Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Úrvinnslugjald

Úrskurður nr. 138/2017

Bifreiðagjald og úrvinnslugjald 2017

Lög nr. 39/1988, 2. gr. (brl. nr. 156/2010, 10. gr.)   Lög nr. 162/2002, 5. gr.  

Kröfum kæranda um niðurfellingu eða lækkun bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds vegna bifreiðar hennar, sem byggðust m.a. á því að enginn koltvísýringur hefði mælst frá bifreiðinni, var hafnað. Taldi yfirskattanefnd að þar sem ekkert væri skráð í ökutækjaskrá um losun koltvísýrings bifreiðarinnar færi um ákvörðun bifreiðagjalds eftir fyrirmælum 3. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988, hvað sem liði mælingum skoðunarstofu um CO-innihald í útblæstri bifreiðarinnar.

Ár 2017, miðvikudaginn 13. september, er tekið fyrir mál nr. 49/2017; kæra A, dags. 29. mars 2017, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds árið 2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að með kæru, mótt. 5. janúar 2017 hjá ríkisskattstjóra, óskaði kærandi eftir niðurfellingu eða lækkun bifreiðagjalds og úrvinnslugjalds af ökutækinu L. Kom fram í kærunni að samkvæmt 2. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skyldi bifreiðagjald miðast við losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Ökutæki kæranda hefði farið í skoðun hjá Frumherja ehf. og enginn koltvísýringur hefði mælst frá bifreiðinni. Vegna úrvinnslugjalds vísaði kærandi til þess að gjald þetta hefði verið greitt fyrirfram við kaup á ökutækinu og einnig við kaup á eldsneyti fyrir ökutækið.

Með úrskurði, dags. 1. febrúar 2017, synjaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988 skyldi bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili miðast við skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis. Fjárhæð gjaldsins væri tiltekin í 2. mgr. greinarinnar, þar sem fram kæmi að bifreiðagjald ökutækis á hverju gjaldtímabili að eigin þyngd 3.500 kg eða minna skyldi vera 5.810 kr. fyrir losun allt að 121 gramms af skráðri kolefnislosun ökutækis, en 139 kr. fyrir hvert gramm af skráðri losun umfram það. Í 3. mgr. greinarinnar kæmi fram að lægju upplýsingar um skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis ekki fyrir, skyldi losun ökutækis ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kílógramm skráðrar eigin þyngdar ökutækis, að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi. Skráning ökutækja væri á hendi Samgöngustofu, sbr. reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með áorðnum breytingum, sem ætti lagastoð í 60. gr., 64. gr. a og 67. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum. Í ökutækjaskrá Samgöngustofu væri enginn CO2 útblástur skráður vegna ökutækis kæranda. Skráð eigin þyngd ökutækisins væri 1.860 kílógrömm. Útreikningur á losun koltvísýrings væri því þannig að þyngd ökutækisins, 1.860 kílógrömm, væri margfölduð með 0,12 grömmum á hvert kílógramm, að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi, og teldist því vera 273,2 grömm koltvísýrings. Fjárhæð bifreiðagjaldsins væri því 26.965 kr. fyrir hvort tímabil ársins 2017 (139 x (273,2 ­– 121) + 5.810). Yrði ekki annað séð en að álagt bifreiðagjald á ökutækið væri rétt samkvæmt lögum. Úrvinnslugjald væri lagt á ökutæki samkvæmt 5. gr. laga nr. 163/2002, um úrvinnslugjald. Úrvinnslugjald sem lagt væri á olíuvörur samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 162/2002 eða öðrum ákvæðum sömu laga hefði ekki áhrif á álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki samkvæmt ákvæðum 5. gr. laganna. Í niðurlagi úrskurðarins var kæranda bent á að senda beiðni um leiðréttingu til Samgöngustofu ef talið væri að skráning ökutækisins í opinberri ökutækjaskrá væri röng.

II.

Með kæru, dags. 29. mars 2017, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 1. febrúar 2017, til yfirskattanefndar. Þess er krafist að álagt bifreiðagjald og úrvinnslugjald fyrir bifreiðina L verði fellt niður. Krafa um niðurfellingu bifreiðagjaldsins er byggð á því að bifreiðin losi ekki gasefnið CO2 úr útblástursröri. Álagningu úrvinnslugjalds er mótmælt á þeim grundvelli að það hafi verið greitt við kaup á bílnum frá umboðsaðila sem og við kaup á eldsneyti við dælu.

Til stuðnings kröfum kæranda er í kærunni vísað til upplýsinga sem framleiðandi og umboðsaðili bifreiðarinnar hafi sent til Samgöngustofu, svo og til upplýsinga í skoðunarvottorði bifreiðarinnar, dags. 28. júlí 2016, og skráningarskírteini bifreiðarinnar, útg. 19. apríl 2010. Bifreiðin sé útbúin sérstöku hreinsikerfi sem kallist „catalytic converter“. Frá bifreiðinni komi gastegundirnar NO og CO að viðbættu brennisteinsgasinu SO. Hvorki framleiðandi né umboðsaðili bifreiðarinnar hafi sent upplýsingar um CO2 útblástur til Samgöngustofu. Bifreiðinni sé ekið um 4.000 km á hverjum sex mánuðum og noti um 280 lítra af olíu á því tímabili. Útilokað sé að 280 lítrar af olíu geti orðið að 1000 kg af efninu CO2.

Í meðfylgjandi bréfi frá Samgöngustofu, dags. 8. mars 2017, sé því ranglega haldið fram að upplýsingar um CO2 losun bifreiðarinnar komi frá framleiðanda hennar. Þessar upplýsingar, sem séu rangar, komi frá Samgöngustofu og virðist vera áætlaðar út frá þyngd bifreiðarinnar. Bifreiðin hafi verið mengunarmæld í þar til gerðu tæki og sú niðurstaða hafi verið færð í skoðunarvottorð. Samkvæmt skoðunarvottorði Frumherja ehf. fyrir bifreiðina, dags. 25. október 2016, komi ekki fram losun á CO2 frá útblástursröri bílsins.

Kærandi vísar til þess að í 2. gr. laga nr. 39/1988 komi fram að bifreiðagjald á hverju tímabili miðist við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Skráð losun sé mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra. Kærandi eigi mælitæki sem mæli CO2 í andrúmslofti og krefjist þess að fá möguleika til að sýna fulltrúum yfirskattanefndar notkun tækisins svo nefndarmenn fái séð og skilið hvar og hvernig CO2 sé mælt í andrúmslofti. Andrúmsloftið samanstandi af 76% nitri, 23% súrefni, og síðan 1% af öðrum lofttegundum, þ.m.t. kolefni. Lofttegundin CO2 sé kolefni í bland við O2. Þannig sjúgi bílvélin loftegundir andrúmsloftsins inn í blöndung bifreiðarinnar, sem brenni þar í orkuvinnslu. Frá útblástursröri bifreiðarinnar komi þannig aðeins gastegundirnar NO, CO og SO.

III.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. apríl 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 3. maí 2017, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er ítrekað að CO2 komi ekki frá púströri bifreiðar kæranda, en bifreiðin sé útbúin hvarfakúti sem sendi útblástur frá bifreiðinni aftur inn í brunahólfið til að fullnýta eldsneyti. Kærandi geri þá kröfu að yfirskattanefnd leiti til sérfræðinga um málefni gastegunda frá útblástursrörum bifreiða. Það hafi kærandi gert, sbr. meðfylgjandi tölvubréf frá sérfræðingi innanríkisráðuneytisins, dags. 27. apríl 2017.

IV.

Í máli þessu sætir kæru ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 1. febrúar 2017, um álagningu bifreiðagjalds samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, og álagningu úrvinnslugjalds samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum, vegna bifreiðarinnar L. Víkur fyrst að kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna, svo sem sú lagagrein orðast eftir breytingu samkvæmt 10. gr. laga nr. 156/2010, miðast bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili við skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis, en samkvæmt eldri tilhögun miðaðist fjárhæð gjaldsins við þyngd bifreiðar. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skal bifreiðagjald ökutækis á hverju gjaldtímabili, að eigin þyngd 3.500 kg eða minna, vera 5.810 kr. fyrir losun allt að 121 gramms af skráðri kolefnislosun ökutækis en 139 kr. fyrir hvert gramm af skráðri losun umfram það. Í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að liggi upplýsingar um skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis ekki fyrir skuli losun ökutækis ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi.

Í 64. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 kemur fram að ráðherra setji reglur um skráningu ökutækja. Í 4. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum, kemur fram að Umferðarstofa haldi ökutækjaskrá og annist aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 156/2010 kemur fram að lagt sé til að bifreiðagjald miðist við skráða kolefnislosun ökutækis hjá Umferðarstofu. Með lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, færðust öll verkefni Umferðarstofu til Samgöngustofu. Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að með orðalagi um skráða losun koltvísýrings í 2. gr. laga nr. 39/1988 sé átt við skráningu koltvísýrings viðkomandi ökutækis í ökutækjaskrá Samgöngustofu.

Óumdeilt er í málinu að ekkert er skráð í ökutækjaskrá um losun koltvísýrings ökutækisins L. Við þær aðstæður verður að líta svo á að upplýsingar um losun bifreiðarinnar liggi ekki fyrir í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988. Fer þá um ákvörðun bifreiðagjalds vegna umrædds ökutækis eftir fyrirmælum greinds lagaákvæðis, hvað sem líður niðurstöðu mælingar skoðunarstofu um CO-innihald í útblæstri bifreiðarinnar, sem kærandi vísar til. Ekki er í málinu deilt um fjárhæð bifreiðagjaldsins miðað við forsendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 39/1988. Samkvæmt því og þar sem ekkert liggur fyrir um að ökutæki kæranda sé undanþegið gjaldskyldu bifreiðagjalds samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988 verður að hafna kröfu kæranda um þetta kæruatriði.

Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu úrvinnslugjalds. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, skal leggja úrvinnslugjald á vörur, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til að stuðla að úrvinnslu úrgangs. Um álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki er fjallað í 5. gr. laga nr. 162/2002. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal skráður eigandi gjaldskylds ökutækis á hverju gjaldtímabili greiða úrvinnslugjald að fjárhæð 350 kr. fyrir hvert gjaldskylt ökutæki sitt skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Gjalddagar úrvinnslugjalds á ökutæki eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar – 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí – 31. desember. Gjaldið skal innheimt með bifreiðagjaldi og fer um greiðsluskyldu, gjalddaga, eindaga, álagningu, innheimtu gjaldsins og kæruheimild samkvæmt lögum um bifreiðagjald. Í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 162/2002 kemur fram að bifreiðar sem séu undanþegnar bifreiðagjaldi samkvæmt 4. gr. laga um bifreiðagjald séu gjaldskyldar til úrvinnslugjalds. Þá er lagt úrvinnslugjald á ýmsar vörur eftir ákvæðum 7. gr. a og 8. gr. laganna, þar á meðal olíuvörur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna.

Krafa kæranda um niðurfellingu úrvinnslugjalds er byggð á því að kærandi hafi þegar greitt úrvinnslugjald við kaup á bifreiðinni frá umboði og við kaup á eldsneyti við dælu, eins og segir í kærunni. Ekki verður fallist á með kæranda að innheimta úrvinnslugjalds á grundvelli ákvæða 7. gr. a eða 8. gr. laga nr. 162/2002 hafi þýðingu varðandi skyldu kæranda til greiðslu gjalds þessa sem eigandi gjaldskylds ökutækis samkvæmt 5. gr. laganna. Að svo vöxnu og þar sem ekkert er komið fram um ökutæki kæranda skuli vera undanþegið úrvinnslugjaldi samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 162/2002, sbr. 4. gr. laga um bifreiðagjald, er kröfu kæranda um þetta kæruatriði hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja