Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur

Úrskurður nr. 243/2009

Gjaldár 2008

Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður.  

Kærandi greiddi meðlag með börnum sínum þremur sem áttu lögheimili hjá fyrrverandi eiginkonu kæranda. Kröfu kæranda um barnabætur var hafnað þar sem hann teldist ekki framfærandi barnanna í skilningi barnabótareglna.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 2008 tók kærandi fram að hann hefði greitt B eitt og hálft meðlag með þremur börnum samkvæmt úrskurði sýslumannsins á Akureyri. Börnin ættu lögheimili hjá móður sinni, en dveldust hjá kæranda aðra hverja viku og væru því á framfæri kæranda helming ársins, auk meðlags sem greitt væri móðurinni sem næmi í dag 85.500 kr. á mánuði. Meðlagsgreiðslurnar væru skattfrjálsar hjá móðurinni er að auki fengi bæði barnabætur og mæðralaun. Þetta fyrirkomulag væri leifar af tilhögun fyrri tíðar og væri dæmi um gróflega mismunun á stöðu feðra og mæðra þrátt fyrir sameiginlegt forræði. Væri því farið fram á að tekið yrði tillit til þess að kærandi ræki heimili fyrir þrjú börn aðra hverja viku, enda þótt þau ættu ekki lögheimili hjá honum, auk meðlagsgreiðslna til móður.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2008, tilkynnti skattstjóri kæranda á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að hann hefði ákveðið að hafna þeirri beiðni kæranda, sbr. tilgreiningu í skattframtali árið 2008, sem að hann teldist einstætt foreldri á árinu 2007. Væri beiðninni hafnað þar sem „viðkomandi börn“ hefðu í árslok 2007 verið til heimilis hjá móður sinni, B, og teldist hún af þeim sökum ein annast framfærslu barnanna.

Með kæru, dags. 22. ágúst 2008, kærði kærandi þær breytingar skattstjóra á skattframtali hans árið 2008 að hafna því að hann teldist framfærandi barnanna C, D og F. Fram kom að kærandi hefði greidd móður barnanna, B, eitt og hálft meðlag með hverju barni samtals að fjárhæð 987.336 kr. á árinu 2007 samkvæmt úrskurði sýslumannsins á Akureyri, dags. 12. janúar 2005. Að auki byggju börnin nánast jafnt hjá foreldrunum, sex daga hjá föður á móti átta dögum hjá móður, og kvaðst kærandi annast framfærslu þeirra, húsnæði, fæði, klæði og annað tilheyrandi þann tíma sem börnin dveldust hjá honum. Vísaði kærandi til þess að samkvæmt 53. gr. barnalaga nr. 76/2003 væri báðum foreldrum skylt að framfæra barn sitt. Yrði því ekki séð að skattstjóra væri stætt á því að hafna beiðni hans um að teljast einstætt foreldri og fráleitt að halda því fram að móðir barnanna teldist ein annast framfærslu þeirra, enda framfærði kærandi börnin að stærstum hluta bæði þann tíma, sem þau væru hjá móður sinni, og þann tíma sem þau væru hjá kæranda.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 12. nóvember 2008, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og hafnaði henni. Tók skattstjóri fram að samkvæmt A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 skyldi greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu sem heimilisfast væri hér á landi og væri á framfæri þeirra manna sem skattskyldir væru samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Framfærandi barns samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. teldist sá sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuárs. Sá er greiddi meðlag með barni teldist ekki framfærandi í þessu sambandi. Skilyrði 1. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. væru uppfyllt þótt barn dveldist tímabundið fjarri raunverulegu heimili, t.d. vegna náms. Hjón, sem væru skattlögð samkvæmt 62. gr. laganna, teldust bæði framfærendur og skiptust barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gilti um sambúðarfólk sem uppfyllti í lok tekjuárs skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt það óskaði ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Skattstjóri vék að tilgreiningu kæranda í athugasemdadálki skattframtals árið 2008 þess efnis að hann hefði greitt B, fyrrverandi eiginkonu sinni, eitt og hálft meðlag með þremur börnum þeirra samkvæmt úrskurði sýslumannsins á Akureyri. Börnin ættu lögheimili hjá móðurinni, en dveldust hjá kæranda aðra hverja viku og væru því á framfæri hans helming ársins. Var það niðurstaða skattstjóra að í ljósi framanritaðs og með vísan til bréfs hans, dags. 29. júlí 2008, yrði að hafna beiðni kæranda um að teljast einstætt foreldri á árinu 2007, þar sem börnin hefðu haft heimilisfesti hjá móðurinni og teldist hún því ein framfærandi. Uppfyllti kærandi því ekki skilyrði til að teljast einstætt foreldri í skattalegu tilliti.

II.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2009, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. nóvember 2008, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að þeim breytingum skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2008 að hafna því að hann teljist framfærandi barnanna C, D og E verði hnekkt. Kæran til yfirskattanefndar er nánast samhljóða kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 2009, sbr. hér að framan í I. kafla. Ítrekar kærandi skýringar sínar og viðhorf varðandi tilhögun á framfærslu barnanna. Börnin líti á bæði heimilin sem sín heimili og hafi herbergi og húsmuni hjá báðum foreldrum. Þá ítrekar kærandi framfærsluskyldur foreldra samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Áréttar kærandi að vandinn liggi í gölluðum lögum, leifum frá liðinni tíð, þar sem ekki sé tekið tillit til þess að börn geti átt tvö heimili og að umgengni sé jöfn á milli foreldra.

III.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2009, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. apríl 2009, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Krafa kæranda í máli þessu felur í sér að honum verði ákvarðaðar barnabætur gjaldárið 2008 með börnum sínum þremur, C, D og E, enda sé hann framfærandi barnanna ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, B. Kærandi færir fram þau rök að hann annist framfærslu barnanna nánast til jafns við móður þeirra, enda þótt börnin eigi lögheimili hjá móður sinni. Dveljist börnin hjá honum í sex daga á móti átta dögum hjá móður. Að auki greiði kærandi eitt og hálft meðlag með börnunum, sbr. úrskurð sýslumannsins á Akureyri þar um, dags. 12. janúar 2005. Sé því fráleitt að halda því fram að móðirin ein annist framfærslu barnanna. Telur kærandi að réttarskipan um málefni þessi sé úrelt og feli í sér mismunun þrátt fyrir sameiginlega forsjá. Vitnar kærandi til barnalaga nr. 76/2003 máli sínu til stuðnings.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins, en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Tekið er fram að sá er greiðir meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr., enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi er meðlagsskyldur með umræddum börnum sínum. Samkvæmt skýlausum fyrirmælum 3. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 telst kærandi ekki framfærandi í skilningi ákvæðisins. Þykir engu fá breytt um þetta hvaða skipan var ákveðin að öðru leyti við skilnað kæranda og B varðandi forsjá barnanna og framfærslu þeirra, sbr. barnalög nr. 76/2003. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja