Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjur af vistun barna
  • Teknategund
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 169/1994

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 7. gr. B-liður  

Kærandi hafði tekið við tveimur unglingum til vistunar á heimili sínu, annan í tíu mánuði og hinn í þrjá. Að virtu umfangi vistunarinnar og öðrum málsatvikum var talið að greiðslur, sem kærandi hafði hlotið frá Reykjavíkurborg vegna vistunarinnar, væru ekki tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, heldur féllu þær undir 1. málsl. 2. tölul. A-liðar 7. gr. (tryggingabætur, meðlög og styrkir). Væri því óheimilt að færa greiðslurnar til lækkunar á rekstrartapi vegna landbúnaðar.

I.

Ágreiningsefni máls þessa er ákvörðun skattstjóra um að heimila ekki hreinan hagnað af vistun barna, 638.223 kr., til frádráttar rekstratapi vegna landbúnaðar, sbr. bréf skattstjóra, dags. 12. júní 1992, og kæruúrskurð, dags. 19. október 1992. Í kæruúrskurði kom fram sú forsenda skattstjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun að vistun barna væri ekki talin atvinnurekstur.

Af hálfu kæranda er því mótmælt í kæru til yfirskattanefndar, dags. 17. nóvember 1992, að vistun barna skuli ekki talin til atvinnurekstrar. Bendir umboðsmaður kæranda á að vistun barna á einkaheimilum sé í eðli sínu ekki frábrugðin vistun barna á stofnunum að öðru leyti en að umhverfið sé eðlilegra og hlýlegra. Börn séu af ýmsum ástæðum vistuð á alls konar stofnunum og heimilum og sé þar um að ræða bæði stórar og smáar rekstrareiningar. Til séu heimili þar sem séu vistuð nokkur börn í einu allt árið og heimili þar sem eitt barn sé vistað í skamman tíma. Tekjur stofnana af vistun barna séu að sjálfsögðu atvinnurekstrartekjur og þær haldi áfram að vera það þótt börnin séu vistuð á einkaheimilum. Tekjur dagmæðra á einkaheimilum séu t.a.m. atvinnurekstrartekjur. Þess er krafist að úrskurði skattstjóra varðandi það að heimila ekki að færa tekjuafgang af vistun barna 638.223 kr. til lækkunar á yfirfæranlegu rekstrartapi landbúnaðar verði hnekkt þar sem kærandi telji tekjur af vistun barna atvinnurekstrartekjur.

Með bréfi, dags. 30. apríl 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi hagaði framtalsgerð sinni svo sem hinar umþrættu tekjur féllu undir ákvæði B-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og færði þær á móti tapi vegna landbúnaðar. Áður en skattstjóri breytti skattframtali kæranda á hinn umdeilda veg, hafði hann með bréfi, dags. 29. maí 1992, krafið kæranda upplýsinga um fjölda barna sem hún hefði í vist. Tók skattstjóri fram í bréfi þessu að mismunur tekna og gjalda skyldi færast til tekna á skattframtali. Bréfi þessu var ekki svarað af hálfu kæranda. Í bréfi skattstjóra, dags. 12. júní 1992, var engin grein gerð fyrir því af hvaða ástæðu hreinar tekjur vegna vistunar barna væru færðar af samræmingarblaði og á skattframtal. Fullnægði tilkynning skattstjóra því ekki að öllu leyti ákvæðum 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Að virtum atvikum verður þó ekki talin ástæða til að ómerkja hina kærðu breytingu.

Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi við tveimur unglingum til vistunar á heimili sínu á árinu 1991 gegn greiðslum frá Reykjavíkurborg. Dvaldi annar unglinganna á heimili kæranda í tíu mánuði en hinn í þrjá mánuði. Eins og hér hagar til og að virtu umfangi vistunarinnar verða nefndar greiðslur eigi felldar undir B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verða þær taldar til þeirra tekna er getur í 1. ml. 2. tl. A-liðs nefndrar lagagreinar. Eftir þessari niðurstöðu er eigi heimilt að færa þær til lækkunar á rekstrartapi vegna landbúnaðar. Er kröfu kæranda því hafnað, en ekki er í máli þessu ágreiningur um fjárhæð teknanna.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja