Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 258/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 8. gr. 1. mgr. 4. tl. — 74. gr. 5. tl.   Lög nr. 36/1986 — 11. gr.   Reglur nr. 268/1985  

Eignarskattur — Eignfærsla — Eignarskattsstofn — Eignarskattsverð — Verðbréf — Skuldabréf — Bankabréf — Gengi verðbréfa — Kaupþing — Kaupþingsverð — Verðbréfaþing Íslands — Verðbréfaþing — Afföll — Vaxtatekjur — Nafnverð verðbréfa — Kaupþingsskráning verðbréfa

Málavextir eru þeir, að kærandi fékk greiddar bætur vegna varanlegrar örorku á árinu 1988. Bótafénu ráðstafaði hann til kaupa á bankabréfum, útgefnum af Landsbanka Íslands. Bréfin voru að nafnverði 8.500.000 kr. en kaupverð þeirra var 5.599.970 kr. Samkvæmt skilmálum bréfa þessara greiðast þau upp í einu lagi 12. október 1993. Þau eru bundin lánskjaravísitölu með grunnviðmiðun 2264 í október 1988. Sérstök vaxtaákvæði eru ekki í bréfunum, en ávöxtunarkrafa við kaup þeirra þann 21. október 1988 var 8,75% samkvæmt uppgjöri vegna verðbréfakaupanna er liggur fyrir í málinu. Sölugengi var 65,9%. Kærandi færði þessi bréf til eignar á nafnverði 8.500.000 kr. í dálk 10.3 reit 13 í eignahlið skattframtals síns árið 1989. Var byggt á þeirri eignfærslu við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 25. ágúst 1989, og farið fram á, að fjárhæð fyrrnefndra bankabréfa til eignarskatts yrði lækkuð úr 8.500.000 kr. í 5.650.000 kr., sem hefði verið verðmæti bréfa þessara í árslok 1988 samkvæmt upplýsingum Landsbanka Íslands.

Með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem svo væri mælt fyrir að telja beri skuldabréf og önnur slík verðbréf til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól, er miðaðist við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. desember 1989. Kæran er svohljóðandi:

„Kærð er álagning opinberra gjalda 1989. Ástæða kærunnar er sú að á árinu 1988 fékk A slysabætur frá X hf. að upphæð kr. 6.020.900,-.

Fyrir þessa peninga keypti A Bankabréf hjá Landsbanka Íslands að nafnverði kr. 8.500.000,- en greiddi fyrir þau kr. 5.599.970,- þann 21.10.1988.

Bréf þessi verða greidd út af Landsbanka Íslands þann 12.10.1993 með kr. 8.500.000,-. Farið er fram á að verðbréfaeign í árslok (reit 10.3) á framtali verði kr. 5.650.000,- en ekki nafnverð bréfanna þann 12.10.1993 kr. 8.500.000,-.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbanka Íslands var verðmæti bréfanna í árslok 1988 kr. 5.650.000,-.

Úrskurður skattstjóra var sá að samkvæmt 5. tl. 74. gr. sbr. 73. gr. laga nr. 75/1981 skal telja skuldabréf og önnur slík verðbréf til eigna á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs.

Einnig segir í 5. tl. 74. gr. : „Séu hlutabréf eða önnur verðbréf skráð á opinberu kaupþingi skal telja þau til eigna á kaupþingsverði síðasta kaupþingsdag fyrir lok reikningsárs:“ Samkvæmt upplýsingum frá Landsbanka Íslands var kaupþingsverðmæti verðbréfanna í árslok 1988 kr. 5.650.000,-. Óskast því eignarskattsstofn A leiðréttur til samræmis við það.“

Með bréfi, dags. 12. mars 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að því virtu, sem upplýst er í málinu um nefnd bankabréf þar á meðal skilmála þeirra, þykir sýnt, að eignarskattsstofn hafi verið ofreiknaður í skattframtali kæranda árið 1989 vegna þeirra. Kærandi telur að beita beri niðurlagsákvæði 1. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi eignfærslu bréfa þessara til skatts, þ.e.a.s. miða við kaupþingsverð síðasta kaupþingsdags fyrir lok reikningsárs. Eigi liggur fyrir að bréf þessi séu skráð á opinberu kaupþingi og samkvæmt upplýsingum Verðbréfaþings Íslands, sbr. 11. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands og reglur nr. 268/1985, hafa bréf þess flokks, sem hér um ræðir, ekki verið skráð þar. Að virtum öllum málavöxtum og með hliðsjón af 4. tl. 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir hins vegar mega fallast á þá lækkun eignarskattsstofns, sem af kröfugerð kæranda leiðir, enda þykja engin sérstök efni til vefenginga fjárhæða í þessu sambandi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja