Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Fæðingarorlof
  • Persónuafsláttur

Úrskurður nr. 637/1994

Gjaldár 1992

Lög nr. 75/1981, 3. gr. 2. tölul., 71. gr. 2. tölul. 3. mgr.  

Kærandi dvaldi hluta ársins 1991 í Danmörku en hafði á þeim tíma engar tekjur aðrar en fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins. Talið var að kæranda bæri persónuafsláttur fyrir þann tíma sem hún dvaldi erlendis til frádráttar tekjuskatti og eftir atvikum útsvari af fæðingarorlofsgreiðslunum.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi kærði álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1992 með ódagsettri kæru sem móttekin var hjá skattstjóra hinn 10. september 1992 samkvæmt áritun hans um móttöku kærunnar. Var gerð krafa um leiðréttingu á persónuafslætti gjaldárið 1992. Kom fram að kærandi starfaði ... hjá X hf. Hún hefði flutt til Danmerkur ásamt dönskum eiginmanni sínum í nóvember 1990 á meðan hún var í fæðingarorlofi en flutt aftur til Íslands í maí 1991. Hefði hún hvorki haft tekjur í Danmörku þann tíma sem hún dvaldi þar, né átt rétt á fæðingarorlofi þar. Kvað hún skattyfirvöld í Danmörku senda gögn til staðfestingar skýringum sínum. Hún hefði áunnið sér rétt til fæðingarorlofs á Íslandi og því hefði hún lagt skattkort sitt inn hjá Tryggingastofnun ríkisins og fengið greiðslur frá 1. janúar til 30. júní 1991.

Með kæruúrskurði, dags. 23. október 1992, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Tók hann fram að kærandi hefði verið búsett í Danmörku til 12. maí 1991 samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Álagningu hefði verið hagað samkvæmt ákvæði 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um skattútreikning manna sem heimilisfastir væru hér á landi hluta úr ári. Gögn sem boðuð hafi verið að myndu koma frá Danmörku hafi ekki borist og ekki lægju fyrir í málinu rök sem heimiluðu veitingu skattalegrar heimilisfesti á Íslandi allt árið 1991.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 21. nóvember 1992. Eru fyrri skýringar áréttaðar en auk þess fylgir kærunni m.a. ljósrit af álagningarseðli kæranda frá Danmörku og bréf danskra skattyfirvalda þar sem fram kemur að kærandi sé ekki talin skattskyld í Danmörku vegna umræddra tekna.

Með bréfi, dags. 19. maí 1993, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu allir menn sem njóta frá íslenskum aðilum lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Í 3. mgr. 2. tl. 71. gr. sömu laga er kveðið á um að tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega, sem um ræðir í 2. tl. 3. gr. laganna, skuli reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1. tl. 1. mgr. 67. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar skv. A-lið 68. gr. Persónuafsláttur skuli í þessum tilvikum einungis dragast frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skuli ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum.

Kærandi dvaldi í Danmörku frá 16. október 1990 til 12. maí 1991. Hún fæddi barn sitt þar í landi þann 15. janúar 1991. Kærandi fékk greiddan fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 1991 að fjárhæð 325.261 kr. Fyrir liggur að dönsk skattyfirvöld hafa ekki skattlagt hana vegna þessara tekna, enda telja þau að þær séu skattskyldar á Íslandi. Virðist sú niðurstaða byggjast á 18. gr. Norðurlandasamnings til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 19/1989. Kærandi hafði ekki tekjur í Danmörku á þeim tíma sem hún dvaldi þar.

Um fæðingarorlof eru ákvæði í lögum nr. 57/1987. Um greiðslur í fæðingarorlofi fór eftir 16. og 26. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 67/1971, sbr. lög nr. 59/1987. Með vísan til 3. mgr. 2. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981 verður því að telja að kæranda beri persónuafsláttur fyrir þann tíma sem hún dvaldi í Danmörku á árinu 1991 til frádráttar tekjuskatti og eftir atvikum útsvari af fæðingarorlofsgreiðslu þeirri sem hún fékk. Er því fallist á kröfu hennar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja