Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Kolefnisgjald
  • Endursending vöru til útlanda

Úrskurður nr. 143/2017

Lög nr. 88/2005, 7. gr. 1. mgr. 7. tölul., 116. gr.   Lög nr. 129/2009, 1. gr., 2. gr., 4. gr.   Reglugerð nr. 630/2008, 53. gr.  

Kærandi fór fram á endurgreiðslu kolefnisgjalds af eldsneyti sem kærandi flutti til landsins og seldi síðar erlendu félagi. Talið var að krafa kæranda um endurgreiðslu kolefnisgjalds vegna sölu eldsneytisins yrði að byggjast á ákvæðum 7. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar sem fyrir lá að beiðni kæranda um undanþágu var ekki lögð fram fyrr en að liðnum sex mánaða fresti til að láta tollstjóra í té slíka beiðni var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2017, miðvikudaginn 13. september, er tekið fyrir mál nr. 222/2016; kæra A hf., dags. 18. nóvember 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 18. nóvember 2016, varðar kæruúrskurð tollstjóra, dags. 22. ágúst 2016, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings á eldsneyti sem kærandi seldi erlendu félagi, P AS, á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013. Er kæruefni málsins sú ákvörðun tollstjóra í úrskurðinum að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu kolefnisgjalds af hinu selda eldsneyti, sbr. I. kafla laga nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, en sú ákvörðun var byggð á því að sex mánaða frestur til að sækja um undanþágu aðflutningsgjalda vegna ráðstöfunar eldsneytisins til útlanda, sbr. 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, væri liðinn í tilviki kæranda. Í kæru kæranda er þess krafist að kæranda verði endurgreidd kolefnisgjöld að fjárhæð alls 19.856.587 kr. vegna sölu á eldsneyti til útlanda á fyrrgreindum árum. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Helstu málavextir eru þeir að hinn 26. apríl 2016 óskaði kærandi eftir endurgreiðslu kolefnisgjalda að fjárhæð 19.856.587 kr. af eldsneyti sem selt hefði verið erlendum aðila á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013. Með bréfi, dags. 19. maí 2016, hafnaði tollstjóri beiðni kæranda þar sem sex mánaða frestur til að sækja um undanþágu væri liðinn, sbr. 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

Með kæru til tollstjóra, dags. 19. júlí 2016, sbr. og greinargerð, dags. 21. sama mánaðar, fór kærandi fram á að ákvörðun tollstjóra yrði endurskoðuð og kæranda yrðu endurgreidd umrædd kolefnisgjöld. Í kærunni kom fram að kaupandi eldsneytisins, P AS, væri erlendur aðili sem ekki greiddi virðisaukaskatt á Íslandi. Var tilvísun tollstjóra til 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 mótmælt á þeim grundvelli að ákvæðið væri í andstöðu við fyrirmæli almennra laga. Samkvæmt 144. gr. tollalaga nr. 88/2005 ættu ákvæði þeirra laga um innflutning einnig að gilda um útflutning og umflutning eftir því sem við gæti átt. Því ættu ákvæði 116. gr. sömu laga við í málinu, en samkvæmt þeim ákvæðum væru tímamörk til að leiðrétta rangar eða ófullnægjandi upplýsingar eftir tollafgreiðslu á innfluttri vöru sex ár frá tollafgreiðsludegi. Þannig væri ekkert því til fyrirstöðu að leiðrétting færi fram á greiddu kolefnisgjaldi.

Með kæruúrskurði, dags. 22. ágúst 2016, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda. Fram kom í úrskurði tollstjóra að meginreglan væri sú að greiða bæri aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar væru til landsins, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Bæri að túlka allar undantekningar frá almennri toll- og gjaldskyldu þröngt. Í 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2005 væri að finna undantekningu frá greindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu skyldi tollur lækka, falla niður eða endurgreiðast af vörum sem tollafgreiddar hefðu verið hingað til lands en væru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna væri ráðherra heimilt að kveða nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt greininni. Ákvæði 7. tölul. 7. gr. laganna væri síðan nánar útfært í 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í því ákvæði kæmi fram að tollstjóri skyldi fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem væri seld til útlanda innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama ætti við um ótollafgreidda vöru sem send væri ónotuð til útlanda. Beiðni um undanþágu skyldi látin tollstjóra í té innan sex mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu á vöru í tollfrjálsa verslun, forðageymslu eða á frísvæði.

Í úrskurði tollstjóra var röksemdum kæranda þess efnis að tímamörk í 116. gr. laga nr. 88/2005 ættu við í málinu hafnað. Í 144. gr. laganna væri fyrirvari um að ákvæði þeirra ættu við um útflutning og umflutning eftir því sem við gæti átt. Í máli kæranda hefði olíu verið dælt á skip til að knýja það. Ekki væri því um eiginlegan útflutning að ræða „heldur sölu til erlendra aðila úr landi“, eins og þar sagði. Þannig lægi ekkert sendingarnúmer fyrir og engin útflutningsskýrsla væri til staðar til að leiðrétta. Í framkvæmd væru ákvæði 116. gr. laga nr. 88/2005 notuð til að leiðrétta t.d. tollflokk eða annað sem lægi til grundvallar ákvörðunar gjalda, en ekki væri um neitt slíkt að ræða hér. Mál kæranda varðaði beiðni um endurgreiðslu samkvæmt álögðum gjöldum vegna sölu úr landi. Með vísan til þess væri ekki til staðar heimild til að fallast á beiðni kæranda um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna sölu eldsneytis á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013, enda hefði beiðni þess efnis ekki borist innan þess frests sem tilgreindur væri í 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Kröfu kæranda væri því hafnað.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 18. nóvember 2016, er þess krafist að kæranda verði endurgreidd kolefnisgjöld að fjárhæð samtals 19.856.587 kr. vegna sölu á eldsneyti á erlend skip á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi selt skipaolíu til erlendra aðila og eigi því rétt á endurgreiðslu á kolefnisgjaldi. Um sé að ræða sölu til erlends félags, P AS. Um kolefnisgjald gildi lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Álögð gjöld samkvæmt lögunum myndi gjaldstofn til virðisaukaskatts, sbr. 3. gr. þeirra laga. Samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skuli greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 megi þeir aðilar, sem séu undanþegnir skattskyldu, ekki tilgreina á reikningum sínum né gefa á annan hátt til kynna að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð. Byggt sé á því að þar sem P AS sé erlendur aðili sem greiði ekki virðisaukaskatt á Íslandi sé ekkert því til fyrirstöðu að kolefnisgjald verði leiðrétt. Um sé að ræða endurgreiðslu á kolefnisgjaldi árið 2010 að fjárhæð 1.032.009 kr., árið 2011 að fjárhæð 3.284.755 kr., árið 2012 að fjárhæð 5.907.487 kr. og árið 2013 að fjárhæð 9.632.927 kr. Er í þessu sambandi vísað til fylgiskjala með kærunni, þ.e. sölureikninga og fylgiskjala þeirra og fyrirliggjandi umsókna til tollstjóra um endurgreiðslu tolla og annarra gjalda.

Fram kemur að höfnun tollstjóra um endurgreiðslu snúi einungis að því að beiðni þess efnis hafi ekki verið látin tollstjóra í té innan sex mánaða í samræmi við ákvæði 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Það sé mat kæranda að reglugerðarákvæðið sé í andstöðu við almenn fyrirmæli laga. Í 4. gr. laga nr. 129/2009 komi fram að að því leyti sem eigi sé kveðið á gjaldskyldu, eftirlit, innheimtu, vörslusviptingu, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi kolefnisgjald, skv. I. kafla laganna, skuli gilda ákvæði laga nr. 88/2005 um innfluttar vörur eftir því sem við geti átt. Í XIX. kafla laga nr. 88/2005 sé fjallað um útflutning. Í 144. gr. laganna komi fram að ákvæði laganna um innflutning gildi einnig um útflutning og umflutning eftir því við geti átt. Þannig gildi 116. gr. laganna einnig um útflutning, en þar komi fram að ef innflytjandi verði þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, hafi verið rangar eða ófullnægjandi, skuli hann leggja fram beiðni hjá tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi selt vörur til félags sem ekki hafi verið með heimilisfesti á Íslandi og olían hafi ekki verið notuð á Íslandi. Því sé um útflutning að ræða. Í kærunni er á því byggt að ekkert sé því til fyrirstöðu að leiðrétting verði gerð á kolefnisgjaldinu og miða beri leiðréttinguna við sex ár aftur í tímann. Stjórnvaldsfyrirmæli geti ekki breytt almennum lögum. Tollstjóri sé bundinn af lögum nr. 129/2009 og lögum nr. 88/2005.

IV.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2017, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að niðurstaða tollstjóra verði staðfest. Í umsögninni eru áréttuð þau rök og sjónarmið sem fram komu í hinum kærða úrskurði tollstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 2017, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2017, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er ítrekað í bréfinu að þau ákvæði reglugerðar nr. 630/2008, sem tollstjóri byggi á, séu í andstöðu við tollalög nr. 88/2005, sbr. 144. gr., sbr. 116. gr. þeirra laga. Tollalög séu íþyngjandi gagnvart gjaldendum og ávallt skuli því túlka þau gjaldanda í hag. Athugasemdum tollstjóra um að umrædd viðskipti séu ekki útflutningur sé mótmælt. Þá kemur fram að „rauði þráðurinn og efnislegt inntak tollalaga“ er varði frest aðila og endurákvarðanir sé í flestum tilvikum sex ár, sbr. 29. gr., 111. gr., 112. gr. og 116. gr. þeirra laga.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna eldsneytis sem kærandi flutti til landsins og seldi síðar erlendu félagi, P SA, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 22. ágúst 2016, þar sem fram kemur að eldsneytið hafi verið selt á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013. Er nánar tiltekið ágreiningur um þá ákvörðun tollstjóra að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu kolefnisgjalds af eldsneytinu, en sú ákvörðun var byggð á því að sex mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, til að sækja um undanþágu aðflutningsgjalda hafi verið liðinn þegar umsókn kæranda barst tollstjóra 26. apríl 2016. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og að fallist verði á endurgreiðslu kolefnisgjalds af hinu selda eldsneyti.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta, sbr. 15. gr. laga nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, skal greiða í ríkissjóð kolefnisgjald af eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna og notað er á fljótandi eða loftkenndu formi eða í iðnaðarferlum þannig að sú notkun leiði til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna á fljótandi eða loftkenndu formi er átt við gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni. Gjaldskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum eru m.a. allir þeir sem flytja til landsins vöru sem gjaldskyld er samkvæmt lögunum, hvort sem er til endursölu eða eigin nota, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/2009. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna ber gjaldskyldum aðilum að standa skil á kolefnisgjaldi við tollafgreiðslu ef um innflutning er að ræða en við afhendingu í tilviki innlendrar framleiðslu eða aðvinnslu. Annast tollstjóri álagningu og innheimtu kolefnisgjalds samkvæmt lögunum og hefur með höndum eftirlit. Að því leyti sem eigi er kveðið á um gjaldskyldu, álagningu, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, eftirlit, innheimtu, vörslusviptingu, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi kolefnisgjald samkvæmt I. kafla laga nr. 129/2009 skulu gilda ákvæði tollalaga nr. 88/2005, um innfluttar vörur og ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um innlendar framleiðsluvörur, eftir því sem við getur átt, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim, sbr. 4. gr. laga nr. 129/2009, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingu með 4. gr. laga nr. 124/2014, um breyting á ýmsum lögum.

Um niðurfellingu, lækkun eða endurgreiðslu tolls er fjallað í 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, en þar eru tilgreind þau tilvik þar sem tollur skal lækka, falla niður eða endurgreiðast að uppfylltum nánari skilyrðum. Tekur ákvæði 7. tölul. 1. mgr. greinarinnar til vara sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tollalaga getur ráðherra með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu tolls samkvæmt greininni. Um þetta gildir nú reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í XI. kafla reglugerðarinnar er fjallað um undanþágur vegna endursendingar vöru til útlanda og um gildissvið kemur nánar fram í 52. gr. reglugerðarinnar að XI. kafli gildi um undanþágu aðflutningsgjalda vegna endursendingar vöru, annað hvort hingað til lands eða til útlanda. Um ráðstöfun vöru til útlanda er fjallað í 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 og kemur þar fram í 1. mgr. að tollstjóri skuli fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem er seld til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði, innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gildir um ótollafgreidda vöru, sem send er ónotuð til útlanda. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar skal beiðni um undanþágu samkvæmt 1. mgr. látin tollstjóra í té innan sex mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Skulu nauðsynleg staðfestingarskjöl liggja til grundvallar beiðni, svo sem staðfesting tollstjóra á sölureikningi, staðfesting þess að tollskoðun vöru hafi farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar.

Fyrir liggur í málinu að kærandi innti af hendi til ríkissjóðs kolefnisgjald af hinu innflutta eldsneyti sem félagið seldi síðar, svo sem félaginu bar að gera í samræmi við fyrrgreind ákvæði laga nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Er því ekki um það að ræða að álagning kolefnisgjaldsins við innflutning eldsneytisins hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum í skilningi tollalaga nr. 88/2005 eins og kærandi hefur haldið fram, sbr. m.a. 116. gr. þeirra laga sem vísað er til í þessu sambandi í kæru til yfirskattanefndar. Verður því að telja að krafa kæranda um endurgreiðslu kolefnisgjalds vegna sölu eldsneytisins yrði að byggjast á ákvæðum 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, en í hinum kærða úrskurði tollstjóra er í því sambandi skírskotað til ákvæðis 7. tölul. 1. mgr. nefndrar lagagreinar og XI. kafla reglugerðar nr. 630/2008 vegna sölu vöru til útlanda, sbr. fyrrgreind ákvæði 4. gr. laga nr. 129/2009. Eins og fram er komið barst beiðni kæranda um endurgreiðslu hins umþrætta kolefnisgjalds tollstjóra í apríl 2016. Var þá liðinn sex mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þegar af þeirri ástæðu og þar sem ekki er neinn ágreiningur um ákvörðun tollstjóra að öðru leyti verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Er þá ekki tilefni til frekari umfjöllunar í úrskurði þessum um skilyrði undanþáguákvæðis 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008 og hvort þau skilyrði geti talist uppfyllt í tilviki kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja