Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjuuppgjör rekstrar
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 128/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 59. gr. 2. mgr.  

Talið var að tekjur kæranda, sem var samlagsfélag, vegna vinnu sem félagið innti af hendi í desember 2015 tilheyrðu tekjuárinu 2015. Kom fram í því sambandi að engu breytti um tímaviðmið tekjufærslu hvenær reikningur væri gefinn út eða hvenær hann væri greiddur.

Ár 2017, miðvikudaginn 6. september, er tekið fyrir mál nr. 59/2017; kæra A slf., dags. 6. apríl 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2016 og sætti af þeim sökum áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2016, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Samkvæmt gögnum málsins barst ríkisskattstjóra skattframtal kæranda árið 2016 hinn 16. nóvember 2016. Með kæruúrskurði, dags. 27. janúar 2017, tók ríkisskattstjóri skattframtalið til afgreiðslu sem skattkæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda í stað áætlunar, en að gerðum tilteknum breytingum á framtalinu. Kom fram að með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. janúar 2017, hefði verið lagt fyrir kæranda að leggja fram gögn og skýringar vegna misræmis milli launamiða frá Landspítala og tilfærðrar veltu í skattframtali kæranda. Kærandi hefði fengið verktakagreiðslur frá spítalanum árið 2015 að fjárhæð 3.355.146 kr. án virðisaukaskatts, en tilfærð velta numið 2.991.968 kr. samkvæmt skattframtali. Ekkert svar hefði borist og því hefði sú breyting verið gerð á innsendu skattframtali að svo stöddu að virðisaukaskattsskyld velta í reit 1017 hefði verið hækkuð úr 2.991.968 kr. í 3.355.146 kr. Af því leiddi að hagnaður í reit 4990 hækkaði úr 1.743.353 kr. í 2.106.531 kr. Ríkisskattstjóri tók fram að tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2016 yrði 2.106.531 kr. og stofn til tryggingagjalds yrði 848.880 kr.

Með bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 9. febrúar 2017, bárust upplýsingar um hvernig viðskiptum kæranda við Landspítalann hefði verið háttað. Var tekið fram í bréfinu að það væri skoðun kæranda að gerð væri grein fyrir öllum tekjum ársins í skattframtali félagsins og að launamiði frá Landspítalanum væri rangur. Fylgdi bréfinu afrit af tölvupóstsamskiptum við Landspítalann þar sem skýring væri gefin á fjárhæð launamiða, auk hreyfingalista skuldunauta.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á kæruúrskurði embættisins, dags. 27. janúar 2017, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og féllst á endurupptöku málsins með úrskurði, dags. 17. mars 2017. Kom fram í úrskurði þessum að á reikningi, dags. 5. janúar 2016, sem fylgt hefði erindi kæranda, dags. 9. febrúar 2017, kæmi fram um hefði verið að ræða vinnu í 51. og 52. viku. Væri því ljóst að um væri að ræða vinnu sem innt hefði verið af hendi á árinu 2015. Bæri því að telja umræddar tekjur að fullu með tekjum ársins 2015, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að tekjur skyldi að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær yrðu til, þ.e. þegar myndast hefði krafa þeirra vegna á hendur einhverjum. Samkvæmt framansögðu leiddu framlögð gögn og viðbótarupplýsingar kæranda ekki til breytinga á fyrri niðurstöðu ríkisskattstjóra.

II.

Með kæru, dags. 6. apríl 2017, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. mars 2017, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi. Í kærunni er rakið að samkvæmt samkomulagi kæranda við Landspítalann sé uppgjörstímabil reikninga frá 15. hvers mánaðar til 15. næsta mánaðar og hafi verið innheimt samkvæmt því frá upphafi. Þá séu settar tvær vikur á hvern reikning þar sem tölvukerfið bjóði ekki upp á nema tvö viðhengi með hverjum reikningi og Landspítalinn vilji fá nánari sundurliðun verks með reikningum. Umrædd áramót hafi svo viljað til að reikningur hafi verið sendur þann 5. janúar en ekki í kringum fimmtánda eins og samkomulagið hafi gert ráð fyrir, enda hafi reikningurinn ekki verið greiddur fyrr en 1. febrúar 2016. Í svari Landspítalans við ósk kæranda um að launamiðinn yrði lagfærður hafi komið fram að reikningurinn væri inni í launamiðatöflunni þar sem hann hafi verið vegna vinnu sem unnin hefði verið í desember 2015 og þar sem Landspítalinn gjaldfæri gjöld á það tímabil er þau falli til. Þá kemur fram í kærunni að óeðlilegt sé að launamiðar séu sendir vegna áfallins kostnaðar verktaka. Þannig fái launþegar varla launamiða vegna yfirvinnu í desember sem greidd sé með janúarlaunum þrátt fyrir að sá launakostnaður sé færður í rekstri sem áfallinn kostnaður. Kærunni fylgir m.a. tölvupóstur frá Landspítalanum til umboðsmanns kæranda, dags. 2. febrúar 2017, afrit af reikningi, dags. 5. janúar 2016, útgefnum á Landspítala af kæranda, og hreyfingayfirlit kæranda vegna viðskipta við Landspítalann á tímabilinu 1. september 2015 til 31. desember 2016.

III.

Með bréfi, dags. 15. maí 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. júní 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Meginregla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna og er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“ Meginregla þessi, kröfustofnunarregla, var upphaflega lögfest með 2. mgr. 7. gr. laga nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, og hefur æ síðan verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um nýmæli þetta sagði svo í athugasemdum með 8. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 6/1935, en grein þessi varð 7. gr. laganna (Alþt. 1934, A-deild, bls. 101–102): „Að lokum er bætt við greinina því nýmæli, að tekjur skuli jafnan telja til tekna á því ári er þær verða til, þ.e. þegar vegna þeirra hefur myndast krafa á hendur öðrum, þótt ógreitt sé. Er það í samræmi við framtalsvenju manna almennt, en auðveldara er til samanburðar og yfirlits fyrir skattanefndir, að sem flestir fylgi sömu framtalsreglu að þessu leyti.“

Á reikningi kæranda til Landspítalans, dags. 5. janúar 2016, kemur fram að um sé að ræða dagvinnu og eftirvinnu „vika 51 - 52“. Verður það ekki skilið á annan veg en að um sé að ræða verk unnin á síðustu tveimur vikum ársins 2015. Auk þess liggur fyrir í gögnum málsins tölvupóstur frá starfsmanni bókhaldsdeildar Landspítalans þar sem fram kemur að umræddur reikningur sé vegna vinnu sem unnin hafi verið í desember 2015. Vegna athugasemda kæranda skal tekið fram að engu breytir um tímaviðmið tekjufærslu hvenær reikningur var gefinn út eða hvenær hann var greiddur, sbr. umfjöllun um 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 hér að framan. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja