Úrskurður yfirskattanefndar
- Teknategund
- Forðagæslumaður
Úrskurður nr. 630/1994
Gjaldár 1991 og 1992
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. og B-liður Lög nr. 31/1973, X. kafli
Með því að mælt var fyrir um forðagæslu í búfjárræktarlögum nr. 31/1973, þar á meðal um að þóknun fyrir hana skyldi greidd úr sveitarsjóði, um skyldu hvers hrepps til að halda forðagæslumann og um lágmarksskylduverk forðagæslumanns, var ekki fallist á að þóknun kæranda frá sveitarfélagi fyrir störf hans við forðagæslu á þess vegum væru tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í skilningi B-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 2. desember 1992, krafði skattstjóri kæranda m.a. um nánari upplýsingar um verktakagreiðslur frá X-bæ 30.000 kr. á árinu 1990 og 33.000 kr. á árinu 1991. Jafnframt boðaði hann kæranda auk annars að fyrirhugað væri að fella niður uppsafnað tap að fjárhæð 380.869 kr. samkvæmt landbúnaðarskýrslu með skattframtali gjaldársins 1992 þar sem ekki yrði fallist á að hrossaeign hans teldist atvinnurekstur. Í bréfi, dags. 10. desember 1992, upplýsti umboðsmaður kæranda að umspurðar greiðslur væru vegna landbúnaðarstarfa, þ.e. forðagæslu o.fl., og þar með færðar á landbúnaðarskýrslu eins og augljóst mætti vera. Þá mótmælti hann útstrikun á geymdum rekstrarhalla á landbúnaðarskýrslu nema því væri lýst yfir skriflega að tekjur af landbúnaði hans, hve háar sem þær kynnu að verða vegna sölu o.þ.h., yrðu taldar undanþegnar skatti með öllu.
Með bréfi, dags. 22. desember 1992, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að færa fyrrgreindar verktakagreiðslur frá X-bæ á skattframtöl hans 1991 og 1992 þar sem ekki væri heimilt að færa þær til tekna á landbúnaðarframtali. Í því sambandi gaf skattstjóri kæranda kost á að senda inn rekstrarreikninga vegna umræddra greiðslna ásamt kostnaðarnótum þeim til staðfestingar. Þá hafnaði skattstjóri mótmælum af hálfu kæranda gegn niðurfellingu á geymdum rekstrarhalla á landbúnaðarframtali hans og myndi því boðuð breyting standa. Í bréfi, dags. 4. janúar 1993, krafðist umboðsmaður kæranda þess að verktakagreiðsla frá Blönduósbæ, sem væri svo nátengd starfsemi hans við landbúnað, yrði óbreytt á landbúnaðarframtali en til vara fór hann fram á að helmingur þessara greiðslna yrði skoðaður sem endurgjald fyrir bílaafnot. Þá voru fyrri mótmæli við útstrikun á uppsöfnuðum rekstrarhalla af landbúnaði ítrekuð. Í málinu liggur fyrir bréf, dags. 21. desember 1992, þar sem annars vegar kærandi skýrir frá því að hann hafi fyrir mistök hent öllum gögnum sínum vegna skattframtals 1991 og hins vegar umboðsmaður hans staðfestir m.a. að hann hafi unnið skattframtal kæranda 1991 og að öll gögn hefðu þá verið til staðar.
Með bréfi, dags. 22. febrúar 1993, tilkynnti skattstjóri kæranda að skattframtölum hans gjaldárin 1991 og 1992 hefði verið breytt á þann veg að fyrrnefndar verktakagreiðslur hefðu verið færðar til tekna á aðalframtal þar sem ekki væri fallist á aðalkröfu hans en fallist væri á að lækka þær um 10.000 kr. hvort ár. Hækkaði tekju- og útsvarsstofn kæranda fyrra árið um 20.000 kr. og síðara árið um 23.000 kr. Með kæru til skattstjóra, dags. 3. mars 1993, mótmælti umboðsmaður kæranda því að röksemdir hans í bréfum frá 10. og 21. desember 1992 og 4. janúar 1993 væru ekki teknar til greina varðandi verktakagreiðslur til kæranda frá X-bæ. Breytingin væri órökstudd og því væri það krafa hans að endurákvörðun álagðra gjalda kæranda og maka árin 1991 og 1992 yrðu felldar niður.
Með kæruúrskurði, dags. 15. mars 1993, tók skattstjóri kæruna til svofelldrar úrlausnar:
„Eins og fram kom í svarbréfi skattstofu dags. 22/12 1992 er ekki heimilt að færa verktakagreiðslu fyrir forðagæslu til tekna á landbúnaðarframtali. Var yður gefinn kostur á að senda inn rekstrarreikninga fyrir áðurnefndum greiðslum ásamt kostnaðarnótum, sem þér hafið ekki sinnt. Kæran því ekki tekin til greina samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981 (sic).“
II.
Með kæru, dags. 13. apríl 1993, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og boðaði frekari rökstuðning síðar sem hann hefur lagt fram með bréfi, dags. 2. júlí 1993. Er þess krafist að kæruúrskurði skattstjóra verði hnekkt og upprunaleg meðferð umræddra tekna verði staðfest. Er til þess vísað að það hafi verið venja að kjósa til forðagæslu menn sem stundi einhverja tegund landbúnaðar, sbr. meðfylgjandi bréf, dags. 19. apríl 1993, frá X-bæ, sem þá leiði af sér að þessar tekjur myndist aðeins vegna rekstrar hans. Í tilvísuðu bréfi X-bæjar staðfestir bæjarstjórinn að beiðni kæranda að forðagæslumenn á vegum bæjarins, áður hreppsins, hafi ávallt verið skipaðir úr röðum þeirra sem stundi einhvern landbúnað, aðallega sauðfjárrækt eða hrossarækt.
Með bréfi, dags. 30. júlí 1993, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Upplýst er af hálfu kæranda að umræddar greiðslur frá X-bæ eru þóknun fyrir störf hans sem forðagæslumaður sveitarfélagsins. Um forðagæslu er mælt fyrir í X. kafla búfjárræktarlaga nr. 31/1973. Er þar meðal annars kveðið á um að í hverjum hreppi skuli vera forðagæslumaður, hver séu verkefni hans og að sveitarstjórn semji um þóknun fyrir forðagæslu sem greiðist úr sveitarsjóði. Þá kemur fram, sbr. 55. gr. laganna, að forðagæslumanni er ætlað að fara minnst tvær ferðir um umdæmi sitt til eftirlits vetur hvern. Að þessu virtu verður ekki talið að umræddar tekjur séu tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í skilningi B-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem byggt er á af hálfu kæranda. Með þessum athugasemdum er kröfu kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.