Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld velta
  • Leiga veiðiheimilda

Úrskurður nr. 589/1994

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 7. gr. 1. mgr., 12. gr. 1. mgr. 6. tölul., 19. gr., 27. gr.   Lög nr. 3/1988, 3. gr., 12. gr.  

Í málinu krafðist kærandi, sem hafði með höndum útgerð rækjuveiðibáts, þess að hækkun skattstjóra á virðisaukaskattsskyldri veltu kæranda vegna viðskipta við rækjuvinnslustöð yrði felld niður. Byggði kærandi aðallega á því að svonefnd uppbót á rækjuverð, sem hann hafði fengið greidda eftir magni rækju sem hann lagði inn til vinnslunnar, hefði í raun verið vegna kvótaleigu. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að leiga veiðiheimilda hefði í skattframkvæmd verið talin undanþegin skattskyldri veltu. Á hinn bóginn hefði kærandi ekki sýnt fram á að um þess konar viðskipti hefði verið að ræða sem hann byggði kröfugerð sína á. Var í því sambandi vísað til þess að veiðiheimildir vegna rækju hefðu samkvæmt lögum verið bundnar við útgerðaraðila og yrði ekki séð að vinnslustöðvum hefði verið úthlutaður kvóti eða kvóti framseljanlegur til þeirra. Til vara byggði kærandi á því að enginn hefði notið innskatts af viðskiptunum og því væri um núlláhrif að ræða fyrir ríkissjóð. Um þetta vísaði yfirskattanefnd til ákvæðis 19. gr. laga nr. 50/1988 um skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti þrátt fyrir vanrækslu á innheimtu hans. Var kröfum kæranda um niðurfellingu því hafnað. Á hinn bóginn var fallist á kröfu kæranda um að miða hækkun skattskyldrar veltu við afreikningshlutfall. Einnig var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

I.

Kærandi hefur með höndum útgerð. Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. nóvember 1993, hefur umboðsmaður kæranda kært þá ákvörðun skattstjóra að hækka virðisaukaskatts­skylda veltu kæranda vegna uppgjörstímabilsins 16. nóvember - desember 1990 um 574.097 kr. og útskatt um 140.654 kr., auk álags 28.130 kr., sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 9. september 1993, og kæruúrskurð, dags. 15. október 1993. Skattstjóri hófst handa um endurákvörðun þessa í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 558/1992, þar sem ákvörðun hans sama efnis um virðisaukaskatt kæranda var hnekkt vegna annmarka á málsmeðferð. Endurákvörðun sína byggði skattstjóri á því að kærandi hefði vantalið virðisaukaskattsskylda veltu á nefndu uppgjörstímabili um fyrrgreinda fjárhæð vegna selds afla. Féllst hann ekki á það sjónarmið kæranda að um væri að ræða tekjur vegna kvótaleigu eða ígildi þess, sem undanþegnar væru virðisaukaskattsskyldri veltu. Kvað skattstjóri liggja fyrir í málinu að svonefndar uppbætur á rækjuverð væru hluti greiðslu til kæranda fyrir rækju sem hann hefði lagt inn hjá kaupanda. Yrði ekki séð hvernig greiðslurnar gætu jafngilt kvótaleigu þegar ekki hefði raunverulega verið um slík viðskipti að ræða. Til skattskyldrar veltu bæri að telja alla sölu eða afhendingu vöru eða skattskyldrar þjónustu sem fyrirtæki seldi eða framleiddi og eigandi tæki út til eigin nota.

Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 8. október 1993, og kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. nóvember 1993, að hann telur að líta beri á greiðslu uppbótar á rækjuverð sem kvótaleigu. Grundvöllur fyrir útreikningi þessarar greiðslu sé það aflamagn sem kærandi hafi lagt inn hjá viðkomandi framleiðanda. Hér sé því um að ræða greiðslu fyrir þann rækjukvóta sem lagður hafi verið til framleiðanda. Eru aðallega gerðar þær kröfur að fallið verði frá álagningu útskatts og álags. Til vara er þess krafist að litið verði til þess að um núlláhrif sé að ræða fyrir ríkissjóð þar sem enginn hafi notið innskatts af viðskiptunum. Til þrautavara er þess krafist að litið verði á viðbót við virðisaukaskattsskylda veltu sem brúttóupphæð og af henni verði því reiknaður 19,68% virðisaukaskattur.

Með bréfi, dags. 6. maí 1994, gerir ríkisskattstjóri þær kröfur fyrir hönd gjaldkrefjanda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

II.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort viðskipti kæranda við vinnslustöðina X hafi að öllu leyti verið vegna sölu afla eða að einhverju leyti falið í sér leigu veiðiheimildar, en við framkvæmd laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hefur slík leiga verið talin undanþegin skattskyldri veltu eftir ákvæðum 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laganna, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 6. nóvember 1990. Kærandi byggir kröfu sína á því að svonefnd uppbót á rækjuverð hafi í raun verið vegna kvótaleigu. Fyrir liggur að nefnd uppbót er þannig til komin að kærandi hefur fengið greidda til viðbótar almennu rækjuverði ákveðna krónutölu á hvert kíló af rækjuafla sem hann hefur lagt inn til vinnslustöðvarinnar. Eftir þeim lagaákvæðum er giltu á þeim tíma er málið varðar, sbr. lög nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, voru veiðiheimildir vegna rækju bundnar við útgerðaraðila, sbr. 3. og 12. gr. laganna. Ekki verður séð að vinnslustöðvum hafi verið úthlutaður kvóti eða að kvóti væri framseljanlegur til þeirra. Að þessu virtu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að um þess konar viðskipti hafi verið að ræða sem hann byggir kröfugerð sína á. Að svo vöxnu og með vísan til 2. ml. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, verður því talið að kæranda beri að telja umrædda greiðslu til skattskyldrar veltu eftir ákvæðum 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Er aðalkröfu kæranda um niðurfellingu útskatts því hafnað. Varakröfu kæranda er hafnað með vísan til 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem kveðið er á um að ef aðili vanrækir að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögunum þá beri honum eigi að síður að standa skil á skattinum. Þykir hins vegar mega fallast á þrautavarakröfu kæranda, eins og atvikum máls þessa er háttað. Ber því að afreikna virðisaukaskatt kæranda með 19,68%. Þá þykir mega fella niður álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. mgr. þeirrar lagagreinar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Þrautavarakrafa kæranda er tekin til greina. Álag fellur niður. Gjaldabreytingar tímabilið 16. nóvember - desember 1990 verða sem hér segir: Útskattur lækkar um 27.672 kr. og álag 28.131 kr. fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja