Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag á virðisaukaskatt
Úrskurður nr. 130/1994
Virðisaukaskattur 1992
Lög nr. 50/1988, 27. gr. Reglugerð nr. 529/1989, 7. gr.
Ekki þótti ástæða til að ákvarða kæranda álag vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti þótt kærandi kæmi bankatékka vegna skattgreiðslu ekki til viðkomandi innheimtumanns, þ.e. tollstjórans í Reykjavík, heldur til skattstjóra.
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 1. apríl 1993, er þess aðallega krafist að niður verði fellt 20% álag er skattstjóri ákvarðaði kæranda, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 1992. Til vara er þess krafist að álagið verði eingöngu miðað við einn dag og til þrautavara er þess krafist að álagið verði aðeins reiknað til mánudags 8. febrúar 1993 eða í þrjá daga.
Málavöxtum er lýst þannig af hálfu kæranda í bréfi, er hann ritaði skattstjóra hinn 9. febrúar 1993, að forsvarsmaður hans hafi orðið fyrir því óhappi á gjalddaga virðisaukaskatts vegna fyrrgreinds uppgjörstímabils, föstudaginn 5. febrúar 1993, að eyðileggja foráritaða virðisaukaskattsskýrslu. Eftir að hafa útfyllt annað eyðublað hafi hann ætlað að greiða virðisaukaskattinn í viðskiptabanka kæranda, en þá verið bent á það af starfsmönnum bankans að eyðublaðið bæri ekki svokallaða tölvurönd og gæti bankinn því ekki tekið á móti greiðslunni. Hefði þá verið of seint að borga á öðrum stöðum og hefði orðið að ráði að bankinn gaf út tékka, stílaðan á skattstjórann í Reykjavík, sem lögð hefði verið í póstkassa skattstjóra laust eftir kl. 16:00 þennan dag. Í bréfi þessu segir síðan:
„Til að vera viss um að allt hefði farið sem skyldi, fór ég á mánudagsmorgun á skrifstofu Skattstjórans í Reykjavík. Þar fékk ég að vita að þessi greiðsla ætti alls ekki þangað að berast heldur til Tollstjóra og mundu þeir koma umslaginu þangað yfir þegar það kæmi í leitirnar. Sá ljóður var hins vegar sagður á því máli að nú væru allar póstkirnur Skattstjórans yfirfullar og alls óljóst hvenær lesinn yrði í sundur póstur embættisins.
Nú á þriðjudagsmorgni þann 9. febrúar 1993 hefur greiðslan enn ekki borist Tollstjóraembættinu.
Ég óska hér með eftir að fáviska mín verði mér fyrirgefin og viðurlögum verði ekki beitt þegar umslag mitt skilar sér.
Þessi bón er hér með fram borin með hliðsjón af ofangreindri atburðarás. Það má öllum vera ljóst að hér hefur ekki verið um að ræða tilraun af minni hálfu til neins konar blekkingaleiks með innistæðulausar ávísanir, þar sem ávísunin er gefin út af bankanum sjálfum.“
Fram kemur í málsgögnum að virðisaukaskattsskýrsla kæranda barst tollstjóranum í Reykjavík hinn 9. febrúar 1993. Þá liggur fyrir að hinn 4. mars 1993 ákvarðaði skattstjóri kæranda virðisaukaskatt samkvæmt skýrslunni og ákvarðaði honum jafnframt álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 að fjárhæð 29.641 kr. Fyrrnefnt bréf kæranda tók skattstjóri sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 23. mars 1993. Vísaði skattstjóri til 7. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, og kvað ekki fullnægjandi skil á virðisaukaskatti að kaupa ávísun í banka, stílaða á skattstjóra og póstleggja hana til skattstjóra með skýrslu.
Með bréfi, dags. 20. ágúst 1993, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu verður ekki séð að skattstjórinn í Reykjavík hafi sinnt bréfi kæranda, er honum barst 9. febrúar 1993, fyrr en með kæruúrskurði hinn 23. mars 1993. Rétt hefði verið af skattstjóra að taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til rökstuddrar úrlausnar samhliða því að honum var tilkynnt um álagið.
Viðskiptabanki kæranda gaf út tékka fyrir fjárhæð virðisaukaskatts er kæranda bar að greiða á gjalddaga vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 1992 og kom forsvarsmaður kæranda tékkanum án ástæðulauss dráttar til skattstjóra. Rétt hefði verið af forsvarsmanni kæranda að senda greiðsluna til viðkomandi innheimtumanns, þ.e. tollstjórans í Reykjavík. Þykja þau mistök þó ekki eiga að hafa þau áhrif, svo sem hér stendur á, að kæranda verði ákvarðað álag vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts. Er þannig fallist á aðalkröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álag vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 1992 29.641 kr. falli niður.