Úrskurður yfirskattanefndar

  • Nám erlendis
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 168/1994

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 70. gr. 3. mgr., 99. gr.   Lög nr. 30/1992, 12. gr.   Reglugerð nr. 532/1990  

Talið var að skattstjóri hefði ranglega vísað frá skattkæru á þeim grundvelli að hún væri órökstudd. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þar sem kæruefni málsins hefði legið ljóst fyrir skattstjóra hefði embættinu verið rétt að beina því til kærenda að leggja fram gögn til rökstuðnings kröfu þeirra um skattalega heimilisfesti hér á landi. Með því að það hefði ekki verið gert og með hliðsjón af lagarökum að baki 12. gr. laga nr. 30/1992 væri frávísunarúrskurður skattstjóra felldur úr gildi og málinu vísað aftur til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali 1992 greindu kærendur frá því að þau væru búsett í Svíþjóð vegna framhaldsnáms A í læknisfræði og náms B, en þau hefðu dvalið á Íslandi í sex vikur sumarið 1991 og í fjórar vikur í desember 1991. Voru í skattframtalinu meðal annars tilgreindar tekjur kærenda hér á landi á dvalartímanum. Við álagningu opinberra gjalda kærenda var tekið mið af dvalardögum þeirra hér á landi, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og var útreikningur miðaður við 90 daga dvalartíma.

Umboðsmaður kærenda mótmælti álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1992 í kæru, dags. 26. ágúst 1992. Gerði hann þá kröfu að kærendur héldu öllum réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitti samkvæmt 3. mgr. 70. gr. fyrrgreindra laga þar sem þau væru bæði við nám í Svíþjóð. Boðaði hann nánari rökstuðning fyrir kærunni síðar en gagna þyrfti að afla frá Svíþjóð. Skattstjóri synjaði kröfu kærenda í kæruúrskurði, dags. 6. nóvember 1992, á þeim forsendum að frekari rökstuðningur í framhaldi af bráðabirgðakæru hefði ekki borist.

Með kæru til skattstjóra, dags. 17. nóvember 1992, lagði umboðsmaður kærenda fram gögn til staðfestingar kröfum þeirra. Kom þar fram að A væri við sérnám í læknisfræði í Svíþjóð en B hefði verið við nám í gullsmíði í Kaupmannahöfn og við verklegt nám í sömu iðngrein í Málmey í Svíþjóð árið 1991.

Skattstjóri framsendi kæru kærenda til yfirskattanefndar með bréfi, dags. 20. nóvember 1992, þar sem hún hefði borist í kærufresti til hennar.

Af hálfu kærenda var með greinargerð, dags. 15. mars 1993, gerð nánari grein fyrir námi kærenda og fram lögð gögn til stuðnings kröfu þeirra.

Með bréfi, dags. 30. júlí 1993, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ekki er unnt að fallast á kröfu kærenda um skattalegt heimilisfesti á Íslandi þar sem framhaldsmenntun í læknisfræði fellur ekki undir nám í skilningi 3. mgr. 70. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, sbr. reglugerð nr. 532/1990.“

II.

Fyrir skattstjóra lá kæra þar sem farið var fram á að kærendur nytu skattalegra réttinda hér á landi, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í kærunni kom fram að kærendur væru búsett í Svíþjóð og að til rökstuðnings kærunni þyrfti að afla frekari gagna þar í landi. Kæruefni málsins lá hins vegar ljóst fyrir. Eigi verður séð að skattstjóri hafi beint því til kærenda að leggja fram þau gögn er hann taldi á skorta til rökstuðnings kröfunni. Svo sem á stóð í máli þessu verður að telja að slík ábending af hálfu skattstjóra hefði verið eðlileg. Vegna frávísunar skattstjóra fékk efnishlið málsins enga úrlausn á skattstjórastigi. Með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að fella frávísunarúrskurð skattstjóra úr gildi og vísa kærunni í þeim búningi sem hún er nú til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Frávísunarúrskurði skattstjóra er hnekkt. Málinu er vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja