Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur
Úrskurður nr. 173/2009
Virðisaukaskattur 2006
Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr., 18. gr. 4. mgr., 26. gr.
Skattstjóri lækkaði tilfærðan innskatt kæranda þar sem innskattskrafa samkvæmt innsendri samanburðarskýrslu virðisaukaskatts hefði ekki verið studd neinum gögnum. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðnar skýringar og gögn til stuðnings færslu innskatts og var ekki fallist á með kæranda að ákvörðun skattstjóra hefði skort fullnægjandi lagastoð. Var kröfu kæranda hafnað.
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2006 og sætti félagið af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt gögnum málsins barst ríkisskattstjóra skattframtal kæranda árið 2006 hinn 14. nóvember 2007 og í kjölfar þess fól ríkisskattstjóri skattstjóra að taka afstöðu til erindisins á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Í framhaldi af bréfaskriftum, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 1. apríl 2008, þar sem skattstjóri krafði kæranda um framlagningu launamiða vegna gjaldfærðra verktakagreiðslna í skattskilum félagsins gjaldárið 2006, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, og bréf skattstjóra, dags. 23. apríl 2008, en þessum bréfum var ekki svarað af hálfu kæranda, féllst skattstjóri með úrskurði, dags. 24. júní 2008, á að leggja innsent skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006 í stað áætlunar, en að gerðri þeirri breytingu á skattframtalinu að fella niður gjaldaliðinn „aðkeypt innlend vinna og þjónusta til endursölu“ að fjárhæð 1.585.916 kr. með vísan til 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda var ekki neytt kæruréttar til yfirskattanefndar vegna umræddrar breytingar skattstjóra.
Með bréfi til kæranda, dags. 22. september 2008, vísaði skattstjóri til innsendrar samanburðarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.25) vegna rekstrarársins 2005 og tók fram að áður en tekin yrði afstaða til skýrslunnar skyldi gerð grein fyrir atvinnustarfsemi kæranda á árinu 2005. Vísaði skattstjóri til framangreindrar ákvörðunar sinnar að því er snertir síðbúið skattframtal kæranda árið 2006 og óskaði eftir því að kærandi legði fram hreyfingalista innskatts og útskatts fyrir árið 2005 og launamiða og launaframtal 2006 (RSK 2.01) vegna greiddra launa og verktakagreiðslna á árinu 2005. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með bréfi, dags. 3. nóvember 2008, boðaði skattstjóri endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda árið 2005, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem fyrirhugað væri að lækka tilfærðan innskatt félagsins um 388.549 kr. vegna gjaldaliðarins „aðkeypt innlend vinna og þjónusta til endursölu“ þar sem krafa kæranda um greindan innskatt hefði ekki verið studd neinum gögnum, sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Við hækkun virðisaukaskatts sem af fyrirhugaðri breytingu leiddi væri ráðgert að bæta 10% álagi, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. nóvember 2008, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og lækkaði áður ákvarðaðan innskatt kæranda árið 2005 úr 941.793 kr. samkvæmt samanburðarskýrslu í 553.244 kr. eða um 388.549 kr. að viðbættu 10% álagi 38.855 kr. samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Í úrskurðinum vísaði skattstjóri til fyrri bréfaskrifta og ákvörðunar sinnar vegna afgreiðslu á skattframtali kæranda árið 2006 og þess að kærandi hefði ekki fremur sinnt bréfum skattstjóra vegna fyrirhugaðrar lækkunar innskatts vegna þess gjaldaliðar sem um ræðir. Ekki yrði því fallist á umræddan innskatt að fjárhæð 388.549 kr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, enda hefðu ekki verið lögð fram gögn til stuðnings innskattskröfunni.
II.
Með kæru, dags. 19. febrúar 2009, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 17. mars 2009, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 20. nóvember 2008, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og kæranda úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Er tekið fram í kærunni að hin kærða lækkun innskatts kæranda hafi byggst á því að félagið hefði ekki sent inn launamiða og í því sambandi hafi skattstjóri vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Í greindu reglugerðarákvæði sé þó ekki sett neitt skilyrði fyrir innskattsfrádrætti í þá veru sem um ræðir, þ.e. að launamiðum hafi verið skilað, og ekki sé í ákvæðinu að finna neina tilvísun til laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í því sambandi. Skattstjóri hafi ekki óskað eftir framlagningu bókhaldsgagna til stuðnings innskattsfrádrætti, heldur boðað endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda með beinni tilvísun til máls sem lotið hafi að tekjuskatti og hafi byggst á ákvæði 92. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu sé ekki lagastoð fyrir hinni kærðu ákvörðun skattstjóra og sé þess því krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi.
III.
Með bréfi, dags. 8. maí 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Umboðsmaður kæranda krefst þess að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Jafnframt er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði. Umboðsmaður kæranda byggir kæru sína á því að skattstjóri hafi ekki kallað sérstaklega eftir bókhaldsgögnum til stuðnings innskattsfrádrætti heldur boðað endurákvörðun á virðisaukaskatti með vísun í 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattstjóri hafi vísað í 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Þar komi ekki fram að skilyrði fyrir innskattsfrádrætti sé að launamiðum hafi verið skilað og ekki sé í ákvæðinu vísað til laga um tekjuskatt. Úrskurður skattstjóra hafi því ekki lagastoð.
Í gögnum málsins kemur fram að skattstjóri skoraði margsinnis á kæranda að skila inn bókhaldsgögnum varðandi kæruefnið. Í bréfi, dags. 22. september 2008, vísaði skattstjóri í 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 þar sem kveðið er á um heimild skattstjóra til að synja um frádrátt vegna launagreiðslna og/eða verktakasamninga hafi skyldu til að afhenda skattstjóra upplýsingar vegna þeirra ekki verið fullnægt. Í boðunarbréfi, dags. 3. nóvember 2008, er kæranda einnig gefinn kostur á að skila inn gögnum varðandi kæruefnið og vísað til 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, þar sem segir að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum ef gögn og bókhald eru ófullnægjandi. Kærandi sinnti ekki áskorunum skattstjóra um skil á fullnægjandi bókhaldsgögnum og átti þar af leiðandi ekki rétt á frádrætti sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993.
Að framangreindu virtu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. maí 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 20. nóvember 2008, lækkaði skattstjóri áður ákvarðaðan innskatt kæranda árið 2005 um 388.549 kr., auk þess sem skattstjóri bætti 10% álagi samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við þá hækkun virðisaukaskatts félagsins sem af breytingunni leiddi. Eins og greinir hér að framan var undanfari þessarar ákvörðunar skattstjóra sá að skattstjóri hafði með úrskurði, dags. 24. júní 2008, þar sem hann féllst á að leggja síðbúið skattframtal kæranda árið 2006 til grundvallar álagningu opinberra gjalda félagsins umrætt gjaldár, jafnframt gert þá breytingu á skattframtalinu að fella niður gjaldfærðan kostnað vegna aðkeyptrar vinnu og þjónustu til endursölu að fjárhæð 1.585.916 kr. á þeim forsendum að kærandi hefði ekki orðið við áskorun skattstjóra um að leggja fram upplýsingar um greiðslur til verktaka, sbr. ákvæði 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem fram kemur að hafi skyldu til að afhenda skattstjóra upplýsingar um launagreiðslur og/eða verktakasamninga vegna vinnu, sbr. 92. gr. laganna, að aðgættum ákvæðum 96. gr., eigi verið fullnægt sé skattstjóra heimilt að synja um frádrátt vegna þeirra greiðslna eða hlunninda. Eins og réttilega er bent á í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ekki hliðstæð heimild og greinir í 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 til að synja um frádrátt innskatts á þeim grundvelli einum saman að ekki hafi verið fullnægt skyldu til að afhenda skattstjóra þargreindar upplýsingar. Í tilviki kæranda hefur skattstjóri á hinn bóginn vefengt réttmæti hins umdeilda innskatts að öðru leyti, þ.e. á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðnar skýringar og gögn til stuðnings innskattskröfu félagsins, sbr. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 22. september 2008, þar sem skattstjóri óskaði m.a. eftir því að gerð yrði grein fyrir atvinnustarfsemi félagsins og lagðir fram hreyfingalistar innskatts og útskatts fyrir árið 2005, sbr. ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 50/1988, þar sem fram kemur að í bókhaldi skuli færa sérstaka reikninga yfir innskatt annars vegar og útskatt hins vegar, og ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með áorðnum breytingum. Verður því ekki fallist á með kæranda að ákvörðun skattstjóra hafi skort fullnægjandi lagastoð, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Kærandi hefur ekki lagt fram umbeðnar skýringar og gögn til stuðnings færslu innskatts vegna þeirra útgjalda sem um ræðir og þannig ekki sýnt fram á réttmæti hins umdeilda innskattsfrádráttar, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 og 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Er kröfu kæranda í máli þessu því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.