Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 7/1994
Gjaldár 1992
Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. Reglugerð nr. 245/1963, 93. gr. 2. mgr.
Í skattframtali kæranda var ekki færður kostnaður á móti ökutækjastyrk sem hins vegar var gerð grein fyrir í ökutækjaskýrslu með skattframtalinu. Var talið að í ljósi mistaka kæranda hefði skattstjóra verið rétt að vefengja ökutækjaskýrsluna fyrir álagningu eða leiðrétta skattframtal kæranda til samræmis við ökutækjaskýrslu, annað hvort af sjálfsdáðum eða við kæru. Við slíka leiðréttingu með kæruúrskurði skattstjóra varð ekki komið við vefengingu á fjárhæð tilgreinds frádráttar án fyrirspurnar til kæranda.
I.
Málavextir eru þeir að í skattframtali 1992 færði kærandi til tekna 207.202 kr. ökutækjastyrk frá vinnuveitanda sínum og var sú fjárhæð í samræmi við ökutækjaskýrslu hans (RSK 3.04) vegna bifreiðarinnar X er fylgdi skattframtalinu. Tilgreindi kærandi annars vegar 9.169 kr. vegna endurgreidds bifreiðakostnaðar fyrir 352 km akstur og hins vegar 198.033 kr. vegna 12.000 km aksturs í þágu vinnuveitanda, en samtals tilgreindi kærandi 22.000 km akstur, þar af 2.950 km akstur til og frá vinnu og 6.698 km annan akstur í eigin þágu. Ekki voru fyrrgreindar fjárhæðir vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk færðar til frádráttar á skattframtali kæranda og ekki var tekið tillit til þeirra við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1992.
Með kæru, dags. 31. júlí 1992, fór umboðsmaður kæranda fram á að skattframtal kæranda yrði leiðrétt þar sem þau mistök hefðu orðið við framtalsgerð að láðst hefði að færa til frádráttar í reit 32 í skattframtali hans kostnað á móti ökutækjastyrk 207.202 kr. Kærandi starfaði sem eftirlitsmaður og ráðgjafi hjá Y og léti stofnuninni í té afnot af bifreið sinni við þau störf.
Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum:
„Samkvæmt ökutækjaskrá Bifreiðaskoðunar Íslands hf. er ofangreindu ökutæki ekið og greiddur af þungaskattur skv. mæli. Mælaálestur yfir 1., 2. og 3. ársfjórðung 1991, er samanlagðir taka yfir heilt ár var samkvæmt ofangreindri skrá aðeins 6.293 km. Eru því ekki forsendur til að byggja frádrátt á móti ökutækjastyrk á skýrslugerð kæranda, hvorki á heildarnotkun ökutækisins í km eða á rekstrarkostnaði þess.“
Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 23. desember 1992. Kvað hann ekki hafa verið um kæru vegna breytinga skattstjóra að ræða og hafi því skattstjóra borið að leita eftir skýringum og þar með að gefa kæranda tækifæri til þess að leiðrétta eða útskýra umrætt misræmi samkvæmt 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, áður en hann felldi úrskurð sinn. Af þessum sökum stæðist úrskurður skattstjóra ekki. Þá segir eftirfarandi í kærunni:
„Ofanritaður vill hinsvegar láta koma fram sem skýringu að vegna athugunarleysis hafi honum yfirsézt að á eyðublaðinu Rsk 3.04 hafi röng bifreið verið tilgreind þar eigi að vera bifreiðin Z sem er Lada Samara sem hafi verið ekið um 24.000 km á ári enda hafi henni nú verið ekið 72.000 km.“
Þá fylgdi kærunni samningur um afnot einkabifreiðar kæranda, dags. 20. desember
1988, þar sem tilgreint er að kærandi noti tvær bifreiðar í þágu launagreiðanda, um lokaðan samning sé að ræða og greiðsla miðist við fasta kílómetratölu, 8.000 km á ári. Þá fylgir staðfesting Y um að meðfylgjandi ljósrit af opnum aksturssamningi við kæranda sé enn í fullu gildi.
Með bréfi, dags. 7. maí 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Ljóst þykir að kæranda urðu á þau mistök við framtalsgerð sína að honum láðist að færa í reit 32 á skattframtali fjárhæð kostnaðar á móti ökutækjastyrk, en samkvæmt ökutækjaskýrslu (RSK 3.04) er fylgdi skattframtali hans var frádrátturinn jafnhár styrknum. Rétt hefði verið af skattstjóra að leiðrétta skattframtalið til samræmis við ökutækjaskýrslu og byggja álagningu á því þannig breyttu eða vefengja ökutækjaskýrsluna fyrir álagningu. Með því að þessa var ekki gætt bar skattstjóra að annast um leiðréttingu af sjálfsdáðum eða við kæru, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Við þá leiðréttingu varð ekki komið við þeirri vefengingu er felst í kæruúrskurði skattstjóra. Að þessu virtu er fallist á kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda.