Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 682/1994
Lög nr. 75/1981, 58. gr. 1. mgr., 96. gr. 5. mgr. (brl. nr. 111/1992, 16. gr.), 102. gr. A (brl. nr. 111/1992, 19. gr., og nr. 122/1993, 13. gr.), 108. gr. 1. mgr. Lög nr. 30/1992, 22. gr. 1. mgr.
Kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun skattsektar á hendur A hf. var vísað frá yfirskattanefnd þar sem mál A hf. hafði ekki sætt sjálfstæðri rannsókn af hálfu skattrannsóknarstjóra. Kom fram að skattrannsóknarstjóra hefði verið rétt að hefja skattrannsókn í máli A hf. til undirbúnings refsimeðferð þótt það hefði að öðru leyti fengið úrlausn hjá skattstjóra.
I.
Með bréfi, dags. 17. janúar 1994, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A hf., Reykjavík. Kemur fram í bréfinu að af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði málinu ekki vísað til opinberrar rannsóknar hjá rannsóknarlögreglu ríkisins nema ef fyrirsvarsmenn skattaðilans vilja ekki hlíta því að mál hans verði afgreitt af yfirskattanefnd samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, sbr. 2. mgr. 108. gr. sömu laga.
Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins er svofelld greinargerð:
„Málavextir eru þeir að hinn 5. janúar 1994, sendi skattstjórinn í Reykjavík skattrannsóknarstjóra ríkisins bréf, samkvæmt 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 111/1992. Bréfinu fylgdi greinargerð, dags. 5. janúar 1994, um viðskipti skattaðila og X hf. á árinu 1992. Fylgir greinargerð skattstjóra með bréfi þessu.
Samkvæmt greinargerð skattstjórans í Reykjavík er upphaf málsins að rekja til þess að við skoðun skattstjóra á skattframtali hlutafélagsins X, fyrir gjaldárið 1993, þótti rekstrarreikningur félagsins vera óeðlilegur í heild sinni. X hf. er nýtt heiti á eldra félagi, en félagið hét áður Y hf. Félagið hafði hætt rekstri fyrir mörgum árum. Ónotað rekstrartap X hf. frá fyrri árum nam kr. 12.817.550 við framtalsgerð 1993. Í lok árs 1991 keypti skattaðili öll hlutabréf í X hf. Við kaupin var lögheimili hlutafélagsins X flutt að S-götu í Reykjavík, en skattaðili er þar einnig til húsa. Samkvæmt greinargerð skattstjóra var enginn starfsmaður skráður launþegi hjá X hf. á árinu 1992.
Samkvæmt rekstrarreikningi X hf. sem fylgdi skattframtali vegna ársins 1992, var rekstur félagsins á árinu 1992 eftirfarandi:
...
Í bréfi, dags. 16. ágúst 1993, sem skattstjóri sendi X hf. á grundvelli 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og 38. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, var óskað eftir gögnum og skýringum vegna tiltekinna liða skattframtals félagsins árið 1993 og um virðisaukaskatt fyrir árið 1992. Svarbréfi umboðsmanns félagsins, dags. 25. ágúst 1993, fylgdu umbeðin gögn. Þar var um að ræða afrit fjögurra reikninga, útgefnum af skattaðila á árinu 1992, og kaupandi tilgreindra vara á reikningunum er X hf. Þá fylgdi einnig afrit fimm sölureikninga X hf. til annarra aðila. Yfirlit yfir seldar vörur X hf. á árinu 1992 er samkvæmt gögnunum eftirfarandi:
...
Í framhaldi af þessum bréfaskiptum og upplýsingum sendi skattstjóri skattaðila bréf, dags. 27. ágúst 1993, á grundvelli 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, og 38. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Í bréfinu var óskað eftir gögnum og skýringum skattaðila á nánar tilgreindum atriðum í skattframtölum félagsins árin 1992 og 1993. Þar á meðal var óskað skýringa á kaupum skattaðila á hlutabréfum í X hf. Einnig óskaði skattstjóri eftir að tilgreindar væru ástæður að baki viðskiptunum milli skattaðila og X hf. sem fram koma á áður tilvitnuðum fjórum reikningum skattaðila til X hf.
Svar barst frá skattaðila dags. 24. september 1993, undirritað af framkvæmdastjóra og endurskoðanda. Þar segir um ástæður viðskipta skattaðila og X hf.: „Ástæður viðskipta A hf. og X hf. eru fyrst og fremst þær að A hf., aðaleigandi X hf. er með viðskiptunum að nýta sér það skattalega hagræði sem felst í því að X hf. á yfirfæranleg skattaleg rekstrartöp frá fyrri árum. Vegna tengsla þessara félaga var það ákvörðun stjórnenda A hf. að selja vörurnar með afslætti til X hf.“
Með bréfi skattstjórans í Reykjavík, dags. 12. október 1993, var skattaðila boðuð endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 1992 og 1993, í samræmi við áformaðar breytingar á framtalsgerð þeirra ára og vísaði skattstjóri í því sambandi til 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Fyrirhugað væri ennfremur að bæta 25% álagi á þá hækkun skattstofna sem af hinum áformuðu breytingum leiddu, skv. 106. gr. sömu laga. Skattaðila var veittur 10 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar breytingar eða gefa skýringar.
Andmælin bárust frá umboðsmanni skattaðila í bréfi dags. 20. október 1993. Í bréfinu koma fram mótmæli umboðsmanns skattaðila við hækkun tekna að fjárhæð kr. 6.123.346 (sic) í framtali 1993, vegna viðskipta skattaðila og X hf. Í bréfi umboðsmanns skattaðila segir m.a. um viðskipti skattaðila og X hf.: „Undirritaður vill andmæla fyrirhugaðri hækkun tekna um 6.123.346. Á árinu 1992 seldi A hf. vörur til X hf. eins og vörureikningar vitna um. Í þessum viðskiptum ber að líta á A hf. sem heildsala, sem selur vörur til X hf., sem smásala. X hf. seldi vörurnar til nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja eins og reikningar sýna og er X hf. því seljandi umræddra vara gagnvart kaupendum þeirra. Á það þykir mega fallast að eðlilegt verði að telja að A hf. hafi e-a heildsöluálagningu. Með vísan til þessa óskar undirritaður eftir fyrir hönd umbjóðanda míns að helmingur ágóðans af viðskiptunum skattleggist hjá A hf. eða kr. 3.061.673, en sama fjárhæð færist X hf. til tekna.“
Skattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld skattaðila gjaldárin 1992 og 1993 með úrskurði dags. 17. nóvember 1993. Vegna viðskipta skattaðila og X hf. tiltók skattstjóri eftirfarandi: „Með (sölu) samningi yðar við félagið X hf. semjið þér um skipti yðar og X hf. á hátt sem er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Almennt semja menn ekki um skipti sín í fjármálum eins og þér gerið í skiptum yðar við X hf. (þ.e. að eini tilgangur með viðskiptum yðar og X hf. er að nýta yfirfæranlegt rekstrartap X hf.) Sömu eigendur eru að hlutafélaginu X hf. og félagi yðar. Þau verðmæti sem hefðu runnið til yðar, en gera það ekki vegna ofangreinds samnings yðar og X hf., hefðu numið kr. 6.124.346 (þ.e. hagnaður af sölu þeirra vara sem þér seljið X hf.) M.ö.o. þá látið þér X hf. „taka á sig álagningu yðar“ á útseldar vörur yðar og komist þar með hjá skattlagningu sbr. 7. gr. laga nr. 75/1981 af hluta af sölu yðar á árinu 1992.“
Í umfjöllun skattstjóra um andmæli umboðsmanns skattaðila við fyrirhugaða lækkun tekna vegna viðskipta skattaðila við X hf., segir skattstjóri í úrskurðinum: „Ekki er á nokkurn hátt hægt að fallast á ofangreinda kröfu yðar. Viðskipti yðar og Y hf. (X hf.) byggja á allt öðrum grunni en hefðbundnum viðskiptum. Tilgangur með viðskiptum yðar og Y hf. (X hf.) byggja á þeim grunni að komast hjá skattlagningu. Að gera ráð fyrir að skattstjóri „hjálpi“ yður að komast hjá slíkri skattlagningu er út í hött. Í framhaldi af ofansögðu hefur skattstjóri ákveðið að hækka skattskyldar tekjur yðar í framtali 1993 um kr. 6.124.346, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981.“
Með úrskurði skattstjóra var skattaðila því gert að sæta hækkun á tekjuskattsstofni gjaldárið 1993, vegna viðskipta við X hf. Nam sú hækkun kr. 6.124.346 að viðbættu 25% álagi, kr. 1.531.086. Samtals var því hækkun skattstofna vegna viðskipta skattaðila við X hf. kr. 7.655.432.
