Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 465/1994

Gjaldár 1986-1990

Lög nr. 75/1981, 91. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. mgr., 106. gr. 2. mgr.  

Skattframtölum kæranda fylgdu ekki ársreikningar vegna atvinnurekstrar hans. Allt að einu lagði skattstjóri skattframtölin til grundvallar álagningu opinberra gjalda, en hófst síðar handa við að knýja fram ársreikninga með áætlun tekjuviðbótar að viðbættu álagi á hækkun skattstofna. Að fram komnum ársreikningum felldi skattstjóri tekjuhækkanir sínar niður. Með úrskurði yfirskattanefndar var álagsbeiting skattstjóra felld niður.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtöl kæranda gjaldárin 1986, 1987, 1988, 1989 og 1990 bárust skattstjóra eftir lok framtalsfrests. Á öllum framtölum komu fram reiknuð laun vegna starfa kæranda við eigin endurskoðunarstofu, en að öðru leyti var ekki gerð grein fyrir rekstri stofunnar eða efnahag. Þrátt fyrir þessa ágalla tók skattstjóri skattframtölin til álagningar og voru skattframtölin lögð til grundvallar við álagningu opinberra gjalda viðkomandi ár. Er kærandi varð ekki við óskum skattstjóra um framlagningu ársreikninga fyrir endurskoðunarstofu sína nefnd gjaldár áætlaði skattstjóri honum tekjuviðbót öll árin og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld hans samkvæmt þeim áætlunum að viðbættu 25% álagi. Að því er varðar gjaldárin 1986, 1987 og 1990 mótmælti kærandi ákvörðunum skattstjóra ekki innan kærufrests, en að fenginni kæru kæranda varðandi gjaldárin 1988 og 1989 staðfesti skattstjóri ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 26. júlí 1991.

Með erindum, sem bárust ríkisskattstjóra 11. maí 1992, 15. maí 1992, 29. maí 1992 og 9. júní 1992, sendi kærandi ársreikninga endurskoðunarstofu sinnar rekstrarárin 1985 til 1989 með ósk um að skattframtölum 1986 til 1990 yrði breytt og álögð gjöld færð til samræmis við skattframtöl án álags. Ríkisskattstjóri fól skattstjóra afgreiðslu erindanna með bréfum, dags. 10. júní 1992 og 23. júní 1992. Skattstjóri varð við erindunum og tók áður álögð opinber gjöld kæranda til endurákvörðunar hinn 24. júlí 1992. Skattstjóri bætti 25% álagi á gjaldstofna með vísan til síðbúinna framtalsskila öll árin.

Með kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1992, mótmælti kærandi álagsbeitingu skattstjóra. Benti hann á að framtöl með skattstofnum hefðu verið send „innan tiltekins tíma á hverju ári“ og verið lögð til grundvallar álagningu af hálfu skattstjóra. Við endanlega vinnslu ársreikninga og fylgiblaðs hefði komið í ljós að „áður innsendir skattstofnar“ hefðu lækkað. Þótti kæranda ekki ástæða til álagsbeitingar þegar áður innsendir gjaldstofnar væru hærri en endanlegir skattstofnar. Þar sem álagning umræddra ára hefði verið greidd taldi kærandi sig frekar hafa greitt of mikið en of lítið til ríkissjóðs. Álagsbeiting væri því ekki eðlileg.

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 17. desember 1992. Voru forsendur hans þær að kærandi, sem vegna reksturs endurskoðunar- og bókhaldsstofu væri bókhaldsskyldur skv. 2. gr. laga nr. 51/1968, um bókhald, hefði ekki skilað tilskildum gögnum með skattframtölunum, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattskil hefðu því verið ófullnægjandi. Fullnægjandi framtalsskil hefðu því ekki farið fram fyrr en eftir lok framtalsfrests, sbr. 93. gr. laga nr. 75/1981, og væri því um að ræða síðbúin fullnægjandi framtalsskil. Þar sem þannig hefði verið um síðbúin framtalsskil að ræða vegna greindra ára hefði skattstjóri mátt bæta 25% álagi á skattstofna, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Fella mætti niður álag ef skattaðili færði rök fyrir því að honum yrði eigi kennt um annmarka á skattframtali eða vanskil þess, eða að óviðráðanleg atvik hefðu hamlað að framtali yrði skilað á réttum tíma, bætt yrði úr annmörkum eða einstakir liðir leiðréttir, sbr. 3. mgr. nefndrar lagagreinar. Tók skattstjóri fram að skattframtöl kæranda hefðu verið tekin til álagningar þrátt fyrir annmarka á framtalsskilum. Þætti þó ekki næg ástæða til að fella niður álag enda hefði kærandi ekkert aðhafst fyrr en endurskattlagning hefði verið tilkynnt. Kærandi hefði hvorki sýnt fram á að honum yrði eigi kennt um annmarka á skattframtali né að óviðráðanleg atvik hefðu hamlað réttum skilum. Tók hann fram að um væri að ræða skattskil fyrir fimm ár auk skattframtals 1991 og að kærandi væri endurskoðandi og mætti því gera frekari kröfur til hans en ella varðandi fullnægjandi framtalsskil.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 1993, hefur kærandi krafist þess að álag á skattstofna verði fellt niður. Vísar hann til þess sem fram hafi komið í málinu af sinni hálfu á skattstjórastigi og ítrekar að innsend framtalsgögn hvers árs hafi verið lögð til grundvallar álagningu.

Með bréfi, dags. 30. júlí 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Fram hefur komið að skattstjóri lagði til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárin 1986, 1987, 1988, 1989 og 1990 skattframtöl hans þau ár, án þess að þeim fylgdu ársreikningar viðkomandi rekstrarára. Framtölin bárust skattstjóra í tæka tíð fyrir álagningu gjaldanna. Lögboðið er í 2. ml. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að skattframtali bókhaldsskyldra aðila skuli fylgja ársreikningur í samræmi við ákvæði bókhaldslaga ásamt þeim breytingum sem nauðsynlegar kunna að vera til samræmis við ákvæði skattalaga. Með því að ársreikningar fylgdu ekki framangreindum skattframtölum kæranda, voru þau ófullnægjandi í skilningi 1. mgr. 96. gr. nefndra laga. Samkvæmt ákvæðum þeirrar málsgreinar bar skattstjóra þá skriflega að skora á kæranda að bæta úr þessum annmarka framtalsins innan hæfilegs frests, áður en til álagningar gjalda kom, en ella, ef hann yrði ekki við þeirri áskorun eða svar reyndist ófullnægjandi, að áætla honum stofna til álagningar gjalda og svo ríflega að eigi yrði hætt við að fjárhæðir yrðu lægri en þær væru í raun og veru. Skattstjóri gætti ekki þessarar skyldu sinnar, heldur hófst handa við að knýja fram ársreikninga og önnur framtalsgögn, er ekki höfðu fylgt skattframtölum, með endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda alllöngu eftir lok álagningar viðkomandi gjaldár. Áætlaði skattstjóri kæranda hagnað af rekstri og bætti skattstjóri 25% álagi við hækkun skattstofna er af þeirri áætlun leiddi. Afgreiðsla skatterinda kæranda hinn 24. júlí 1992 leiddi til þess að tekjuviðbót skattstjóra öll árin féll niður. Með þessum athugasemdum er hið kærða álag fellt niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag falli niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja