Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ræktað land
  • Gjaldfærsla eftirstöðva fyrningarverðs

Úrskurður nr. 308/1994

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 34. gr.  

Með hliðsjón af úrskurði Fasteignamats ríkisins um að 50% ræktaðs lands kæranda væri ónýtt var fallist á kröfu kæranda um að bókfært verð ræktarlandsins yrði fært niður að sama skapi.

I.

Málavextir eru þeir að á fyrningarskýrslu með skattframtali kæranda 1991 færði hann fyrningarhlutfall ræktunar 48% og útihúsa 37%. Með bréfi, dags. 22. janúar 1992, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að leiðrétta hlutföll þessi í 6% vegna ræktunar og 4% vegna útihúsa, sbr. ákvæði 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Svar barst ekki frá kæranda og með bréfi, dags. 6. mars 1992, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og lækkaði gjaldfærðar fyrningar úr 465.748 kr. í 54.254 kr. Að gerðum breytingum varð rekstrartap til næsta árs 53.254 kr.

Kærandi andmælti gerðum breytingum með kæru til skattstjóra, dags. 4. apríl 1992, Voru rök hans þau að með úrskurði Fasteignamats ríkisins á árinu 1989 hefðu verið gerðar breytingar á mati fasteigna hans. Annars vegar hefði ræktað land verið fært úr 14 hekturum niður í 7 hektara eða afskrifað um 50%. Af þessum sökum væri eðlilegt að lækka stofnverð ræktaðs lands um 50% úr 488.411 kr. í 244.206 kr. Ekki hefði verið gert ráð fyrir niðurfærslu (viðbótarafskrift) í skattframtali 1990. Í skattframtali 1991 hefðu verið afskrifaðar 234.953 kr. eða 48% stofnverðs þannig að eftir hefðu staðið 10% stofnverðs eða 48.841 kr. Hins vegar hefði með úrskurði Fasteignamats ríkisins matsverð hlöðu og geymslu verið lækkað um 100% þar sem húsin hefðu verið rifin. Fasteignamatsverð þessara húsa hefði verið 21,1% af fasteignamati útihúsa. Fyrning ársins 1990 ætti því að vera 25,1%, þ.e. 21,1% auk 4% almennrar fyrningar. Samkvæmt því fór kærandi fram á að fyrning útihúsa yrði 155.943 kr. og bókfært verð 284.043 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 16. nóvember 1992, féllst skattstjóri á að afskrifa að fullu hlöðu og geymslu sem hefðu verið fjarlægð og felld úr fasteignamati. Hins vegar féllst hann ekki á að breytt fasteignamat ræktaðs lands fengi breytt fyrningarhlutfalli þess og því stæði tilkynnt breyting á fyrningu þess óhögguð. Yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs varð 179.835 kr.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 14. desember 1992. Ítrekar hann fyrri kröfur varðandi ræktað land og krefst þess að fyrning þess verði látin standa óhögguð. Fasteignamat ríkisins hafi úrskurðað að 50% ræktaðs lands sé ónýtt og því sé eðlilegt að bókfært verð þess sé fært niður að sama skapi.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir mega fallast á að helmingur ræktaðs lands gjaldfærist með 141.897 kr., sbr. 34. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Framreiknað stofnverð þess helmings er eftir stendur nemur 244.205 kr., 6% fyrning ársins 14.652 kr. og bókfært verð í árslok 127.245 kr. Tap til næsta árs verður 336.384 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Til gjalda færast eftirstöðvar fyrningarverðs vegna helmings ræktunar með 141.897 kr. ásamt fyrningu fyrnanlegs hluta ræktunar með 14.652 kr. Yfirfæranlegt tap til næsta árs verður 336.384 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja