launamiða 3.000.500 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, sem skattstjóri vísaði til í því sambandi. Tók skattstjóri fram að engar skýringar né leiðréttingar hefðu verið lagðar fram vegna umrædds misræmis. Þá lækkaði skattstjóri tilfærðan rekstrarkostnað bifreiðar í rekstrarreikningi fyrir árið 2007 um áætlaða fjárhæð 500.000 kr. og vísaði til þess að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðnar skýringar á einkanotum bifreiða. Gera yrði ráð fyrir því að um einhver einkaafnot bifreiðanna hefði verið að ræða og með vísan til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 hefðu þau einkanot verið ákveðin að álitum með lækkun bifreiðakostnaðar um fyrrgreinda fjárhæð. Kom fram í niðurlagi kæruúrskurðarins að samkvæmt framangreindum breytingum yrði hagnaður af rekstri kæranda í reit 62 1.018.500 kr.
II.
Með kæru, dags. 10. janúar 2009, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 2. desember 2008, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið séu þær breytingar skattstjóra á síðbúnu skattframtali kæranda árið 2008 að hækka rekstrartekjur kæranda um 518.500 kr. og lækka frádrátt bifreiðakostnaðar um 500.000 kr. Varðandi fyrra atriðið kemur fram að X hf. hafi sent kæranda launamiða að fjárhæð 2.482.000 kr. og hafi sami miði verið sendur skattstjóra og lagður til grundvallar við framtalsgerð kæranda. X hf. hafi síðan breytt umræddum launamiða til hækkunar án þess að senda kæranda neina skýringu á því eða gera honum viðvart um breytinguna. Í samtali kæranda við starfsmann skattstjóra hafi komið fram að slíkar breytingar á launamiðum séu einsdæmi. Kærandi líti svo á að það heyri undir X hf. að láta í té skýringar á þessu og sé morgunljóst að hinn fyrri launamiði að fjárhæð 2.482.000 kr. hljóti að gilda nema sýnt sé fram á það af hálfu X hf. að hann sé rangur. Vegna lækkunar skattstjóra á frádráttarbærum bifreiðakostnaði vegna meintra einkanota kæranda af leigubifreiðum er tekið fram í kærunni að hliðstæðar breytingar hafi ekki verið gerðar á skattframtölum annarra leigubifreiðastjóra og hljóti kærandi að sitja við sama borð og starfsbræður hans.
III.
Með bréfi, dags. 6. mars 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Umboðsmaður kæranda krefst þess að tekjur kæranda verði byggðar á launamiða frá X hf. að fjárhæð kr. 2.482.000 í stað launamiða að fjárhæð kr. 3.000.500. X hf. hefur sent inn leiðréttan launamiða að fjárhæð kr. 3.000.500 en kærandi hefur ekki lagt fram nein þau gögn sem sýna fram á að sá launamiði sé ekki réttur.
Umboðsmaður kæranda gerir þá kröfu að einkanot að fjárhæð kr. 500.000 verði felld niður. Umboðsmaður byggir kröfu sína á því að slíkum einkanotum sé ekki bætt við hjá öðum leigubílstjórum og kærandi eigi „að sitja við sama borð og starfsbræður hans“. Tekið skal fram í tilefni af þessari málsástæðu að þótt misbrestur kunni að verða á framkvæmd stjórnvalds á tiltekinni réttarreglu gagnvart einstökum aðilum geta aðilar almennt ekki á grundvelli jafnræðisreglu krafist þess að stjórnvald haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim, sbr. m.a. úrskurður yfirskattanefndar nr. 457/2000. Einnig má benda á úrskurð yfirskattanefndar nr. 628/1992, þar sem gjaldfærður rekstrarkostnaður bifreiðar var lækkaður sem nam mati á einkaafnotum.
Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. mars 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Eins og fram er komið taldi kærandi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2008 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008. Skattframtal kæranda árið 2008 barst skattstjóra hinn 7. ágúst 2008 og var það tekið til meðferðar sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 90/2003 hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Skattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. þær breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. síðastnefndra laga að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.
Með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 2. desember 2008, hækkaði skattstjóri rekstartekjur kæranda rekstrarárið 2007 um 518.500 kr. eða sem nam mismun á framtöldum greiðslum frá X hf. 2.482.000 kr. og greiðslum samkvæmt launauppgjöf frá X hf. 3.000.500 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Lá þannig fyrir skattstjóra launauppgjöf greiðanda gerð samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003, en ákvæði þetta er grundvöllur upplýsingaskyldu í þessum efnum. Áður hafði skattstjóri með bréfi til kæranda, dags. 24. september 2008, óskað eftir skýringum hans á umræddum mismun. Í svarbréfi kæranda kom fram að hann hefði engar skýringar á mismun þessum og fylgdi bréfinu ljósrit af launamiða X hf., sem lá til grundvallar framtalsgerð kæranda, þar sem verktakalaun til hans í reit 06 voru tilgreind 2.482.000 kr. Telja verður að umræddar skýringar kæranda, sem fólu í sér vefengingu á launauppgjöf greiðanda sem skattstjóri byggði á, hafi gefið skattstjóra sérstakt tilefni til að afla upplýsinga um hina umdeildu verktakagreiðslu á grundvelli þeirrar heimildar sem embættið hefur samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003, enda bar skattstjóra að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu athuguðu þykja ekki efni til annars en að fella umrædda breytingu skattstjóra úr gildi. Er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til þessa kæruatriðis.
Víkur þá sögunni að þeirri breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað leigubifreiða um áætlaða fjárhæð eða 500.000 kr. á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki gert grein fyrir ætluðum einkanotum bifreiðanna. Með bréfi sínu til kæranda, dags. 24. september 2008, lagði skattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir einkanotum sínum af bifreiðunum. Hvorki í svarbréfi kæranda, sem barst skattstjóra hinn 23. október 2008, né í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 2009, er nein grein gerð fyrir einkanotum bifreiða sem um ræðir. Þar sem kærandi hefur ekki látið í té umbeðnar skýringar á þessum þætti framtalsskilanna og þannig ekki sýnt fram á frádráttarbærni alls rekstrarkostnaðar leigubifreiða sem færður var til gjalda í rekstrarreikningi með skattframtalinu, sbr. ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, verður krafa hans varðandi þetta kæruatriði ekki tekin til greina. Rétt þykir að vísa kröfu kæranda varðandi þetta atriði frá yfirskattanefnd sem vanreifaðri.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hin kærða hækkun rekstrartekna kæranda er felld úr gildi. Að öðru leyti er kröfum kæranda vísað frá yfirskattanefnd.