Skattaðili undi þessum úrskurði skattstjóra og kærði ekki álagðar breytingar. Skattendurákvörðunarþætti máls þessa er því lokið af hálfu skattstjóra.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að með viðskiptum skattaðila og X hf., þ.e. sölu skattaðila á vörum til X hf. að fjárhæð kr. 8.787.745 (án vsk), komst skattaðili hjá skattlagningu hagnaðar af sölu varanna til X hf. samkvæmt 7. gr., sbr. 58. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þau verðmæti sem til skattlagningar hefðu komið hjá skattaðila, en gerðu ekki vegna viðskipta við X hf., námu kr. 6.124.346. Er viðurkennt af framkvæmdastjóra og endurskoðanda skattaðila að tilgangur viðskipta skattaðila og X hf. var að nýta yfirfæranlegt rekstrartap X hf.
Telja verður að framangreint brot fyrirsvarsmanna skattaðila varði skattaðila sektum samkvæmt 1., sbr. 5. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum.
Með vísan til málavaxta í heild sinni, þ.m.t. bréfaskipta skattstjóra og skattaðila, úrskurðar skattstjóra og viðurkenningu fyrirsvarsmanna skattaðila á tilgangi viðskiptanna, m.t.t. tengsla skattaðila og X hf., þ.e. sömu eigendur eru að báðum félögunum, þykir verða að krefjast þess að skattaðila verði gert að sæta sekt fyrir brot sitt. Er þess hér með krafist að yfirskattanefnd taki mál þetta til úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum og 22. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd með áorðnum breytingum. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er þess krafist að skattaðilanum verði gerð sekt samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
Á það skal bent að kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins um sekt á hendur skattaðila, lýtur einungis að þeim hluta máls skattaðila sem snýr að viðskiptum skattaðila við X hf.
Mál skattaðila var sent skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi skattstjóra, dags. 5. janúar 1994, á grundvelli 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum. Eftir skoðun málsins hjá embættinu þótti ekki ástæða til frekari aðgerða embættisins við rannsókn málsins. Verður líka að telja þann þátt málsins sem kröfugerð þessi lýtur að, að fullu upplýstan af hálfu skattstjóra með bréfaskiptum skattstjóra og skattaðila, án þess að skattrannsókn hafi farið fram, enda skattstjóri ekki bær aðili til þess. Er kröfugerð þessi því sett fram án þess að formleg rannsókn málsins samkvæmt 102. gr. A laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, hafi farið fram hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Verður heldur ekki séð að slík málsmeðferð sé í andstöðu við ákvæði laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 1994, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hefur umboðsmaður hans skilað vörn í málinu, dags. 7. mars 1994. Er þess krafist að öll sektarmeðferð málsins verði látin niður falla. Er svofelld grein gerð fyrir kröfu þessari:
„Umbjóðandi minn telur að málið sé að fullu upplýst og sér ekki ástæðu til þess að leggja fram frekari gögn en þegar hafa verið lögð fyrir yfirskattanefnd af hálfu skattrannsóknarstjóra.
Tildrög þessa máls eru í stuttu máli þau að umbjóðandi minn seldi tilteknar vörur til X hf. sem er dótturfyrirtæki umbjóðanda míns. Umbjóðandi minn taldi að þessi viðskipti væru eðlileg, m.a. með tilliti til þess að í sumum tilvikum var um það að ræða að vörurnar voru sendar beint frá erlendum framleiðendum til erlendra kaupenda án þess að þær kæmu nokkru sinni hingað til lands.
Við meðferð þessa máls verður að líta til þess að hér á landi ríkir almennt frelsi í viðskiptum, þ.á m. geta fyrirtæki hagað viðskiptum sín á milli með þeim hætti sem hagkvæmastur getur talist fyrir þau. Samkvæmt 7. tölulið 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt má draga eftirstöðvar rekstrartapa frá tekjum í atvinnurekstri og er algegnt að fyrirtæki taki tillit til þessarar reglu í rekstri sínum og viðskiptum. Umbjóðandi minn taldi sér þess vegna heimilt að haga viðskiptum sínum við X hf. með þeim hætti, sem lýst er í framlögðum gögnum í málinu, enda telur hann þau viðskipti ekki „verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum“, svo að vitnað sé til 58. greinar laga nr. 75/1981. Í því sambandi skal þess getið að rekstrartap X hf. frá fyrri árum kemur skýrt fram í skattframtali fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 1991.
Þótt umbjóðandi minn væri ekki sammála þeirri niðurstöðu skattyfirvalda að endurákvarða skatta hans vegna fyrrgreindra viðskipta og gera honum að auki að greiða 25% álag af því tilefni sætti hann sig við þessa ákvörðun. Með því móti féllst hann á viðurlög, sem vissulega felast í 25% álagi á hina endurákvörðuðu skatta, og taldi þar með að málinu væri lokið. Það skal hins vegar áréttað, til þess að taka af allan vafa, að þetta jafngilti ekki því að umbjóðandi minn viðurkenndi að skattyfirvöld hefðu rétt fyrir sér.
Í 1. málsgrein 107. gr. laga nr. 75/1981 er það skilyrði fyrir því að skattaðila verði ákvörðuð refsing að hann hafi skýrt „rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt hans“ og slíkt hafi hann gert „af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi“. Ekki er með fullu ljóst hvernig skýra beri hugtakið „stórkostlegt hirðuleysi“ í þessu sambandi, en væntanlega er hér átt við það að skattaðili hefði mátt gera sér það ljóst að um rangar eða villandi upplýsingar væri að ræða.
Í því máli, sem hér er til úrlausnar, er hvorki fullnægt þeim hlutlægu og huglægu refsiskilyrðum sem að framan eru greind. Í fyrsta lagi voru þær upplýsingar, sem fram komu á skattframtölum umbjóðanda míns og dótturfyrirtækis hans, X hf., sannleikanum samkvæmar og á engan hátt villandi. Í öðru lagi bera gögn málsins það skýrt með sér að umbjóðandi minn hafði aldrei í hyggju að leyna skattyfirvöld neinu því, sem máli skipti, eða gefa þeim rangar upplýsingar, heldur hagaði hann viðskiptum við dótturfyrirtæki sitt á þann veg sem hann taldi sér heimilt samkvæmt gildandi skattalögum. Í því sambandi er nauðsynlegt að ítreka að sem fyrr segir er það algengt að tengd fyrirtæki í atvinnurekstri hagi viðskiptum sínum þannig að þau nýti eftirstöðvar rekstrartapa í samræmi við reglur skattalaga. Sé engum upplýsingum leynt í því sambandi né rangar upplýsingar gefnar er fráleitt að slíkt teljist refsivert, jafnvel þótt niðurstaðan yrði sú, í skattalegu tilliti, að talið yrði við nánari athugun að um væri að ræða óvenjuleg skipti í fjármálum í skilningi 58. gr. laga nr. 75/1981 þannig að skattar þeirra fyrirtækja, sem í hlut ættu, yrðu hugsanlega endurákvarðaðir, að viðbættu álagi, sbr. 96. og 106. grein laganna. Skal það áréttað að í álagi samkvæmt 106. grein felast að sjálfsögðu viðurlög þótt þau verði ekki lögð að jöfnu við refsingar samkvæmt 107. grein laganna.
Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, tel ég einsýnt að sýkna beri umbjóðanda minn af refsikröfu skattrannsóknarstjóra í máli þessu. Vil ég til enn frekari stuðnings þeirri kröfu vísa til 45. greinar laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 22. grein laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd.“
II.
Krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um sektarákvörðun á hendur gjaldanda, A hf., er byggð á því að hann hafi vantalið tekjur í ársreikningi fyrir rekstrarárið 1992, er fylgdi skattframtali gjaldanda árið 1993, um 6.123.346 kr. vegna kaupa á vörum frá hlutafélaginu X við afbrigðilegu verði.
Mál þetta á rót að rekja til athugunar skattstjórans í Reykjavík á skattframtali X hf. árið 1993. Í framhaldi af bréfaskiptum við þann aðila krafði skattstjóri gjaldanda, A hf., með bréfi, dags. 27. ágúst 1993, um gögn og skýringar vegna viðskipta hlutafélaganna tveggja. Í framhaldi af svarbréfi gjaldanda, dags. 24. september 1993, boðaði skattstjóri gjaldanda með bréfi, dags. 12. október 1993, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 1992 og 1993, síðara gjaldárið meðal annars vegna þess að fyrirhugað væri að færa gjaldanda til tekna „þau verðmæti sem hefðu runnið til yðar, en gera það ekki vegna ofangreinds samnings yðar og X hf.“ að fjárhæð 6.124.346 kr. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að fengnum athugasemdum og mótmælum umboðsmanns gjaldanda, dags. 20. október 1993, hratt skattstjóri boðaðri endurákvörðun í framkvæmd hinn 17. nóvember 1993. Gjaldandi kærði endurákvörðun skattstjóra ekki til hans. Með bréfi, dags. 5. janúar 1994, sendi skattstjóri málið til skattrannsóknarstjóra ríkisins og vísaði í því sambandi til 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 111/1992.
Með lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, var sett á fót embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og tók það við þeim störfum sem áður voru með lögum falin rannsóknardeild ríkisskattstjóra undir stjórn skattrannsóknarstjóra, sbr. þágildandi 102. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 111/1992 að með þessum breytingum hafi verið stefnt að því að skilja fullkomlega milli rannsóknarvalds og úrskurðarvalds í skattamálum. Í athugasemdunum er jafnframt greint frá því að gert sé ráð fyrir að skatteftirlit verði í höndum skattstjóra og ríkisskattstjóra. Um skil skatteftirlits og skattrannsókna segir svo í athugasemdunum:
„Með skatteftirliti hefur verið átt við þann hluta skattendurskoðunar eftir að álagning hefur farið fram og fer fram utan skattstofu, í starfsstöð eða skrifstofu skattaðilans. Skatteftirlitið hefur þannig verið hluti hinnar almennu skattendurskoðunar sem fer fram án þess að fyrir liggi nokkur ákveðinn grunur um skattsvik. ... Tilgangur með skatteftirliti hefur fyrst og fremst verið sá að veita almennt aðhald og hafa varnaðaráhrif en einnig að skapa grundvöll fyrir gjaldahækkunum í einstökum málum. Með skattrannsóknum er annars vegar verið að skapa grundvöll fyrir gjaldahækkunum með því að afla sönnunargagna í skattsvikamálum og hins vegar að undirbúa refsimeðferð sem getur verið annaðhvort sektarmeðferð hjá yfirskattanefnd eða opinber refsimeðferð hjá dómstólum eftir rannsókn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins á refsiþættinum.“
Samkvæmt niðurlagsákvæðum 96. og 101. gr. laga nr. 75/1981, sbr. lög nr. 111/1992, skulu skattstjórar og ríkisskattstjóri tilkynna skattrannsóknarstjóra ríkisins um skattsvik sem þeir hafa grun um að framin hafi verið. Skal skattrannsóknarstjóri ríkisins ákveða um framhald málsins. Fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 111/1992 að ekki sé ætlast til að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti falið skattstjóra skattrannsókn í skattsvikamálum, svo sem verið hafi, enda sé með frumvarpinu stefnt að aðskilnaði rannsóknarvalds og úrskurðarvalds. Um meðferð mála fyrir skattrannsóknarstjóra ríkisins fer eftir ákvæðum 102. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. lög nr. 111/1992. Með 13. gr. laga nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, var því ákvæði bætt við fyrrnefnt lagaákvæði að við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra ríkisins skuli gætt ákvæða laga um meðferð opinberra mála eftir því sem við geti átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. Ákvæði þetta var borið fram af 1. minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og kemur fram í nefndaráliti að með því sé tekinn af allur vafi um að skattrannsóknarstjóra ríkisins beri í hvívetna að gæta ákvæða laga um meðferð opinberra mála í samskiptum sínum við þá aðila sem til rannsóknar séu, en þeirri reglu hafi verið fylgt í starfi embættisins til þessa. Telja verður að með tilvísun til laga um meðferð opinberra mála sé einkum vísað til ákvæða VI. kafla laganna, er fjallar meðal annars um réttarstöðu sakbornings, vitna og réttargæslumanns, en einnig getur hér átt við, eins og stöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins er háttað gagnvart kröfum um sektarákvörðun yfirskattanefndar, ákvæði XIV. kafla um saksókn og undirbúning málsmeðferðar. Þá athugist að samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skal við sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd gæta ákvæða laga um meðferð opinberra mála að því er varðar rétt sökunautar og varnir hans.
Þegar til framangreindra lagaákvæða er litið og þeirra lögskýringargagna sem fallin eru til skýringar á þeim, sbr. það sem rakið hefur verið, verður ekki talið að nægilegur grundvöllur hafi verið lagður að ákvörðun um sekt á hendur gjaldanda, A hf., með því að fyrir liggur að mál hans hefur ekki sætt sjálfstæðri rannsókn af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Verður talið að skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið rétt að hefjast handa með skattrannsókn á máli gjaldanda til undirbúnings refsimeðferð, þótt málið hafi að öðru leyti fengið úrlausn hjá skattstjóra. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er máli þessu vísað frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá yfirskattanefnd.