Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 249/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 4. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 88/1987 — 1. gr. — 2. gr. — 3. gr. — 5. gr. — 7. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Verslunarhúsnæði — Skrifstofuhúsnæði — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Fasteign — Fasteignamatsverð — Skattskylda — Geymsluhúsnæði — Fundahúsnæði — Áætlun — Áætlun skattstofna — Síðbúin framtalsskil — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Skrá til sérstaks eignarskatts — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Notkun húsnæðis — Fyrri skattframkvæmd

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi eigi fram til skatts á tilskildum tíma gjaldárið 1988 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum það ár. Þar á meðal áætlaði skattstjóri stofn til sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði 5.000.000 kr. þ.m.t. álag. Skattframtal kæranda 1988 barst skattstjóra þann 21. júlí 1988 samkvæmt áritun hans á það og var það tekið sem kæra. Þá barst skattstjóra kæra, dags. 9. ágúst 1988, þar sem álagningu hins sérstaka skatts var mótmælt og m.a. vísað til afgreiðslu skattstjóra á sambærilegu ágreiningsefni árið áður.

Skattstjóri kvað upp úrskurð í málinu þann 22. desember 1988. Féllst hann á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda 1988 að viðbættu 15% álagi samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Varðandi stofn til hins sérstaka skatts, þá taldi skattstjóri, að fasteignir, sem nýttar væru vegna fundahalda og skjalageymslu féllu undir lög nr. 88/1987, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Var því kröfu kæranda um niðurfellingu stofnsins að öllu leyti synjað. Þá tók skattstjóri fram að úrskurður hans frá 4. desember 1987 um sama efni væri rangur.

Hins vegar lækkaði skattstjóri stofn til hins sérstaka skatts í 3.213.000 kr. auk 15% álags 481.950 kr. eða alls 3.694.950 kr. til samræmis við fasteignamat í árslok 1987.

Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 20. janúar 1989, og var þar boðað, að greinargerð með kærunni yrði send síðar. Nánari rökstuðningur barst síðan í bréfi, dags. 31. janúar 1989, og segir þar m.a.:

„Með vísan til 1. gr. laga nr. 88/1987 og 4. gr. laga nr. 75/1981 viljum við taka eftirfarandi fram:

Húseignin sem hér um ræðir er 269 m2 að stærð og þar af er 100 m2 notaðir af X til fundar og/eða flokksstarfa, 99 m2 eru leigðir Y undir geymslur og 70 m2 er sameign, stigagangur ofl. Það er álit okkar að með lögum um sérstakan skatt á verslunarhúsnæði hafi það ekki verið tilgangur löggjafans að skattleggja húsnæði með sambærilega notkun og hér um ræðir. Það er því krafa okkar að álagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði felldur niður.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 12. mars 1990, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum málavöxtum og fyrri afgreiðslu skattstjóra þykir eigi hafa verið sýnt fram á, að notkun hins umrædda húsnæðis falli undir verslunar- eða skrifstofuhald í skilningi laga nr. 88/1987. Er því krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja