Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Atvinnurekstur
  • Bifreiðaviðskipti

Úrskurður nr. 580/1994

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 3. gr. 1. mgr. 1. tölul., 5. gr. 1. mgr., 10. gr. 1. mgr., 27. gr.  

Í niðurstöðu yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði miðað framtalsgerð sína við að kaup og sala notaðra bifreiða teldist til atvinnurekstrar hans. Eins og málið lægi fyrir yrði talið að bifreiðaviðskiptin hefðu verið samþætt verkstæðisrekstri kæranda og bæri því að telja til virðisaukaskattsskyldrar veltu hans 80,32% mismunar söluverðs og kaupverðs þeirra bifreiða sem kærandi hefði aflað sér til endursölu eftir að hann hóf hina skráningarskyldu starfsemi og seldi við verði sem var hærra en kaupverð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988.

I.

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að telja söluhagnað þriggja bifreiða til virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda á rekstrarárinu 1990. Krefst kærandi þess að viðurkennt verði að ekki hafi verið um virðisaukaskattsskyld bifreiðaviðskipti að ræða.

Kærandi hefur með höndum yfirbyggingar bifreiða og tilkynnti hinn 29. maí 1990 um þá starfsemi hans til skattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skattframtali hans árið 1991 fylgdi rekstraryfirlit vegna ársins 1990 þar sem tekjur voru tilgreindar 1.851.787 kr. og gjöld 894.562 kr., þar af reiknað endurgjald kæranda og maka samtals 500.000 kr. Rekstrarhagnaður 957.225 kr. var færður á samræmingarblað, þar sem jafnframt var gerð grein fyrir ónotuðu rekstrartapi frá fyrri árum til frádráttar, er framreiknað nam 2.993.045 kr. Meðal teknaliða var „söluhagnaður bílaskipta“ 678.150 kr. og var nánari grein gerð fyrir bifreiðaviðskiptunum á sérstöku fylgiblaði. Kom þar fram að kærandi keypti á árinu 1990 fimm bifreiðar og seldi fjórar. Fimmtu bifreiðina taldi kærandi sér til eignar í lið 06 á skattframtali. Þá gat kærandi þess í lið 4 á skattframtali 1991 að hann hefði selt á árinu 1990 bifreiðina X á 330.000 kr. Bifreið þessa hafði kærandi keypt af Sjóvá-Almennum hf. á árinu 1989 á 177.000 kr., sbr. skattframtal 1990. Með bréfi, dags. 26. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda um hækkun aðstöðugjaldsstofns frá því sem tilgreint hafði verið á greinargerð um aðstöðugjaldsstofn á þeim forsendum að telja bæri kaupverð bifreiða sem vörunotkun. Ekki verður séð að kærandi hafi mótmælt þeirri ákvörðun.

Með bréfi, dags. 19. mars 1992, leitaði skattstjóri skýringa kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki skilað virðisaukaskatti af framangreindum bifreiðaviðskiptum. Með bréfi, dags. 24. mars 1992, mótmælti kærandi því að um virðisaukaskattsskylda starfsemi hefði verið að ræða. Bifreiðaskipti, sem tilgreind hefðu verið á skattframtali, hefðu verið af illri nauðsyn vegna íbúðarkaupa. Gerði kærandi grein fyrir sölu einstakra bifreiða og tók m.a. fram að varahlutir hefðu ekki verið dregnir frá tekjum á rekstraryfirliti. Þó kvað kærandi ásættanlegt að greiða virðisaukaskatt af vinnuframlagi við endurbætur á bifreiðum og mætti meta það á 60.000 kr. og virðisaukaskatt þar af 19,68% eða 11.808 kr.

Með bréfi, dags. 8. maí 1992, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts. Tilkynnti hann kæranda um endurákvörðunina með bréfi, dags. 1. júlí 1992, og staðfesti þá ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 1. október 1992. Kvaðst skattstjóri ekki geta fallist á að kaup og sala kæranda á notuðum bifreiðum væru ekki í atvinnuskyni, enda væri hagnaður af þeirri starfsemi verulegur og fram væri komið að kærandi legði verulega vinnu og efni í viðgerðir og endurnýjun bifreiðanna. Samkvæmt framtalsgerð kæranda fyrir gjaldárið 1990, sbr. rekstrarreikning fyrir árið 1989, hefði kærandi haft með höndum bifreiðaviðskipti það ár. Ekki hefði því verið um það að ræða að kærandi hefði verið að byrja nýja starfsemi þegar hann var tekinn á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila frá 1. júní 1990. Hækkaði skattstjóri skattskylda veltu kæranda til virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 1990 um 693.150 kr. og útskatt um 169.822 kr. Jafnframt ákvarðaði hann kæranda álag að fjárhæð 33.964 kr., sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Kærandi hefur í svarbréfi og kæru til skattstjóra og í kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. október 1992, byggt andmæli sín á því að hann hefði átt fyrir uppgerða þá bifreið, sem seld hefði verið með mestum hagnaði, þ.e. bifreiðina Z, þegar hann hóf virðisaukaskattsskylda starfsemi í júní 1990. Hefði þar verið um einkabifreið að ræða sem hefði verið seld 9. ágúst 1990 til að fjármagna íbúðarkaup. Lúin bifreið hefði verið tekin upp í og notuð út árið. Aðrar bifreiðar hefðu verið keyptar og seldar með ágóðavon í huga, en hann hefði ekki litið svo á að þau viðskipti tengdust virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Samtals hagnaður af þeim viðskiptum hefði verið 233.150 kr. Hann hafi gert upp tæplega eina tjónabifreið á ári undanfarin ár án athugasemda af hálfu skattstjóra. Þá hefur kærandi sérstaklega mótmælt hinu ákvarðaða álagi og bendir hann í því sambandi á að hann hafi í engu leynt umræddum söluhagnaði, heldur hafi framtalsgerð verið með sama hætti og á fyrri árum.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 1993, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

II.

Svo sem áður er rakið færði kærandi hagnað af sölu bifreiða, þ.m.t. bifreiðarinnar Z, til tekna í rekstraryfirliti fyrir árið 1990, er fylgdi skattframtali hans árið 1991. Til gjalda í rekstraryfirlitinu eru m.a. færðir liðirnir „umskráningar og skoðun“ 17.150 kr. og „varahlutir og viðgerðir“ 213.527 kr. Á móti rekstrarhagnaði ársins færði kærandi ónotað rekstrartap frá fyrri árum. Hefur kærandi þannig miðað framtalsgerð sína við að kaup og sala notaðra bifreiða hafi talist til atvinnurekstrar hans, þó að undanskilinni bifreiðinni X. Er þetta í samræmi við framtalshátt kæranda á fyrri árum. Að hluta er um að ræða bifreiðar sem keyptar voru í tjónsástandi. Ekki er því skýrt haldið fram af hálfu kæranda í kæru til yfirskattanefndar að ekki beri að líta svo á að um sjálfstæða starfsemi sé að neinu leyti að ræða, þrátt fyrir framtalshátt í þessum efnum, en við meðferð málsins á skattstjórastigi kom það viðhorf hins vegar fram hjá kæranda, sbr. bréf hans, dags. 17. maí 1992. Eins og málið liggur fyrir þykir ekki varhugavert að telja nefnda starfsemi kæranda samþætta þeim verkstæðisrekstri er kærandi hafði með höndum á síðari hluta ársins 1990. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber að telja til virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda 80,32% mismunar söluverðs og kaupverðs þeirra tveggja bifreiða er kærandi aflaði sér til endursölu eftir að hann hóf hina skráningarskyldu starfsemi og seldi við verði er var hærra en kaupverð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en óumdeilt er að kæranda hafi verið heimilt að ákvarða skattverð eftir ákvæðum þeirrar greinar. Að öðru leyti er virðisaukaskattur er skattstjóri ákvarðaði kæranda vegna bifreiðaviðskipta felldur niður. Eigi þykja efni til að falla frá álagi skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Rétt er skattstjóra að taka áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1991 til endurákvörðunar í ljósi niðurstöðu úrskurðar þessa.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattsskyld velta kæranda árið 1990 lækkar um 505.884 kr. Útskattur tímabilið nóvember - desember 1990 lækkar um 123.942 kr. og álag vegna sama tímabils lækkar um 24.788 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja