Úrskurður yfirskattanefndar
- Barnabótaauki
- Framfærandi barns
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 258/1994
Gjaldár 1993
Lög nr. 75/1981, 69. gr. B-liður 1. og 5. mgr.
Kærendur gerðu kröfu um barnabótaauka vegna barns sem hefði verið á framfæri þeirra fyrstu níu mánuði ársins. Yfirskattanefnd hafnaði þeirri kröfu með vísan til þess að barnabótaauki væri greiddur framfæranda og með framfæranda væri átt við þann er hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins.
I.
Málavextir eru þeir að kærendur færðu nöfn tveggja barna í kafla 2 á skattframtali 1993. Var þess getið í athugasemdadálki að annað þeirra, E, hefði dvalið hjá kærendum til 25. september 1992. Við álagningu byggði skattstjóri hins vegar á því að aðeins eitt barn byggi hjá kærendum og ákvarðaði kærendum barnabótaauka samkvæmt því. Með kæru, dags. 30. ágúst 1993, fóru kærendur fram á að fá greiddan barnabótaauka með þeim tveimur börnum sem tilgreind höfðu verið á skattframtali þeirra. Kom fram að kærendur hefðu haft bæði börnin á framfæri sínu. Skattstjóri hafnaði kröfum kærenda með kæruúrskurði, dags. 24. september 1993. Í úrskurðinum sagði svo:
„Samkvæmt 4. mgr. B-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981 skal ákvarða barnabótaauka þeim aðila (eða aðilum), sem hefur viðkomandi barn hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins.
Samkvæmt þjóðskrá er eitt barn f. ... 1990 með lögheimili hjá kærendum í árslok 1992. Í álagningu voru kærendur skattlögð eins og um hjón væri að ræða með eitt barn.“
Í kæru kærenda til yfirskattanefndar, dags. 5. október 1993, kemur fram að enda þótt barnið sem um ræði hafi ekki átt lögheimili hjá kærendum í lok tekjuársins hafi það átt lögheimili og verið á framfæri kærenda mest allt árið eða þangað til 25. september 1992. Þetta væri hægt að fá staðfest hjá dómsmálaráðuneytinu og Félagsmálastofnun X-bæjar. Er gerð krafa um barnabótaauka fyrir tímabilið 1. janúar 1992 til 25. september 1992.
Með bréfi, dags. 3. desember 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Hinn 5. janúar 1994 barst yfirskattanefnd bréf Félagsmálastofnunar X-bæjar, dags. 4. janúar 1994, vegna máls þessa þar sem staðfest er að barn það er um ræðir hafi dvalið hjá kærendum á heimili þeirra frá júlí 1991 til loka septembermánaðar 1992. Þennan tíma hafi barnið verið á framfærslu kærenda. Ástæða þess að barnið hafi dvalið hjá kærendum væri sú að verið væri að ákveða endanlega hverjum yrði falin forsjá þess.
Með bréfi, dags. 21. janúar 1994, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda framhaldskröfugerð:
„Í tilefni af framhaldskæru kærenda, ítrekar ríkisskattstjóri fyrri kröfur, enda breytir yfirlýsing Félagsmálastofnunar X-bæjar engu um þá niðurstöðu.“
II.
Rétt hefði verið af skattstjóra að tilkynna kærendum þá breytingu á skattframtali þeirra að miða barnabótaauka við að kærendur hefðu aðeins eitt barn á framfæri í árslok 1992. Svo sem hér stendur á þykja eigi efni til að ómerkja breytingar skattstjóra þótt þessa hafi ekki verið gætt.
Kröfu kærenda er hafnað með vísan til 1. og 5. mgr. B-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem fram kemur að barnabótaauki greiðist til framfæranda barna og að með framfæranda sé átt við þann er hefur barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.