Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Skattskyld velta
- Styrkur frá sveitarfélagi
Úrskurður nr. 131/1994
Virðisaukaskattur 1991
Lög nr. 50/1988, 2. gr. Reglugerð nr. 248/1990, 12. gr. 1. tölul.
Fallist var á þá skýringu kæranda að greiðslur frá sveitarfélagi til kæranda, sem tilteknar voru sem greiðslur vegna sorphirðu og vegna útilýsingar, hefðu ekki verið endurgjald fyrir vöru eða þjónustu af hendi kæranda sem skattskyld væri samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
I.
Kærð er ákvörðun skattstjóra um að telja kæranda, A hf., til virðisaukaskattsskyldrar veltu greiðslur frá lögheimilissveitarfélagi kæranda, S-hreppi, er fram komu á gjaldseðli hreppsins árið 1991. Var hér annars vegar um að ræða „greiðslu vegna sorphirðu“ er nam 20% af álögðu aðstöðugjaldi kæranda gjaldárið 1991 og hins vegar „greiðslu vegna útilýsingar“ er nam 20% af álögðum fasteignaskatti kæranda nefnt ár. Á gjaldseðlinum koma fram svofelldar skýringar:
„Hreppsnefnd hefur ákveðið að greiða sem svarar til 20% af álögðu aðstöðugjaldi vegna eigin sorphirðu aðstöðugjaldsgjaldenda. - Einnig að greiða vegna kostnaðar við útilýsingu sem svarar til 20% af fasteignaskatti.“
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. maí 1993, er greint frá því af hálfu kæranda að umræddar greiðslur hafi verið tekjufærðar í bókhaldi kæranda sem styrkur frá S-hreppi. Líti kærandi svo á að markmið sveitarfélagsins með þessari greiðslu sé fyrst og fremst að styðja við bakið á atvinnulífi í sveitarfélaginu m.a. vegna þess að það veitir því ekki þá þjónustu sem sveitarfélög annars veiti. Hafi kærandi þá tilhneigingu að líta á greiðslur þessar sem afslátt af opinberum gjöldum. Að öðru leyti er vísað til bréfaskipta við skattstjóra. Í kæru til skattstjóra greinir kærandi frá því að sveitarstjórn hafi tekið einhliða ákvörðun um greiðslur þessar eftir álagningu opinberra gjalda vegna ársins 1990 og miðað við niðurstöðu hennar. Í bréfi til skattstjóra, dags. 17. mars 1993, kom fram af hálfu kæranda að umrædd ákvörðun sveitarstjórnar gilti fyrir atvinnufyrirtæki almennt í sveitarfélaginu. Hafi aldrei hvarflað að forsvarsmönnum kæranda að kærandi hefði með höndum sölu á þjónustu í þessu tilviki. Þriðji aðili hefði með höndum sorphirðingu fyrir sveitarfélagið. Að öðru leyti benti kærandi skattstjóra á að leita skýringa S-hrepps á málinu.
Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 3. maí 1993, segir:
„... Ef um ræðir niðurfellingu gjalda, einhliða, af hálfu sveitarfélagsins, sem og umboðsmaður félagsins hefur boðað í bréfum sínum fyrir hönd félagsins, hlýtur að skjóta skökku við að tilgreina það á gjaldseðli sem greiðslur vegna sorphirðu og raflýsingar. Málið snýst um að S-hreppur er að greiða lögaðilanum A hf. fé fyrir sorphirðu og raflýsingu, skv. eigin gjaldseðli útgefnum af oddvita, hvort tveggja er virðisaukaskattsskyld starfsemi og ber að útskatta söluna skv. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Það að S-hreppur hafi sjálfdæmi um hve há greiðslan er, skiptir ekki máli, heldur og að sala slíkrar þjónustu er virðisaukaskattsskyld og að sjálfsögðu tekjuliður. Ekkert einsdæmi er að seljandi vöru/þjónustu sé ekki sjálfráður að endanlegu verði. Bent skal á að kr. 91.980 af þessum kr. 115.751 var fært félaginu til tekna, en mismunurinn kr. 23.771 væntanlega til lækkunar gjalda, um það hafa ekki verið tekin tvímæli. Væri hins vegar um einhliða niðurfellingu S-hrepps á aðstöðugjaldi að ræða, kæmi hún beint til lækkunar gjalda og ekki til álita sem tekjur. „Styrkur“ vegna sorphirðu, var skýringin sem gefin var í bréfi umboðsmanns félagsins frá 27.01.1993 fskj. nr. 4. Ekki er fallist á annað en að hér sé um að virðisaukaskattsskylda veltu að ræða skv. framkomnum upplýsingum.“
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 20. ágúst 1993, lagt fram svofellda kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda:
"Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Viðkomandi fjárhæðir eru tilgreindar sem greiðslur vegna sorphirðu og útilýsingar á gjaldseðli hreppsins til kæranda. Ljóst er að um er að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi og þar af leiðir að skattskyld velta hækkar sem þessum greiðslum nemur.
Skv. 1. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða vegna sorphreinsunar, þ.e. söfnunar, flutnings, urðunar og eyðingar sorps.
Þetta leiðir þó ekki til þess að heimilt sé að sleppa útsköttun á vinnu og þjónustu á þeim grundvelli að sama upphæð verði endurgreidd síðar, sama af hverjum þjónusta þessi er keypt, sbr. bréf ríkisskattstjóra nr. 112/90 frá 16. júlí 1990.“
II.
Bæði í kæru til skattstjóra og til yfirskattanefndar er hin umþrætta greiðsla skýrð þannig af hálfu kæranda að heimilissveitarfélag kæranda hafi ákveðið einhliða að endurgreiða atvinnufyrirtækjum í sveitarfélaginu hluta af álögðum fasteignasköttum og aðstöðugjaldi til sveitarfélagsins. Samkvæmt þessari frásögn er eigi um að ræða afhendingu vöru eða þjónustu, sem skattskyld er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, af hendi kæranda til sveitarfélagsins. Þykir eigi hafa verið sýnt fram á virðisaukaskattsskyldu kæranda vegna þeirra greiðslna er í málinu greinir.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina. Útskattur tímabilið nóvember-desember 1991 lækkar um 28.359 kr. og álag vegna sama tímabils verður 5.672 kr.