Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 257/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr.   Reglugerð nr. 79/1988 — II. kafli  

Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Úthaldsdagar — Trilluútgerð — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Kærufrestur — Vítaleysisástæður — Leiðrétting — Leiðrétting álagningar — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Álagningarmeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru

Málavextir eru þeir, að kærandi starfaði við sjómennsku hjá A, B, og C á árinu 1988 og voru sjómennskudagar samkvæmt launauppgjöf þessara aðila tilgreindir 160. Þá hafði kærandi með höndum útgerð trillunnar X og var úthaldstímabil tilgreint 1. maí 1988 til 30. september 1988. Í skattframtal sitt árið 1989 færði kærandi í reit 9.2 145 daga sem lögskráða daga og aðra daga við sjómannsstörf tímabilið 1. janúar 1988 til 30. júní 1988 og í reit 9.3 170 slíka daga tímabilið 1. júlí 1988 til 31. desember 1988. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var kæranda ekki ákvarðaður neinn sjómannaafsláttur, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt, með síðari breytingum.

Með kæru, dags. 21. september 1989, fór umboðsmaður kæranda fram á leiðréttingu álagningar „þar sem niður hefur fallið að taka tillit til skráningardaga á sjó, sem upp eru gefnir á framtali: tímab. 1.1.-30.6. 145 dagar, tímab. 1.7.-31.12. 165 dagar, laun alls vegna sjómennsku kr. 785.363.-“. Tekið var fram, að ekki hefði tekist að kæra innan kærufrests vegna fjarveru kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 7. október 1989, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint framkominni. Kærufrestur hefði runnið út 29. ágúst 1989, en kæran, sem dags. væri 21. september 1989, hefði borist 25. s.m.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. október 1989, og er farið fram á, að kæran fái efnismeðferð með vísan til framkominna skýringa á því, að ekki var kært í tæka tíð til skattstjóra. Efnislega er krafist sjómannaafsláttar til handa kæranda, enda liggi í augum uppi, að kærandi eigi rétt á honum.

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur enda hafi ekki komið fram viðhlítandi skýring á því, að kærufrestur til skattstjóra var ekki nýttur.

Kærandi fór fram á leiðréttingu álagningar gjaldárið 1989, þar sem fallið hafði niður að ákvarða honum sjómannaafslátt, sem honum bar augljóslega réttur til, og álagningin, því að þessu var leyti röng. Þessi beiðni varðaði því efni, er skattstjóra hefði borið að hlutast til um leiðréttingu á af sjálfsdáðum eða við kæru, þótt hún kæmi eigi fram fyrr en að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Var því eigi rétt af skattstjóra að vísa kærunni frá. Að þessu virtu og eftir atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar fyrir ríkisskattanefnd. Fallist er á kröfu kæranda um sjómannaafslátt á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja af hans hálfu, er engum andmælum hafa sætt. Samkvæmt þessu verður sjómannaafsláttur kæranda 132.420 kr. gjaldárið 1989.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja