Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 234/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II.   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Íbúðareign maka

Málavextir eru þeir, að með úrskurði, dags. 24. júlí 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um húsnæðisbætur, sbr. umsókn kæranda um bætur þessar, dags. 3. ágúst 1988. Í umsókninni kom fram, að sótt var um húsnæðisbætur vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að A þann 3. febrúar 1984. Varðandi fyrri íbúðareign gerði kærandi grein fyrir eignarhlutdeild í íbúð vegna arftöku, er staðið hefði skamman tíma. Ekki var ágreiningur um það, að það eignarhald firrti kæranda ekki rétti til húsnæðisbóta. Hins vegar synjaði skattstjóri kæranda um bæturnar á þeim forsendum, að kærandi hefði gengið í hjúskap á árinu 1983 með aðila, sem hefði þá átt íbúð, og teldist kærandi því eignaraðili að þeirri íbúð sökum hjónabandsins með maka sínum. Skv. málsgögnum var eignartími makans á þeirri íbúð 14/3 1981 til 9/1 1984.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 22. ágúst 1989, krefst kærandi þess, að henni verði úrskurðaðar húsnæðisbætur, þar sem eignaraðild að íbúð maka hafi aðeins varað 4-5 mánuði, sbr. ákvæði reglugerðar um húsnæðisbætur, að eignarhald á íbúð í skemmri tíma en 2 ár teljist ekki fyrsta íbúðareign.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Svo sem atvikum er hér háttað verður eigi talið, að fyrrnefnd íbúð að A teljist fyrsta íbúðarhúsnæði í eigu hennar í skilningi 69. gr. C-liðs laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, sbr. og bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, eins og ákvæði því var breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987. Ber því að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja