Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 247/1990
Gjaldár 1986 og 1987
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 9. tl. — 99. gr. — 100. gr. 1. mgr. — 101. gr. 3. mgr.
Starfslokafrádráttur — Starfslok — Starfsbreyting — Tekjutímabil — Launatekjur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Endurákvörðun — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Kæruheimild — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki — Frávísun — Frávísun, engin kæranleg skattákvörðun
Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í reiti 36 í skattframtölum sínum árin 1986 og 1987 frádrátt samkvæmt 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, um breyting á þeim lögum, 578.799 kr. í framtali árið 1986 og 216.686 kr. í framtali árið 1987. Skattframtölunum fylgdu þær sérstöku yfirlýsingar og greinargerðir, sem áskildar eru vegna frádráttar þessa, sbr. eyðublað R3.08. Kom þar fram sú yfirlýsing kæranda, að hann léti af störfum vegna aldurs þann 31. mars 1986. Í greinargerð með skattframtali kæranda árið 1986 var gerð grein fyrir launatekjum hans tímabilið 1. apríl 1985 til 31. desember 1985, er mynduðu umræddan frádrátt eða 578.799 kr. Í greinargerð með skattframtali árið 1987 var gerð samsvarandi grein fyrir launatekjum tímabilið 1. janúar 1986 til 31. mars 1986 eða 216.686 kr. Þessi laun voru vegna starfa kæranda hjá A. Við frumálagningu gjaldárin 1986 og 1987 var byggt á þessum frádráttarliðum.
Með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1987, að tilfærður starfslokafrádráttur væri felldur niður. Af hálfu kæranda var niðurfellingunni mótmælt og gerð grein fyrir því, að kærandi hefði látið af störfum vegna veikinda á árinu 1985 en haldi launum fram á árið 1986. Með kæruúrskurði, dags. 20. nóvember 1987, ákvað skattstjóri, að hin kærða breyting skyldi óhögguð standa, þar sem kærandi hefði ekki látið af störfum heldur skipt um starf og því ekki uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti þessum. Ekki var úrskurði þessum skotið til ríkisskattanefndar. Að því er starfslokafrádrátt gjaldárið 1986 áhrærir þá hófst ríkisskattstjóri handa um niðurfellingu hans með bréfi, dags. 23. október 1987, með skírskotun til bréfs skattstjóra, dags. 29. maí 1987. Gefinn var 15 daga svarfrestur. Ekki barst svar frá kæranda. Með bréfi, dags. 13. nóvember 1987, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um niðurfellingu frádráttarins og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1986 í því sambandi. Byggði hann á því, að kærandi hefði verið í fullu starfi allt árið 1986 og því ekki uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti þessum. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessi breyting ríkisskattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 9. desember 1987. Gerð var grein fyrir því, að kærandi hefði um árabil starfað sem [...] hjá A. Hann hefði látið af störfum á miðju ári 1985 vegna veikinda og fengið greidd laun til aprílloka 1986. Vegna veikindanna hefði kærandi flust búferlum til B. Umboðsmaðurinn hélt því fram, að kærandi hefði átt rétt á þessum frádrætti á þessum tíma og jafnvel þótt hann hefði hafið störf að nýju bæri ekki að fella frádráttinn niður vegna orðalags 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, þar sem gert væri ráð fyrir því að menn gætu hafið önnur launuð störf. Kærandi hefði vegna kunningsskapar fengið atvinnu hjá C hf. og hefði verið ráðinn til reynslu en um eiginlega vinnu hefði ekki verið að ræða, fyrr en líða tók á árið, enda ekki gengið heill til skógar. Fór umboðsmaðurinn fram á, að fallið yrði frá breytingu á skattframtali árið 1986 og jafnframt yrði skattframtal árið 1987 leiðrétt til samræmis við það.
Með kæruúrskurði, dags. 27. júlí 1989, synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda gjaldárið 1986 á þeim forsendum, að líta yrði svo á, að kærandi hefði skipt um starf og að hið nýja starf hans væri fullt aðalstarf, betur launað en hið fyrra. Þá kæmi ekki til álita að veita starfslokafrádrátt í skattframtali kæranda árið 1987, en ósk þar um væri sett fram í niðurlagi kæru.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði ríkisskattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. september 1989. Þess er krafist, að leyfður verði starfslokafrádráttur á framtölum árin 1986 og 1987. í kærunni segir svo:
„Umbj. minn var í sumarleyfi allan ágústmánuð og hefur því ekki verið unnt að kæra úrskurð ríkisskattstjóra fyrr en nú og er þess vænst að tekið verði tillit til þess. Varðandi rökstuðning vísast til kæru til ríkisskattstjóra varðandi starfslok hjá A. Ekki lá fyrir að umbj. minn myndi hefja störf aftur a.m.k. ekki að sinni og þ.e.a.g. að hann bíður enn eftir sjúkraplássi vegna aðgerða á vinstra hné og verður þá frá vinnu a.m.k. í eitt ár.
Þó svo að honum hafi boðist starf að nýju verður að líta svo á að tímabundið starf hafi verið að ræða vegna fyrirhugaðrar aðgerðar á vinstra hné. Þá er þess að geta að fjölmargir ríkisstarfsmenn hafa hætt aðalstarfi og farið í önnur störf hjá ríkinu án þess að ágreiningur hafi orðið um það.“
Með bréfi, dags. 24. nóvember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 26. ágúst 1989. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“
Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Að því er varðar gjaldárið 1987 þá kærði kærandi eigi úrskurð skattstjóra um kæruefnið, dags. 20. nóvember 1987. Ríkisskattstjóri neytti eigi heimildar sinnar skv. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til breytinga á þegar álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1987 og því hefur engin sú ákvörðun verið tekin af hans hálfu, sem kæranleg er eftir reglum 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ber því af þessum ástæðum að vísa kærunni frá að því er tekur til gjaldársins 1987. Að því er gjaldárið 1986 áhrærir þá þykir bera að staðfesta kæruúrskurð ríkisskattstjóra með vísan til forsendna hans.