Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arfur
  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Áætlun skattstofns

Úrskurður nr. 508/1994

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 17. gr., 28. gr. 1. tölul.  

Kærendur mótmæltu skattlagningu hagnaðar vegna sölu hlutabréfa, sem A hafði hlotið sem fyrirframgreiddan arf, á þeim forsendum að hann hefði þegar greitt erfðafjárskatt af bréfunum og hefði aðeins umbreytt arfinum í önnur bréf. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að lagaákvæði um skattfrelsi eignaauka m.a. vegna fyrirframgreiðslu arfs, enda hefði erfðafjárskattur verið greiddur, hefði átt við þegar A hefði hlotið hlutabréfin í arf. Málið varðaði hins vegar sölu bréfanna en hagnaður af slíkri sölu teldist til skattskyldra tekna á söluári. Þar sem kærendur höfðu enga grein gert fyrir söluhagnaði af hlutabréfunum var látið sitja við áætlun skattstjóra sem hvorki þótti hafa verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum né röngum forsendum.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtölum kærenda 1990 og 1991 var greint frá því að kærandi, A, hefði fengið fyrirfram­­greiddan arf frá föður sínum; á árinu 1989 hlutabréf í Samvinnu­banka Íslands hf. að nafnverði 500.000 kr. og á árinu 1990 hlutabréf í Hf. Eimskipafélagi Íslands að nafnverði 100.000 kr. Með skattframtali þeirra 1991 fylgdi greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa og var þar m.a. greint frá því að umrædd hlutabréf í Eimskipafélaginu hefðu verið seld á 600.000 kr., en keypt verðbréf fyrir sömu fjárhæð. Þar var einnig greint frá sölu skuldabréfa (sic) Samvinnubanka Íslands hf. að nafnverði 500.000 kr. og kaupum á spariskírteinum ríkissjóðs að fjárhæð 1.442.727 kr.

Með bréfi, dags. 31. maí 1991, krafði skattstjóri kærendur um nánari skýringar vegna sölu hlutabréfa í Samvinnubanka Íslands hf. og Hf. Eimskipafélagi Íslands með útfyllingu eyðublaðsins „Kaup og sala eigna“ (RSK 3.02). Var kærendum sérstaklega bent á að fylla út E-lið eyðublaðsins varðandi útreikning á söluhagnaði.

Kærendur lögðu fram umbeðna greinargerð, sem dagsett var 5. júní 1991. Kom fram í henni að um væri að ræða arf eftir föður kæranda, A, og hefði hlutabréfunum verið breytt í spariskírteini ríkissjóðs og önnur verðbréf. Engin grein var gerð fyrir söluhagnaði hlutabréfanna.

Með bréfi, dags. 26. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kærendum m.a. að hann hefði fært til tekna í reit 77 söluhagnað af sölu hlutabréfa í Samvinnubanka Íslands hf. að fjárhæð 626.500 kr. vegna ófullnægjandi svars við fyrirspurn sinni. Var álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1991 hagað í samræmi við það. Samkvæmt gögnum málsins miðaði skattstjóri söluhagnaðinn við að kaupverð hlutabréfanna til ákvörðunar á söluhagnaði samsvaraði nafnverði margfölduðu með 1,4974 og að söluverð samsvaraði nafnverði margfölduðu með 2,749.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1991. Var óskað skýringa á því að hvaða leyti fram komið svar hefði verið ófullnægjandi og farið fram á leiðréttingu. Með kæruúrskurði, dags. 16. desember 1991, hafnaði skattstjóri kærunni og tók fram að kærendur hefðu ekki enn gert fullnægjandi grein fyrir útreikningi söluhagnaðar og stæði tekjufærð fjárhæð óbreytt.

Í framhaldi af símtali við fulltrúa skattstjóra hinn 4. desember 1991, sendi umboðsmaður kærenda bréf til skattstjóra, dags. 19. desember 1991. Taldi hann að um væri að ræða arf sem ekki ætti að skattleggjast á sama ári og hann félli til, enda þótt kærandi, A, hefði þurft að breyta arfinum í önnur bréf. Þá gat hann þess að önnur systkini A hefðu ekki verið skattlögð vegna samskonar meðhöndlunar á arfi sínum. Með bréfinu fylgdu ljósrit af kvittunum vegna sölu hlutabréfanna.

Í framhaldi af því skaut umboðsmaður kærenda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. janúar 1992. Vísar hann til áðurgreinds bréfs síns til skattstjóra, dags. 19. desember 1991, og annarra gagna í málinu. Ekki kemur annað fram af hálfu kærenda, frekar en áður, en að ekki eigi að koma til skattlagningar vegna umræddra viðskipta þar sem um arf hafi verið að ræða sem greiddur hafi verið erfðafjárskattur af.

Með bréfi, dags. 12. ágúst 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Það er ekki verið að skattleggja fyrirframgreiddan arf heldur söluhagnað vegna sölu hlutabréfa. Með hliðsjón af þessu er krafa ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Svo sem fram hefur komið fékk kærandi, A, á árinu 1989 hlutabréf í Samvinnubanka Íslands hf. að nafnverði 500.000 kr. sem fyrirframgreiddan arf frá föður sínum og tók kærandi fram að erfðafjárskattur hefði verið greiddur, sbr. athugasemdadálk skattframtals árið 1990. Hlutabréf þessi seldi kærandi hinn 21. maí 1990 eftir því sem gögn málsins bera með sér og ráðstafaði andvirðinu til kaupa á spariskírteinum ríkissjóðs. Skattstjóri krafði kærendur um greinargerð um sölu hlutabréfa þessara og um útreikning söluhagnaðar. Með því að umbeðnar upplýsingar voru ekki látnar í té ákvarðaði skattstjóri skattskyldan söluhagnað 626.500 kr. vegna sölu bréfanna og tekjufærði hjá kæranda, B, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Við þann útreikning hefur skattstjóri byggt á því að söluverð bréfanna hefði verið 1.374.500 kr. sem er í samræmi við þá fjárhæð sem talin er kaupverð bréfanna í gagni frá Landsbanka Íslands, dags. 18. maí 1990, en ljósrit þess liggur fyrir í málinu. Skattstjóri miðaði við að kaupverð teldist 748.000 kr. í söluhagnaðarútreikningi þessum. Samkvæmt þessu fékk skattstjóri fyrrgreinda fjárhæð skattskylds söluhagnaðar. Af hálfu kærenda hefur því einu verið haldið fram í máli þessu að um arf hafi verið að ræða og því eigi ekki að koma til skattlagningar. Virðast viðhorf kærenda vera þau að með sölunni hafi arfinum verið breytt í önnur verðbréf og sé salan liður í arftökunni. Ekki verður fallist á þessi sjónarmið kærenda. Ákvæði 1. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og varðar skattfrelsi eignaauka vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur, áttu við þegar kærandi, A, hlaut umrædd hlutabréf í arf og ekki var kærendum gert að greiða tekjuskatt vegna þeirrar arftöku. Mál þetta varðar hins vegar sölu hlutabréfa, sem kærandi, A, var löglegur eigandi að, en hagnaður sem kann að verða af sölu slíkra bréfa telst til skattskyldra tekna á söluári, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í þessum efnum skiptir ekki máli þótt kærandi hafi eignast hin seldu bréf sem fyrirframgreiddan arf. Af hálfu kærenda hefur engin grein verið gerð fyrir söluhagnaði af hinum seldu hlutabréfum né útreikningi hans þrátt fyrir áskoranir skattstjóra þar um. Svo sem fram hefur komið hefur skattstjóri við ákvörðun þeirrar fjárhæðar, sem hann tekjufærði sem söluhagnað, haft til viðmiðunar söluverð bréfanna og að því er virðist ákvarðað kaupverð í hendi seljanda eftir ákvæðum 2. ml. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, án þess þó að fyrir liggi svo óyggjandi sé að við þá ákvörðun hafi verið valin sú aðferð sem hagstæðust er kærendum. Þar sem það ber undir kærendur að gera grein fyrir söluhagnaði af hinum seldu hlutabréfum og rétt þykir að líta á þá fjárhæð sem skattstjóri ákvarðaði sem áætlun, sem að því er best verður séð, er hvorki byggð á ólögmætum sjónarmiðum né röngum forsendum, þykja ekki efni til þess að hrófla við fjárhæðinni. Að þessu virtu og þar sem skattfrelsisákvæði þau, sem um getur í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, taka ekki til tilviksins er kröfu kærenda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja