Úrskurður yfirskattanefndar

  • Olíugjald
  • Sekt

Úrskurður nr. 206/2009

Lög nr. 87/2004, 4. gr. 3. mgr., 19. gr. 5. og 6. mgr. (brl. nr. 169/2006, 8. gr.)  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda sekt vegna brota á reglum um olíugjald þar sem í ljós kom við sýnatöku úr eldsneytisgeymi bifreiðar, sem kærandi hafði umráð yfir, að lituð olía var notuð á bifreiðina. C, sem hafði fengið bifreiðina lánaða hjá kæranda, hafði dælt litaðri olíu á bifreiðina umrætt sinn. Yfirskattanefnd felldi sektarákvörðun ríkisskattstjóra niður á þeim grundvelli að einungis skráðum eiganda ökutækis yrði gerð sekt vegna brota á umræddum reglum á hlutlægum grundvelli, þ.e. óháð sök.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. mars 2009, hefur kærandi sem umráðamaður ökutækisins Y mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. desember 2008, að gera kæranda sekt að fjárhæð 124.384 kr. samkvæmt 5. mgr., sbr. 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að notkun litaðrar gjaldfrjálsrar olíu á ökutækið hefði verið andstæð lögum nr. 87/2004. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður eða lækkuð.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 6. október 2008, sáu eftirlitsmenn ökumann bifreiðarinnar Y dæla gjaldfrjálsri olíu á eldsneytistank bifreiðarinnar á eldneytisstöð Orkunnar við Klettagarða í Reykjavík hinn 6. október 2008. Kom fram að sýni hefðu verið tekin úr eldsneytisgeymi bifreiðarinnar og sjónræn niðurstaða gefið til kynna að um litaða olíu væri að ræða. Í skýrslunni var haft eftir ökumanni bifreiðarinnar, C, sbr. liðinn „athugasemdir ökumanns“ í skýrslunni, að hann væri ekki eigandi bifreiðarinnar Y og hefði dælt gjaldfrjálsri olíu á hana í ógáti. Hann hefði engra hagsmuna haft að gæta og fengið pening hjá föður sínum fyrir olíunni.

Í framhaldi af fyrrnefndri skýrslu sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 12. nóvember 2008, með yfirskriftinni „Boðun sektar vegna brots á reglum um olíugjald.“ Í bréfi þessu vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættið hefði móttekið skýrslu, dags. 6. október 2008, frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um olíugjald vegna ökutækisins Y er væri 2.800 kg að heildarþyngd. Kom fram að samkvæmt skýrslu þessari, sem undirrituð væri af tveimur eftirlitsmönnum, hefði gjaldfrjálsri litaðri olíu verið dælt á tank ökutækisins á eldsneytisstöð Orkunnar ehf. við Klettagarða. Fylgdi umrædd skýrsla eftirlitsmanna Vegagerðarinnar bréfi ríkisskattstjóra auk afrita af ljósmyndum teknum á vettvangi. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðaði það sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og næmi sekt 200.000 kr. ef heildarþyngd ökutækis væri 3.500 kg eða þar undir. Tók ríkisskattstjóri ákvæði 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 orðrétt upp í bréfinu. Í ljósi framangreinds og með vísan til 3. mgr. 4. gr., 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004 væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 124.384 kr., þ.e. 62,19% af sektarfjárhæð 200.000 kr. samkvæmt 5. mgr. 19. gr. nefndra laga að teknu tilliti til umráðatíma bifreiðarinnar, en kærandi væri skráður umráðamaður hennar frá 11. júlí 2007. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2008, gerði kærandi athugasemdir vegna hinnar boðuðu sektarákvörðunar ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að sonur kæranda, C, hefði fengið bifreiðina Y að láni hinn 6. október 2006 og faðir hans látið hann hafa 5.000 kr. til þess að kaupa díselolíu á bifreiðina. Sonur kæranda hefði sett olíu á bifreiðina á eldsneytisstöð Orkunnar en ruglast á dælum og ekki gert sér grein fyrir mistökum sínum fyrr en eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafi borið að og bent honum á þau. Hefði C þegar greint eftirlitsmönnum frá því að um óviljaverk hefði verið að ræða og að enginn ásetningur hefði verið fyrir hendi til þess að brjóta lög. Kvaðst kærandi aldrei hafa notað litaða olíu á bifreiðina Y og af þeim sökum væri þess farið á leit að fallið yrði frá fyrirhugaðri sektarákvörðun. Þá greindi kærandi nánar frá högum sínum og fjölskyldu sinnar í bréfinu og kvaðst vonast til þess að tekið yrði tillit til aðstæðna í máli hennar og sektarfjárhæð felld niður eða lækkuð.

Með úrskurði, dags. 12. desember 2008, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 19. gr. og 4. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2004, og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 124.384 kr. Rakti ríkisskattstjóri sem áður málavexti og ítrekaði röksemdir sínar. Vegna athugasemda kæranda í bréfi, dags. 17. nóvember 2008, tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en þau sem þar væru tilgreind, þ.e. dráttarvélar, námuökutæki, beltabifreiðar, bifreiðar í eigu björgunarsveita og ökutæki sem ætluð væru til sérstakra nota. Í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 laga kæmi fram að það varðaði sektum ef lituð olía væri notuð á skráningarskyld ökutæki og færi sektin eftir heildarþyngd ökutækisins. Í 6. mgr. lagagreinar þessarar kæmi síðan fram að skráðum eiganda ökutækisins yrði gerð sekt óháð því hvort að brot yrði rakið til saknæmrar háttsemi hans eður ei. Tók ríkisskattstjóri fram að ljóst væri að litaðri olíu hefði verið dælt á ökutæki kæranda, en slíkt væri óheimilt samkvæmt framangreindu. Skipti ekki máli þótt ekki hefði verið um ásetning að ræða. Þær ástæður, sem fram hefðu komið af hálfu kæranda, væru ekki þess eðlis að ríkisskattstjóri gæti fellt niður sekt að hluta eða fullu, sbr. heimild í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004. Kæranda hefði verið því ákvörðuð sekt að fjárhæð 124.384 kr., sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 10. mars 2009, er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður eða lækkuð. Í kærunni ítrekar kærandi að hún sé öryrki og glími við fjárhagserfiðleika, m.a. vegna atvinnumissis eiginmanns og þungrar greiðslubyrði af húsnæðislánum, bæði myntkörfulánum og verðtryggðum lánum. Sé þess því vænst að yfirskattanefnd sjái sér fært að fella niður eða lækka sektarákvörðun ríkisskattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 27. mars 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

,,Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. apríl 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 12. desember 2008, að gera kæranda sem umráðamanni ökutækisins Y sekt að fjárhæð 124.384 kr. eftir ákvæðum 5. mgr., sbr. 6. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með áorðnum breytingum, fyrir að hafa notað litaða olíu á ökutækið, sbr. skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, dags. 6. október 2008, um brot á reglum um olíugjald, en skýrslan er meðal gagna málsins. Umrætt ökutæki er sendibifreið (N1) samkvæmt skilgreiningu reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sbr. reglugerð nr. 822/2004 um það efni, með áorðnum breytingum. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 væri óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, önnur en tilgreind ökutæki samkvæmt 5., 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. lagagreinar þessarar, sbr. 1. gr. laga nr. 136/2005 og 2. gr. laga nr. 162/2007, um breyting á hinum fyrstnefndu lögum. Slíkri undanþágu væri ekki til að dreifa í tilviki kæranda og er það út af fyrir sig óumdeilt í málinu. Líta verður svo á að krafa kæranda um niðurfellingu eða lækkun sektarfjárhæðar sé byggð á því að litaðri olíu hafi af misgáningi verið dælt á eldsneytistank bifreiðarinnar Y, sbr. bréf kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 17. nóvember 2008, og kæru til yfirskattanefndar.

Tildrög málsins eru þau að fram kom við eftirlit eftirlitsmanna Vegagerðarinnar við eldsneytisstöð Orkunnar ehf. við Klettagarða í Reykjavík hinn 6. október 2008 að litaðri olíu var dælt á eldsneytistank bifreiðarinnar Y af ökumanni hennar, C, sbr. fyrrgreinda skýrslu eftirlitsmannanna frá 6. október 2008. Kemur fram í skýrslunni að sýnataka úr eldsneytisgeymi bifreiðarinnar hafi leitt í ljós að um litaða olíu hefði verið að ræða. Er haft eftir C í skýrslunni, sem er undirrituð af honum, að hann hefði dælt litaðri olíu á bifreiðina af misgáningi. Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. bréf hennar til ríkisskattstjóra, dags. 17. nóvember 2008, að C hefði fengið bifreiðina lánaða hjá kæranda umrætt sinn.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 87/2004 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að gjaldskyldum aðilum samkvæmt 3. gr. sömu laga sé heimilt að selja eða afhenda olíu samkvæmt 1. gr. án innheimtu olíugjalds í tilgreindum tilvikum sem talin eru upp í einstökum töluliðum málsgreinarinnar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 kemur fram að skilyrði sölu eða afhendingar olíu án innheimtu olíugjalds samkvæmt 2.-9. tölul. 1. mgr. sé að í olíuna hafi verið bætt litar- og merkiefnum, sbr. 5. gr. laganna. Litaða olíu megi ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst sé í 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna er óheimilt að nota litaða olíu á skráningarskyld ökutæki, sbr. 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur en dráttarvélar samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 87/2004 og ökutæki samkvæmt 7., 8. og 9. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 varðar það sektum sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og ræðst sektarfjárhæð af heildarþyngd ökutækis, svo sem nánar er tilgreint í ákvæðinu. Í 6. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 169/2006, um breyting á lögum nr. 87/2004, kemur fram að skráðum eiganda ökutækis verði gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Hafi umráðamaður ökutækis gerst sekur um brot samkvæmt 4. og 5. mgr. sé hann ábyrgur fyrir greiðslu sektarinnar ásamt skráðum eiganda. Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 169/2006, segir svo:

„Einnig er lögð til hlutlæg ábyrgð skráðs eiganda ökutækis vegna brota sem tilgreind eru í þessari grein. Ökumaður kann að vera annar en umráðamaður þess eða skráður eigandi. Er fyrirséð að í sumum tilvikum þar sem svo háttar til sé nánast ómögulegt að upplýsa um hver þeirra hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þótt ljóst sé að brot hafi verið framið. Er því lagt til að skráður eigandi ökutækisins beri refsiábyrgð án tillits til þess hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Með skráðum eiganda er gert ráð fyrir að tekið sé mið af opinberri skráningu í ökutækjaskrá. Verði hins vegar sýnt fram á að umráðamaður ökutækis hafi hagnast á brotinu má gera hann ábyrgan fyrir greiðslu sektarinnar með skráðum eiganda þess (in solidum). Með umráðamanni er átt við skráðan umráðamann samkvæmt ökutækjaskrá. Aðrir en skráður eigandi bera refsiábyrgð vegna brota á ákvæðum á grundvelli sakar.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að einungis skráðum eiganda ökutækis verður gerð sekt samkvæmt 4. og 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004 vegna brota sem þar greinir á hlutlægum grundvelli, þ.e. óháð því hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Eins og fram er komið er kærandi skráður umráðamaður ökutækisins Y samkvæmt ökutækjaskrá en ekki skráður eigandi þess. Verður kæranda því að lögum ekki gerð sekt vegna brots annars aðila á fyrrgreindum ákvæðum. Af þessum sökum ber að fella sektarákvörðun ríkisskattstjóra niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja