Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sjómannaafsláttur

Úrskurður nr. 36/1994

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður 4. mgr. (brl. 85/1991, 10. gr.)  

Fallist var á fullan dagafjölda sjómannaafsláttar þar sem kærandi hefði uppfyllt lagaskilyrði um að laun fyrir sjómennsku væru a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni. Var ekki talið að ákvæði um sjómannaafslátt yrði skýrt svo, gegn orðalagi þess, að með launum fyrir sjómennsku væri einungis átt við tekur af sjómennsku á fiskiskipum undir 12 rúmlestum brúttó.

I.

Mál þetta varðar rétt kæranda til sjómannaafsláttar vegna sjómennsku á fiskiskipi undir 12 rúmlestum brúttó, sbr. 4. mgr. B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991.

Kærandi stundaði á árinu 1992 sjómennsku á fiskiskipi undir 12 rúmlestum brúttó en jafnframt á stærri fiskiskipum hluta ársins. Tiltók hann í skattframtali ársins 1993 alls 30 daga við sjómannsstörf tímabilið 1. janúar til 30. júní og 184 daga tímabilið 1. júlí til 31. desember. Með bréfi, dags. 26. júlí 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði breytt skattframtali kæranda á þann veg að dagafjöldi sjómannaafsláttar var felldur niður fyrri hluta árs og lækkaður í 57 daga seinni hluta árs. Breytingu þessa rökstuddi skattstjóri á þá leið að reiknað endurgjald vegna sjómennsku á skipi undir 12 rúmlestum brúttó næði ekki 30% af tekjuskattsstofni kæranda.

Með kæru, dags. 26. ágúst 1993, mótmælti umboðsmaður kæranda ákvörðun skattstjóra. Í kærunni segir svo:

„Framteljandi hefur kr. 964.002 í laun vegna sjómennsku eða 43.89% af heildarlaunum. Með vísan til 13. gr. reglugerðar nr. 10/1992 um persónuafslátt og sjómannaafslátt er hér með farið fram á að horfið verði frá fækkun sjómannadaga þar sem laun vegna sjómennsku fara yfir 30% af heildarlaunum, og dagafjöldi sem veitir rétt til sjómannaafsláttar verði því á fyrra tímabili 30 og á því seinna 184.“

Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð í málinu hinn 25. október 1993 og hafnaði kröfu kæranda. Í úrskurði hans segir m.a.:

„Umboðsmaður kæranda telur framteljanda hafa kr. 964.002 í laun vegna sjómennsku eða 43,89% af heildarlaunum og eigi hann því rétt á 30 sjómannadögum á fyrra tímabili ársins, en 184 dögum á því seinna. Þarna miðar umboðsmaður kæranda við heildartekjur kæranda af sjómennsku, það er hinsvegar skoðun skattstjóra að skýra beri ákvæði 4. mgr. B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt þannig að eingöngu laun fyrir sjómennsku á bátum undir 12 rúmlestum brúttó séu a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni viðkomandi gjaldanda. Kærandi hefir kr. 466.555 í laun vegna sjómennsku á bátum undir 12 rúmlestum brúttó, sem er aðeins 21,24% af tekjuskattsstofni kæranda. ...“

II.

Úrskurð skattstjóra kærði umboðsmaður kæranda hinn 24. nóvember 1993 til yfirskattanefndar. Í kærunni segir svo:

„Framteljandi hefur kr. 964.062 í laun vegna sjómennsku á árinu 1992, sem er 43,89% af heildarlaunum. Hluti þessara launa er vegna starfa á skipum yfir 12 rúmlestum brúttó, en hluti vegna starfa á minni skipum.

Í 4. mgr. B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt, kemur fram að réttur sjómanna til sjómannaafsláttar á minni skipum en 12 rúmlestum brúttó miðast við að tekjur þeirra af sjómennsku séu meiri en 30% af tekjuskattsstofni. Farið er fram á að breyting skattstjóra á framtali umbjóðanda míns sem hann tilkynnti með bréfi dags. 26. júlí 1993 verði felld úr gildi og framtal hans verði látið standa óbreytt og álagning opinberra gjalda verði breytt í samræmi við það.“

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda fallist á kröfu kæranda.

III.

Í 4. mgr. B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991, segir um sjómannaafslátt manna á fiskiskipum undir 12 rúmlestum brúttó: „Réttur þessara manna er þó háður því að laun fyrir sjómennsku séu a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni þeirra.“ Ákvæði þetta felur í sér frávik frá þeirri reglu skattalaga að þeir eigi rétt á sjómannaafslætti sem stunda sjómennsku. Verður það eigi skýrt svo, gegn orðalagi þess, að með launum fyrir sjómennsku sé einungis átt við tekjur af sjómennsku á fiskiskipum undir 12 rúmlestum brúttó. Samanlögð laun kæranda vegna sjómennsku eru hærri en sem nemur 30% af tekjuskattsstofni hans tekjuárið 1992 og uppfyllir hann því skilyrði ofangreinds lagaákvæðis um sjómannaafslátt við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1993 vegna þess tíma er hann stundaði sjómennsku á fiskiskipi undir 12 rúmlestum brúttó.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja