Úrskurður yfirskattanefndar

  • Launatekjur
  • Vaxtatekjur
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 608/1994

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. mgr., 30. gr. 1. mgr. B-liður 1. tölul., 60. gr. 2. mgr.  

Deilt var um hvort greiðsla frá vinnuveitanda kæranda, sem greidd var kæranda árið 1989 í tengslum við launaleiðréttingu fyrir árin 1981-1984, væru verðbætur og vextir vegna vangreiddra launa eða liður í launafjárhæð. Yfirskattanefnd taldi að umrædd launaleiðrétting á árinu 1989 hefði verið óvissar tekjur sem bæri að telja til tekna á því ári. Þar sem krafa kæranda til viðbótarlauna hefði fyrst stofnast á árinu 1989 yrði að líta á verðbætur á höfuðstól launafjárhæðar sem samkomulag um að gera kæranda jafnsettan og hefði hann upphaflega fengið laun í samræmi við þá túlkun kjaraviðmiðunar sem aðilar urðu loks ásáttir um. Yrði því að telja verðbætur þátt í launagreiðslu til kæranda. Hins vegar var fallist á það með kæranda að tilgreindir vextir í greiðslu til kæranda hefðu verið samningsvextir og að líta bæri á þennan þátt greiðslunnar sem vaxtatekjur en ekki sem hluta hinna uppgerðu launa.

I.

Málavextir eru þeir að rannsóknardeild ríkisskattstjóra tók á árinu 1991 til athugunar framtalsskil kæranda gjaldárið 1990 vegna tekjuársins 1989. Í skýrslu, dags. 28. júní 1991, um rannsóknina kom fram að kærandi hefði verið framkvæmdastjóri X. Samkvæmt launauppgjöf X hafi laun kæranda á árinu 1989 samtals verið 4.240.016 kr. og afdregin staðgreiðsla 1.757.784 kr. og var skattframtal kæranda í samræmi við það. Samkvæmt bókhaldi X hafi launagreiðslur til kæranda á árinu 1989 alls numið 8.682.832 kr. Þar af hafi laun ársins numið alls 3.735.691 kr., leiðrétting launa vegna áranna 1981-1984 504.325 kr., vextir á launaleiðréttingu fyrri ára 1.189.776 kr. og verðbætur á sama 3.253.040 kr. Einnig kom fram að skuld kæranda við X vegna fyrirfram greiddra launa hafi í ársbyrjun verið 1.138.522 kr. en í árslok 408.417 kr. og að hann hefði haft til frjálsra og ótakmarkaðra afnota bifreið í eigu X. Þau hlunnindi hefði hann ekki reiknað sér til tekna. Til 26. október 1989 var um að ræða bifreiðina S, sem í skattmati ríkisskattstjóra var metin til verðs með 960.000 kr. og árlegt hlunnindamat 20% þeirrar fjárhæðar eða 157.419 kr. fyrir notkunartímann. Frá 27. október var það bifreiðin T, matsverð 1.500.00 kr. og hlunnindamat fyrir notkunartímann 54.032 kr. Matsverð bifreiðahlunninda kæranda á árinu 1989 var því samtals 211.451 kr. Enn fremur kom fram í skýrslunni að kærandi hefði keypt á árinu 1989 bifreið af X fyrir 200.000 kr. og selt sömu bifreið fyrir 220.800 kr., en samkvæmt skattframtali keypti kærandi bifreiðina og seldi við sama verði. Í fylgiskjölum X hefðu ekki fundist eiginlegar launakvittanir frá kæranda heldur einungis kvittanir vegna úttekta upp í laun, en þær hefðu síðan verið færðar á viðskiptareikning kæranda við X.

Með bréfi, dags. 10. september 1991, sendi ríkisskattstjóri kæranda skýrslu rannsóknardeildarinnar og vakti athygli hans á að samkvæmt henni virtust launatekjur vantaldar um 4.442.816 kr., bifreiðahlunnindi vantalin um 211.451 kr. og söluhagnaður bifreiðar 20.800 kr. ótalinn á skattframtali kæranda 1990. Boðaði ríkisskattstjóri kæranda með vísan til skýrslunnar og niðurstaðna hennar að hann hygðist ákvarða kæranda þessar tekjur til viðbótar framtöldum tekjum og hækka álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1990 að teknu tilliti til álags skv. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri hratt boðaðri breytingu í framkvæmd hinn 14. nóvember 1991, en svar hafði ekki borist frá kæranda. Við breytinguna hækkaði tekjuskattsstofn kæranda í 10.083.850 kr.

Hinn 15. nóvember 1991 barst ríkisskattstjóra bréf kæranda, dags. 11. nóvember 1991. Var það tekið sem kæra. Kvað kærandi meintan mismun á skattframtali og launagreiðslum í raun skýrðan í skýrslu rannsóknardeildar. Hinn 17. febrúar 1989 hefði verið gert samkomulag milli sín og X um túlkun á munnlegu samkomulagi frá árinu 1984 um launakjör sín. Samkomulagið hefði verið á þá leið að kærandi skyldi njóta sömu kjara og framkvæmdastjóri Y nyti samkvæmt samningi frá 3. júní 1981. Hefðu laun kæranda verið færð til samræmis við samkomulagið á árinu 1984, en ágreiningur hefði verið um hvort leiðréttingin skyldi ná aftur til ársins 1981. Niðurstaða hefði fengist á árinu 1989. Vangreidd laun áranna 1981-1983 hefðu verið greidd með 504.325 kr. auk verðbóta og vaxta miðað við verðtryggð lánskjör, sbr. fylgiskjöl með skýrslu rannsóknardeildar. Kærandi hefði litið svo á að slíkar verðbætur og vextir væru ekki laun í skilningi laga. Benti kærandi á að hefði málið farið fyrir dómstóla hefðu launin augljóslega verið dæmd í samræmi við ofangreinda niðurstöðu auk vaxta, sem ekki hefðu verið taldir laun. Krafðist hann því að framtal sitt yrði látið standa óbreytt hvað þetta varðaði. Kærandi tók fram að hann gerði ekki athugasemd við boðaða skattlagningu bifreiðahlunninda og söluhagnaðar með álagi. Bréfinu fylgdi ráðningar- og kjarasamningur framkvæmdastjóra Y, dags. 3. júní 1981, og staðfesting stjórnar X, dags. 17. febrúar 1989, þess efnis að kærandi skyldi njóta sömu kjara og greindi í þeim samningi frá sama tíma.

Með kæruúrskurði, dags. 25. febrúar 1992, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda og benti á að ekki skipti máli varðandi eðli greiðslunnar að hún teldist laun þótt aðferðin við að ná fram því, sem telja mætti rétta launagreiðslu, styddist við verðbóta- og vaxtaútreikning.

Kærandi skaut kæruúrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. apríl 1992. Í greinargerð, dags. 19. maí 1992, kemur fram að vegna fjarvista hafi ekki verið unnt að senda kæru á tilsettum tíma, en það hafi verið gert 8. apríl 1992. Krefst kærandi þess að endurálagning vegna vaxta- og verðbótatekna sökum gjaldfallinnar vinnulaunakröfu verði felld niður. Mótmælir kærandi því að vextir og verðbætur á vangreidd laun skuli talin til launatekna, en allir viti að eðlilegt sé talið að vextir og verðbætur séu reiknuð á gjaldfallnar kröfur. Vísar hann í því sambandi til dóms í dómasafni Hæstaréttar 1989, bls. 1427, þar sem manni hafi verið dæmd laun auk vaxta og dráttarvaxta frá 22. nóvember 1986. Detti honum ekki í hug að skattyfirvöld hafi leyft sér að telja að vextir þessir væru laun í skilningi skattalaga þar sem Hæstiréttur segi skýrum orðum að um vexti sé að ræða og telur málið hliðstætt sínu máli þótt samkomulag hafi náðst um kröfuna en ekki gengið dómur um hana.

Með bréfi, dags. 12. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist staðfestingar á úrskurði sínum með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið að þau gefi tilefni til breytinga á úrskurði sínum.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Eftir öllum atvikum þykir rétt að taka kæruna til efnisúrlausnar.

Ágreiningurinn í máli þessu snýst um það hvort tilgreindar verðbætur 3.253.040 kr. og vextir 1.189.776 kr. eigi að teljast kæranda til skattskyldra tekna á þeim grundvelli að greiðslur þessar séu liður í launum kæranda vegna þeirrar launaleiðréttingar sem í málinu greinir og fór fram á árinu 1989 og greiðslur þessar voru inntar af hendi ásamt 504.325 kr. sem kærandi telur eina launaþáttinn vegna leiðréttingar þessarar og fellst á að komi til skattlagningar. Ljósrit skriflegs samkomulags kæranda og vinnuveitanda hans, dags. 17. febrúar 1989, liggur fyrir í málinu og er þar vísað til þess að samkomulag þetta byggi á munnlegu samkomulagi aðilanna frá því á árinu 1984 um að kærandi nyti sömu kjara frá sama tíma og fram kæmi í kjarasamningi milli framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórnar Y frá 3. júní 1981. Ekki liggur fyrir sérstakt uppgjör milli aðila vegna þessarar launaleiðréttingar, en hinar tilgreindu fjárhæðir og skipting á einstaka liði, þ.e. laun, verðbætur og vexti, eru í samræmi við færslur í bókhaldi vinnuveitanda kæranda, sbr. fylgiskjöl með skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 1991. Þar kemur og fram að hin tilgreinda launafjárhæð 504.325 kr. er talin vangoldin laun áranna 1981-1983 á verðlagi þess tíma. Af hálfu kæranda hefur fram komið, sbr. bréf hans til ríkisskattstjóra, dags. 11. nóvember 1991, að laun hans hafi verið færð til samræmis við samkomulag þetta á árinu 1984 en hins vegar hafi verið ágreiningur um hvort leiðréttingin ætti að ná aftur til ársins 1981 og hafi niðurstaða loks fengist um það á árinu 1989. Samkvæmt þessu liggur fyrir að umrædd krafa kæranda um launaleiðréttingu hefur verið vefengd af hálfu vinnuveitanda kæranda og botn loks fengist í málið 1989. Af þessum sökum verður að telja að launaleiðrétting sú sem kærandi fékk greidda á árinu 1989 hafi verið óvissar tekjur, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og beri því að telja til tekna á því ári. Ekki verður annað séð en kærandi hafi litið sjálfur svo á, enda hefur hann ekki farið fram á að hin tilgreinda launafjárhæð yrði talin til tekna á þeim árum sem hún er talin stafa frá, þ.e. árunum 1981-1983. Kemur þá til skoðunar hvað af hinni greiddu fjárhæð vegna launaleiðréttingar beri að telja sem laun.

Samkvæmt gögnum málsins voru verðbætur reiknaðar á höfuðstól þeirra launaviðbóta samtals að fjárhæð 504.325 kr. sem fallist var á að kærandi ætti rétt á og var nefnd fjárhæð miðuð við launaviðbætur á verðlagi áranna 1981, 1982 og 1983 samkvæmt skiptingu hennar á þessi ár sem fram kemur í málinu. Var fjárhæðin framreiknuð til greiðsluárs 1989 miðað við lánskjaravísitölu. Ekki liggur fyrir í málinu neitt samkomulag milli kæranda og vinnuveitanda hans um þetta uppgjör og útreikning. Krafa kæranda var vefengd eins og fyrr segir og verður ekki talið að hún hafi verið í gjalddaga fallin á umræddum árum, enda hefði þá væntanlega komið til dráttarvaxtareiknings ef svo hefði verið, sbr. nú 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja að það hafi verið fyrst á árinu 1989, þegar samkomulag náðist milli kæranda og vinnuveitanda hans í ágreiningsmáli um túlkun á munnlegu samkomulagi frá 1984, að krafa kæranda til viðbótarlaunanna stofnaðist. Í samræmi við það verður að líta á verðbætur á höfuðstól launafjárhæðarinnar sem samkomulag um að gera kæranda jafnsettan og hefði hann fengið laun þegar í upphafi í samræmi við þá kjaraviðmiðun sem aðilar urðu loks ásáttir um túlkun á. Samkvæmt þessu verður að telja umræddar verðbætur þátt í launagreiðslu til kæranda og því skattskyldar tekjur kæranda skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Með sömu rökum og greinir hér að framan varðandi launafjárhæðina sem slíka ber að telja verðbætur þessar kæranda til tekna á greiðsluári.

Þá fékk kærandi greidda vexti á árinu 1989 að fjárhæð 1.189.776 kr. vegna umræddrar launaleiðréttingar og hefur ríkisskattstjóri litið svo á að vextir þessir væru hluti af launum kæranda. Kærandi hefur ekki gert sérstaka grein fyrir vaxtareikningi þessum og ekki liggur fyrir í málinu neitt samkomulag kæranda og vinnuveitanda hans um hann. Samkvæmt gagni því um vaxtareikning þennan, sem liggur fyrir í málinu, sbr. fylgiskjal með skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 1991, virðist vaxtareikningurinn hafa verið miðaður við vexti af verðtryggðum útlánum. Verður að telja að hér hafi verið um samningsvexti að ræða milli kæranda og vinnuveitanda hans sem tekist hafi samkomulag um á árinu 1989 í sambandi við lausn ágreiningsins þeirra í millum um uppgjör launakröfu kæranda. Eftir öllum atvikum þykir ekki varhugavert að fallast á það með kæranda að líta beri á þennan þátt greiðslunnar sem vaxtatekjur en ekki sem hluta hinna uppgerðu launa. Er krafa kæranda því tekin til greina um þetta atriði, en vaxtaútreikningurinn sem slíkur hefur ekki sætt sérstökum athugasemdum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Stofn til álagningar tekjuskatts og útsvars gjaldárið 1990, lækkar um 1.189.776 kr. auk 25% álags á þá fjárhæð 297.444 kr. eða samtals um 1.487.220 kr

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja