Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstur mötuneytis
  • Eigin fæðiskostnaður
  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 285/1994

Gjaldár 1991

Skattstjóri færði kæranda til tekna fæðishlunnindi þar sem hann hefði matast í mötuneyti sem hann rak fyrir sjómenn. Tekjufærsluna byggði skattstjóri á matsreglum ríkisskattstjóra um fjárhæð fæðishlunninda sem launagreiðandi léti launþega endurgjaldslaust í té. Í niðurstöðu yfirskattaefndar kom fram að matsreglurnar ættu eðli máls samkvæmt ekki við um þetta tilvik. Þótti bera að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað mötuneytisins vegna eigin uppihalds kæranda um áætlaða fjárhæð.

I.

Kæruefni í máli þessu er ákvörðun skattstjóra um að færa kæranda til tekna í skattframtali 1991 fæðishlunnindi, 190.500 kr., er hann tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 8. mars 1992, og staðfesti með kæruúrskurði, dags. 13. apríl 1993. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að kærandi, sem rak mötuneyti sjómanna í X-bæ á árinu 1990, hefði borið að reikna sér fæðishlunnindi vegna matar er hann neytti í mötuneytinu. Áætlaði skattstjóri kæranda fæðishlunnindi miðað við 300 daga á 635 kr. eða samtals 190.500 kr.

Af hálfu kæranda er því ekki andmælt að hann hafi „lifað á mat sem afgangs gekk í mötuneytinu“, sbr. bréf kæranda til skattstjóra, dags. 10. mars 1993. Því er hins vegar mótmælt að um skattskyld fæðishlunnindi hafi verið að ræða og er m.a. vísað til þess að hann hafi reiknað sér endurgjald miðað við fullt starf og greitt af því staðgreiðsluskatt. Þegar liðið hafi á árið 1990 hafi komið í ljós að tekjur af rekstri mötuneytisins hafi hraðminnkað og hafi mötuneytið verið lagt niður í júní 1991. Sé mjög vafasamt að telja rekstur kæranda til fulls starfs árið 1990. Er í kæru til yfirskattanefndar, dags. 5. maí 1993, þess krafist aðallega að tekjufærð fæðishlunnindi verði felld niður. Til vara er þess krafist að starf kæranda verði metið sem hálft starf og fæðishlunnindi lækkuð um helming.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 1993, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Hinn umdeildi tekjuauki var á því byggður að kærandi hefði matast í mötuneyti er hann rak fyrir eigin reikning. Skattstjóri hefur byggt tekjufærslu á matsreglum ríkisskattstjóra um fjárhæð fæðishlunninda sem launagreiðandi lætur launþega sínum endurgjaldslaust í té. Þær reglur eiga eðli máls samkvæmt ekki við í þessu tilviki. Ágreiningslaust er að kærandi neytti fæðis úr mötuneytinu og að allur kostnaður vegna þess hafi verið gjaldfærður í rekstrarreikningi vegna mötuneytisins. Rétt þykir að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað vegna eigin uppihalds kæranda. Þykir lækkunin hæfilega áætluð 80.000 kr. Álag 47.625 kr. fellur niður. Eftir þeirri niðurstöðu lækkar tekjuskattsstofn kæranda um 158.125 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 1991 lækkar um 158.125 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja